- Advertisement -

Stöndum saman gegn mannhatri Sjálfstæðisflokksins

Stöndum saman og gerum það að pólitískum ómöguleika fyrir VG að halda áfram að láta sem ekkert sé gagnvart grimmdinni.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Stöndum saman og gerum það að pólitískum ómöguleika að Sjálfstæðisflokkurinn geti komist upp með mannhatrið. Stöndum saman og gerum það að pólitískum ómöguleika fyrir VG að halda áfram að láta sem ekkert sé gagnvart grimmdinni. Stöndum saman og gefumst ekki upp: Börnin Abdalla, Rewida, Hamza og Mustafa eiga heima hér og þeim verður ekki kastað í ruslið.

Hér fyrir neðan texti sem ég skrifaði 10. september, árið 2017. Hann á því miður einnig við í dag, rétt rúmum 3 árum seinna. Það er skelfilegt. En ef að við stöndum saman getum við komið í veg fyrir glæp gegn börnum. Því trúi ég.

– – – – –

Hið stóra og hið smáa.

Þann fyrsta september árið 2015 sagði Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, þetta í umræðu um móttöku flóttafólks:

„Í hvert skipti sem einhverjum er bjargað sem fer yfir Miðjarðarhafið þá hvetjum við aðra til að fara þessa leið“. Ég finn mig knúna til að rifja upp þessi orð af því sannleikurinn er sagna bestur og þessi orð eru sannleikurinn um Sjálfstæðisflokkinn.

– – – – –

Hið stóra:

Allt þetta fé,

það á sig sjálft, allt þetta fé í skattaskjólum á sig sjálft,

öll þessi framrás, allt þetta þramm, öll þessi hjól, öll þessi hjólför, allt þetta pauf, öll þessi saga, öll þessi við, öll þessi þau, loksins, loksins erum við komin hingað saman, á þessari æðisgengnu stundu í veraldarsögunni þegar allt þetta fé, víðförult, veraldarvant, það á sig sjálft. Að hugsa sér, spádómar frelsaranna rætast á okkar tímum, orðið varð aur og dvaldi meðal vor;

Loksins frjálst, loksins frjálst, lof og dýrð sé Guði í Upphæðum, loksins frjálst.

Hið smáa:

Allir þessir mennsku líkamar,

miljón sinnum meira abstrakt en miljón, allar þessar hliðarmanneskjur, öll þessi þau,

litlar stelpur; stelpuhönd og stelpufótur, á eilífðar gangi, öll þessi fótspor á vergangi, eilíflega að kveðja, stelpufótur að ganga burt, stelpuhönd að vinka bless,

þessar litlu stelpur, dæmdar til að kremjast í Kærunefndinni, dæmdar til að setjast að á blaðsíðu miljónmiljónmiljón í Mannkynssögunni, ásamt öllum hinum.

Að hugsa sér; Orðið varð hold og dvaldi á meðal okkar og við rákum það burt.

– – – – –

Það er mótuð stefna í Valhöll, í hvíta virkinu;

Landamæragæsla á þessum erfiðu upplausnartímum, Neinei, hún er ekki vandamál hjá okkur, segja þau íbyggin og roggin í dragt eftir að hafa setið informatívan fjölþjóðlegan fund um landamæragæslu á þessum erfiðu upplausnartímum, Virkið Valhöll, það köllum við Ísland: Fortress Valhalla, ekkert vandamál hjá okkur, taktu hár úr hala mínum, og leggðu það á jörðina, legg ég á, og mæli ég um, að þú verðir að svo stórri Kærunefnd að ekki komist yfir.

Það er stefna mótuð í Valhöll, um frjálst fé, sent í fimm stjörnu heimsreisur, og ófrjálst fólk, sent af stað í íslenskri flugvél svo Sjálfstæðisflokkurinn hafi allt sitt ógnarmikla lífsrými, um börn sem byrði, afætur, hliðarmanneskjur, verðlaust rusl, gagnslausa útlimi, augu og svart hár. Rusl á leið á ruslahauga, beinustu leið með íslenskri flugvél sem flýgur svo þaðan í sumarfrí.

Farið upp í Valhöll; þar getiði litið framan í fólk sem gerir það að ævistarfi sínu að frelsa allt fé. Þar getiði litið framan í fólk sem kastar litlum stelpum útum glugga eins og ekkert sé.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: