- Advertisement -

Stjórnarandstaðan verri kostur en stjórnin

Kári Stefánsson lætur sitt ekki eftir liggja í nýrri grein sem birist í Fréttablaðinu í dag. Í greininni kemur Kári víða við. Á einum stað víkur hann orðum að ríkisfjármálaáætlun ríkisins, og er Kári er ekki sáttur við þá afurð Alþingis.

„Það er ljóst á fimm ára áætlun ríkisfjármála sem Alþingi samþykkti á dögunum að ríkisstjórnin ætlar að svíkja flest ef ekki allt sem þjóðin á skilið, bað um og var lofað fyrir kosningar. Hún virðist staðráðin í að vinna keppnina um það hvað sé versta ríkisstjórn í sögu lýðveldisins. Og ég prísa okkur samt sæl þótt undarlegt megi virðast. Þegar bölvunin verður blessun, sem gerist af og til, minnir það mig gjarnan á sögu sem ég hef oft sagt af því þegar faðir minn sté út úr bíl við bæ í Suðursveit og hundur rauk á hann og beit hann í hægri fótlegginn. Faðir minn var einfættur og með gervifótlegg úr áli hægra megin þannig að hundgreyið fékk taugaáfall og þaut ýlfrandi frá bænum, niður brekkuna, fyrir fjóshorn og sást ekki aftur í nokkra daga. En faðir minn leit á mig og sagði brosandi út undir eyru: Þarna sérðu, strákur, það er ekki alltaf vont að hafa glatað fæti.“

Hvar eru tillögur stjórnarandstöðunnar?

Kári er lítt hirfinn af stjórnarandstöðunni. Segir hana gagnslausa og málstolfa.

„Stjórnarandstaðan á Þingi er sá hundur sem hefur sannfært mig um að núverandi ríkisstjórn sé ekki það versta sem hefði getað komið fyrir okkur. Stjórnarandstaðan er gagnslaus, hugmyndasnauð og málstola. Hvar eru tillögur stjórnarandstöðunnar um endurreisn heilbrigðiskerfisins, til minnkunar á muninum á þeim sem eiga og eiga ekki, að heilbrigðu bankakerfi og til þess að takast á við árekstra hagsmuna samfélagsins og hagsmuna þeirra sem samfélagið hefur kosið til þess að stjórna sér? Hvar er stjórnarandstaðan? Skyldi hún halda að hún sé að ferja okkur inn í betri heim og að leiðin liggi í gegnum Vaðlaheiðargöngin? Það er eins gott fyrir hana að gera sér grein fyrir því að í þá ferð fer hún ein. Það fylgir henni enginn. Að lokum ráð til lesandans: þegar þú fyllist örvæntingu út af vesöld ríkisstjórnarinnar mundu að þetta hefði getað verið verra.“

Staða okkar gæti verið verri

„Við hefðum getað endað með núverandi stjórnarandstöðu í ríkisstjórn og það er staðreynd að þótt ríkisstjórnin sé býsna slöpp er stjórnarandstaðan líklega verri. Þar af leiðandi eigum við kannski að prísa okkur sæl fyrir þann gervifót sem ríkisstjórnin er þótt það þýði að við verðum ein og óstudd að sjá um að veita henni aðhald, stjórnarandstaðan á Þingi leggur þar næstum ekkert af mörkum,“ endar Kári grein sína.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: