- Advertisement -

SVÍVIRÐILEGUR SKATTAFSLÁTTUR TIL HINNA RÍKU

Fréttaskýring eftir Gunnar Smára:

Fólk borgar miklu lægra hlutfall af fjármagnstekjum en launatekjum.

Þau tíu tekjuhæstu á Íslandi 2016, samkvæmt tekjur.is, höfðu um 17,1 milljarð króna í árstekjur. Ætla má að skattgreiðslur þessa fólks hafi verið um 3.422 milljónir króna eða um 20%. Það er álíka skatthlutfall og fólk með 350 þúsund krónur á mánuði borgar í skatt af launum. Launafólk með hærri laun en 350 þúsund krónur á mánuði borgar hærra hlutfall tekna sinna en þau tíu tekjuhæstu, sem eru með rúmar 142 milljónir króna á mánuði að meðaltali. Hvernig má það vera? Að fólk með 142 milljónir króna á mánuði greiði hlutfallslega sömu skatta og fólk með 350 þúsund krónur á mánuði?

Ástæðan er að hin ríku hafa tekjur sínar að lang mestu leyti af fjármagni en aðeins að litlu leyti af atvinnu, og skattkerfið er lagað að þessu. Fólk borgar miklu lægra hlutfall af fjármagnstekjum en launatekjum. Ef þessi tíu tekjuhæstu á Íslandi í fyrra hefðu greitt skatta af tekjum sínum eins og þær væru launatekjur, eftir sama kerfi og velflestir skattgreiðendur, hefðu skattgreiðslur þeirra ekki verið 20% heldur rúm 44%, ekki 3.422 milljónir króna heldur 7.562 milljónir króna. Mismunurinn er 4.140 milljónir. Rúmlega 4,1 milljarð króna skattaafsláttur til tíu einstaklinga, þeirra sem best settir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

10 MESTU BÓTAÞEGARNIR

Þetta eru hinir raunverulegu bótaþegar ríkisins, fólkið sem fær ríkulegastan stuðning. Skattaafslátturinn skiptist svona milli þeirra:

Sigurður Þ K Þorsteinsson: 776 m.kr.
María Bjarnadóttir: 770 m.kr.
Gísli J Friðjónsson: 691 m.kr.
Einar Friðrik Sigurðsson: 446 m.kr.
Katrín Þorvaldsdóttir: 441 m.kr.
Guðmundur Kristjánsson: 274 m.kr.
Ármann Einarsson: 193 m.kr.
Marta Árnadóttir: 180 m.kr.
Grímur Alfreð Garðarsson: 180 m.kr.
Guðrún Birna Leifsdóttir: 169 m.kr.

Mikið af tekjum þessa fólks árið 2016 var vegna sölu fyrirtækja og hlutabréfa, þetta er því söluhagnaður að miklu leyti. Það er því ólíklegt að þetta fólk verði á lista yfir tekjuhæsta fólkið í ár, en ekkert bendir til að annars en skattaafsláttur til þeirra sem verða tekjuhæst í ár verði viðlíka; að við gefum 10 tekjuhæstu einstaklingunum aftur um eða yfir 4 milljarða króna í afslátt þegar skattar verða lagðir á næst.

Skattaafslátturinn til hinna ríku er því kominn fram úr kröfu æstustu nýfrjálshyggjupáfa.

SKATTAAFSLÁTTUR UMFRAM DELLUKENNINGU NÝFRJÁLSHYGGJUNNAR

Nýfrjálshyggjufólk hefur viljað halda því fram að fjármagnstekjuskattur eigi ekki að vera jafnhár og tekjuskattur, þar sem fyrirtæki greiði skatta áður en kemur að hagnaði, sem eigendur greiða sér síðan arð af. Samanlagt ættu þessir tveir skattar, tekjuskattur fyrirtækja og fjármagnstekjuskattur, að vera álíka og tekjuskattur einstaklinga. Þetta hlutfall var 2017 36 prósent, sem er ívið lægra en lægra þrepið í tekjuskatti, sem er 36,94 prósent. En fólk með 142 milljónir króna á mánuði lendir ekki í lægra þrepinu heldur því hærra, sem er 46,24 prósent. Ef þetta þrep væri einnig í fjármagnstekjuskatti hefðu þessir tíu einstaklingar ekki borgað samanlagt um 3,4 milljarða króna í fjármagnstekjuskatt heldur tæplega 5,6 milljarða króna. Ef við myndum miða við þessa kenningu nýfrjálshyggjunnar, um að jafnvægi eigi að vera á milli tekjuskatts einstaklinga og samanlagðs tekjuskatts fyrirtækja og fjármagnstekjuskatts, þá ætti að rukka þessa tíu einstaklinga um 2.164 milljónir króna í skatt umfram það sem gert er.

Skattaafslátturinn til hinna ríku er því kominn fram úr kröfu æstustu nýfrjálshyggjupáfa. Í raun er undarlegt að Heimdallur skuli ekki vera í mótmælastöðu fyrir utan fjármálaráðuneytið að krefjast réttlætis, að fjármagnseigendur greiði samkvæmt kenningum nýfrjálshyggjunnar hærri skatta.

BORGA EKKERT ÚTSVAR

Það er ekki bara ríkissjóður sem missir tekjur vegna þessa skattaafsláttar til hinna ríku. Útsvar er ekki lagt á fjármagnstekjur og því tapa sveitarfélögin gríðarlegum tekjum. Meðal launatekjur tíu tekjuhæstu eru ekki nema 591 þúsund krónur á mánuði og því fá sveitarfélögin ekki nema um 10,3 milljónir króna í útsvar frá tíu tekjuhæstu einstaklingunum, ekki krónu frá sumum. Ef útsvar væri lagt á fjármagnstekjur myndu sveitarfélögin fá 2.153 milljónum krónum meira, ef hin ríku borguðu til síns sveitarfélags eins og annað fólk.

Með því að veita hinum allra ríkustu afslátt í skattalögum hafa stjórnvöld því svipt sveitarfélögin gríðarlegum tekjum, meira en 2,1 milljarði króna aðeins frá hinum tíu tekjuhæstu. Til viðbótar hefur ríkissjóður verið skaðaður, það vantar í hann tæpa 2 milljarða króna aðeins frá þessum tíu tekjuhæstu árið 2016.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: