- Advertisement -

Stendur ekki steinn yfir steini

Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, skrifar:

Í rökstuðningi meirihluta atvinnuveganefndar fyrir lækkun veiðigjalda stendur ekki steinn yfir steini. Afkoma útgerðarinnar á undanförnum árum hefur verið framúrskarandi sem er gott. Það að aðeins hafi harðnað í ári kallar ekki á neinar sértækar aðgerðir til bjargar greininni, enda arðsemi hennar þrátt fyrir það mun betri en annarra atvinnugreina í landinu. Ef ríkisstjórnin vildi koma útflutningsgreinum landsins til hjálpar væri réttara að taka á vanda þeim sem fylgir óstöðugri smámynt. Hér er einfaldlega verið að reyna að blekkja Alþingi til lækkunar á veiðigjöldum korteri fyrir þingfrestun.

Atvinnugrein þar sem arðsemi er tvöföld á við meðalarðsemi íslensks atvinnulífs þarf ekki sérstaka aðstoð. Atvinnugrein þar sem eiginfjárhlutfall hefur farið úr 0 í 42% á aðeins 8 árum, þar sem nær ekkert er greitt fyrir hráefni úr sjó, þar sem útflutningsverðmæti hefur aukist um þriðjung á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs, þar sem 66 milljarðar króna hafa verið greiddir í arð á undanförnum 7 árum þarf ekki á sértækum skattalækkunum að halda. Hér er einfaldlega um grímulausa sérhagsmunagæslu að ræða í boði framsóknarflokkanna þriggja sem sitja í ríkisstjórn.

Greinin er tekin af Facebooksíðu höfundar.

 

 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: