- Advertisement -

Svona tekur fasisminn yfir

Íslenskt samfélag er nú á hröðu brokki inn í slíkt ástand.

Gunnar Smári skrifar:

Magnað að fylgjast með hvernig áróðursmeisturum auðvaldsins, ríkisstjórninni og stjórnendum Icelandair hefur tekist að stilla málum svo upp, að flugfreyjur, láglaunastétt þar sem stór hluti félagsmanna berst fyrir að eiga í sig og á og geta framfleytt fjölskyldum sínum, standi í vegi fyrir uppbyggingu flugsamgagna milli Íslands og umheimsins. Svona tekur fasisminn yfir; þegar auðvaldið getur beitt ríkisvaldinu og fjölmiðlum til að útmála kröfur verkalýðsins sem óþjóðlegar og háskalegar samfélaginu, almannareglu og öryggi. Íslenskt samfélag er nú á hröðu brokki inn í slíkt ástand.

Markmið stjórnvalda er ekki að treysta flugsamgöngur milli Íslands og umheimsins, heldur að færa lykilstöðu í þeim rekstri undir áhættufjárfesta sem sjá gríðarlega hagnaðarvon í að berja niður laun starfsfólks, lækka opinber gjöld og draga til sín ríkisaðstoð áður en flugsamgöngur vaxa á ný og skila eigendum flugfélaga arði, svo miklum að réttlæta megi áhættufjárfestingu í félagi sem er í reynd gjaldþrota í dag. Markmið stjórnvalda er því að auka enn vald og auð hinna auðugustu og veita verkalýðshreyfingunni högg; skapa úlfúð meðal félagsmanna hennar, svo að félagar í VR ráðist að flugfreyjum, flugmenn samþykki að taka yfir störf flugfreyja í verkfalli o.s.frv.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ef stjórnvöld hefðu áhuga á styrkja flugsamgöngur myndu þau einfaldlega byggja upp félag í sátt við starfsfólk og landsmenn og hefja rekstur þess á forsendum sem henta íslensku samfélagi, ekki malasískum vinnumarkaði eins og aðstoðarframkvæmdastjóri SA hefur sagt að sé óhjákvæmileg niðurstaða alþjóða- og fjármálavædds kapítalisma; að sigrar verkalýðshreyfingarinnar á síðustu öld hljóti að verða brotnir niður.
Vandinn er að innan ríkisstjórnarinnar er enginn sem hefur trú á frumkvöðlahlutverki hins opinbera, engin sem man að það var hið opinbera sem byggði upp allt það mikilvægasta á Íslandi; Landspítalann, Landsvirkjun, Hitaveitu Reykjavíkur, Rafmagnsveituna, grunnskólakerfið o.s.frv.

Og það var hið opinbera sem endurreisti bankakerfið í tvígang, eftir að einkaaðilar höfðu rekið það í þrot, endurreisti sjávarútveg eftir stríð og lyfti þar með íslensku samfélagi og svona má lengi telja. Þrátt fyrir að Íslandssagan og saga annarra landa sýni fram á mikilvægi frumkvæðis og frumkvöðlastarfs hins opinbera sitja hringinn í kringum ríkisstjórnarborðið fólk sem trúir löngu föllnum kenningum nýfrjálshyggjunnar að ríkið eigi að passa sig á að vera ekki fyrir og í mesta lagi að styðja hin ríku við samfélagsmótun sína, að ríkið geti aldrei verið lausnin en sé alltaf vandinn. Grey fólkið.

Hér fylgja tvær glærur sem sýna starfskjör flugfreyja, starfsstéttar sem nú er gerð krafa á að hún afsali sér launum sem tryggja megi áhættufjárfestum nægan arð, svo þeir séu tilbúnir að leggja fé í Icelandair á móti ríkulegum ríkisstuðningi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: