- Advertisement -

Stærstu fórnarlömb hinnar grimmilegu láglaunastefnu sem iðkuð hefur verið

Við höfum ekkert að fela, fremur en fyrri daginn.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar athugasemd vegna orða sem féllu í Kastljósi fyrr í kvöld

„Það er erfitt að fá upplýsingar nákvæmlega um gang mála og hvað í raun og veru er verið að deila um.“ Þetta sagði Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, stjórnandi Kastljóss fyrr í kvöld um deilu Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Ég verð að bregðast við.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Fyrst vil ég taka fram að ekki var haft samband við mig af fréttastofu RÚV í dag og ég spurð að því hver gangur viðræðna væri.

Ég er auðvitað eins og aðrir sem sitja við samningaborðið bundin vissum trúnaði, einfaldlega vegna þess að hann skal virða samkvæmt lögum nr. 80 frá 1938 um stéttarfélög og vinnudeilur en í grein 25 segir: „Bannað er að skýra frá eða leiða vitni um umræður á sáttafundum og tillögur sem fram kunna að hafa verið bornar nema með samþykki beggja samningsaðila.“
En ef og þegar ég er spurð get ég heiðarlega greint frá því að ekki gengur vel í viðræðum. Efling lagði fram tilboð þann 24. mars. Fundurinn þar sem við lögðum fram tilboðið tók ekki meira en 15 mínútur, vegna þess að samninganefnd sveitarfélaganna hafði engan áhuga á að ræða við okkur. Segja má að hún hafi hafnað tilboðinu á staðnum. Ekki kom ósk frá þeim í kjölfar þessa fundar um að við færum nánar yfir tilboðið. Það er staðreynd. Svo leið og beið. (Hér ætti ég kannski að nefna að bæði ég og Viðar Þorsteinsson, framkvæmdarstjóri Eflingar, óskuðum eftir því að eiga samtal við Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóra Kópavogs, að mig minnir samtals í fjögur skipti. Hann svaraði okkur engu.) Þann 28. apríl eða meira en mánuði eftir að við lögðum fram tilboð okkar óskaði samninganefnd sveitarfélaganna eftir ítargögnum frá Eflingu. Tveimur dögum seinna eða þann 30. apríl lögðum við fram ítarlega greinargerð með tillögu okkar, niður á starfsheiti. Í þeim gögnum má sjá nákvæmlega um hvað tilboð okkar snýst og hverju það myndi skila félagsmönnum mínum ef að fallist yrði á það. Við höfum gert þessi gögn opinber hverjum sem þau vilja skoða á heimasíðu félagsins. Við höfum ekkert að fela, fremur en fyrri daginn.

Það er því alrangt að erfitt sé að átta sig á því um hvað verið er deila. Ég skil ekki af hverju því er haldið fram í fréttaþætti. Ég treysti mér til að fullyrða að sjaldan eða aldrei hefur á Íslandi verið kjaradeila sem auðveldara er að skilja. Málið er nákvæmlega svona einfalt:
Félagsmenn mínir sem starfa hjá sveitarfélögunum fara fram á einfalda leiðréttingu, líkt og þegar hefur verið gengið frá fyrir félagsmenn mína hjá Reykjavíkurborg og ríkinu. Eflingarfólk sem starfar hjá sveitarfélögunum og er með lægstu launin myndu fá 20.500 krónur til viðbótar við hækkun hins svokallaða Lífskjarasamnings. Leiðréttingin er sérgreiðsla utan grunnlauna sem hækkar ekki í þrepum og kemur ekki inn í grunn til útreiknings vakta- og yfirvinnuálaga. Hún trappast hratt niður og er sérstaklega hugsuð, eins og margoft hefur komið fram, til að lagfæra launakjör þeirra sem eru stærstu fórnarlömb hinnar grimmilegu láglaunastefnu sem iðkuð hefur verið af hinu opinbera gagnvart stórum hópum ómissandi starfsfólks, mest kvenna í umönnunarstörfum. Fyrir þau sem hafa áhuga er hér hlekkur á gögn þar sem farið er yfir málið á mjög auðskiljanlegan máta: https://efling.is/launabreytingar_sveitafelog_rvk_sent_sa…/…

Ég hvet fréttafólk og aðra til að skoða þessi gögn. Þau eru lögð fram í þeim tilgangi að auðvelda fólki að skilja um hvað málið snýst. Það er ekki gott að verið sé að láta eins og málið sé vandleystara en það er.”

https://efling.is/launabreytingar_sveitafelog_rvk_sent_samband_29042020/?fbclid=IwAR085Ta7xIl_jqcOiBp9hD_z6YtipKrJ4KIgN27Yz1-M9UwSuFG-hVzuJ2I


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: