- Advertisement -

Sýklar eru ein mesta ógn mannkyns

Steikjum kjöt vel og sjóðum grænmeti frá löndum Suður-Evrópu.

Ragnar Önundarson skrifar:

Gísli Marteinn er með þátt á föstudagskvöldum á RÚV. Að vanda eru fjórir góðir gestir. Umræðunni er vikið að álitaefninu um innflutning á hráu kjöti, án þess að sú hætta væri nefnd sem felst í útbreiðslu sýkla sem eru orðnir ónæmir fyrir sýklalyfjum.

Sem fyrr er umræðan á algjörum byrjunarreit: Enginn viðstaddra skildi í hverju áhættan felst, allir töluðu um að fólk erlendis væri að borða kjöt án þess að verða meint af osfrv. Mikið grín og mikið gaman.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ástæða er til að endurbirta þetta:

Almenningur hefur ekki lágmarksþekkingu um vandamálið sem til umræðu er, sýklalyfjaónæmi. Að lesa fram komnar athugasemdir lýsir því vel hve langt fólk á í land með að skilja vandann.

Sýklar, ónæmir fyrir sýklalyfjum, eru ein mesta ógnin sem steðjar að mannkyni. Ofnotkun sýklalyfja kyndir undir vandanum og styttir þann tíma sem er til að ráða bót á honum. Ofnotkunin er bæði til lækninga á mönnum, þmt. hér á landi, og í dýraeldi, þar sem þau eru bæði notuð til lækninga og til að örva vöxt og auka hagnað. Þau eru m.ö.o. Notuð til að drepa gerla / sýkla í iðrum dýranna, svo þessar örverur ,,steli” ekki næringu sem hefði annars farið í vöxt. Þetta er það versta, af því að notuð eru ,,breiðvirk lyf”, sem virka á alls konar sýkla og ýta því undir myndun ónæmis í alls konar sýklum. Ofnotkunin er því meiri sem sunnar dregur, en ástandið í Noregi best og þokkalegt í öðrum norrænum löndum.

Allir sem ferðast til fjarlægra landa koma til baka með fjölónæma sýkla í iðrum sér. Ekki bara Guðni Ágústsson og aðrir Kanarífarar. Mikill fjöldi tegunda gerla og sýkla eru í iðrum okkar. Gerla nefnum við þær örverur sem eru góðar og veita okkur vörn gegn ýmsu, en sýkla þær sem valda sjúkdómum, nái þær sér á strik þar sem þær eiga ekki að vera. E-coli (saurgerlar) eru td. náttúrulegir í neðri hluta meltingarvegar okkar og valda ekki sýkingum þar, ekki heldur fjölónæmir saurgerlar. Komist saurgerlar í gegnum „varnarvegginn“ sem ristill og smáþarmar hafa, eins og stundum gerist vegna óhappa í aðgerðum eða ristilspeglunum, þá verður sýking. Þá ríður á að hafa lyf sem vinna á sýklinum. Ef hann er ónæmur getur farið illa og sjúklingurinn dáið. Núna deyr einhver hér á landi vegna lyfjaónæmis sýkla ca. annað hvert ár, en þeir væru 16 á ári ef tíðnin væri sú sama hér og í Evrópu. Við höfum m.ö.o. dýrmæta sérstöðu.

Við njótum þess líka að hafa búið við bestu hreinlætisaðstöðu, sýklarnir skolast út um fráveitukerfin. Ófullnægjandi hreinlætisaðstaða ferðamanna er hins vegar mikið áhyggjuefni. Fjölónæmir sýklar berast í jarðveginn, grasbítar innbyrða þá og hreinleika okkar eigin landbúnaðarafurða er ógnað.

Innflutt kjöt, vöðvi á ekki að vera hættulegur, ef rétt er að málum staðið. Dýrum má ekki slátra nema þau hafi verið lyfjalaus í tilskilinn tíma. Vonandi stenst það, en bara fyrir hàálfum mánuði var í fréttum að kjöt af pólskum dýrum sem drápust af sjúkdómum var flutt út til Svíþjóðar ! Við þurfum sjálf að gæta okkar öryggis og gæta þess að matreiða svo vel að hitinn innst, kjarnahitinn, komist í gerilsneyðingarhita, 73˚C. Hættan er miklu meiri af innfluttu grænmeti, því húsdýraáburður á suðlægum slóðum er eðlilega miklu varasamari.

Það er reginmisskilningur að líkur séu á að einstaklingur sem innbyrðir fjölónæma sýkla veikist. Í meltingarvegi hvers manns eru milljarðar örvera af alls konar tagi. Þessar örverur gera borist út í umhverfið og komist í þá líkamsvefi manna og dýra sem ekki hafa þær varnir sem meltingarvegurinn hefur. Ef handþvotti eftir salernisferð er ábótavant getur næsti maður smitast af hurðarhúninum, strokið sér í framan og sýkst um öndunarveg.

Hættum nú að kynda undir fordómum og fáfræði með vanhugsuðum athugasemdum á Facebook. Steikjum kjöt vel og sjóðum innflutt grænmeti frá löndum Suður-Evrópu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: