- Advertisement -

Þau sem fá greiðslur frá TR dragast sífellt aftur úr, ár eftir ár

Marinó G. Njálsson:

Mismunur upp á um 88.000 kr. á mánuði eða rúmlega 1 m.kr. á ári. Þó skal tekið fram, að þetta væri breyting á grunnlífeyri án skerðinga.

Ráðherra segir að verið sé að móta tillögur sem eigi að miða að því að ráðherrann fari að lögum. Líklegast enda þær á því, að lögunum verði breytt svo þau falli að getuleysi ráðherrans að fara að lögum.

Þegar núverandi lög um almannatryggingar voru samþykkt sem lög nr. 100/2007 þá var í þeim ákvæði um að bætur almannatryggingar skuli breytast í samræmi við fjárlög hverju sinni og svo sagði:

„Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“ Þetta ákvæði kom inn í eldri lög um almannatryggingar nr. 117/1993 með bandormi sem fylgdi fjárlögum fyrir fjárlagaárið 1998.

Í greinargerð með frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaákvæði um breytingar á bótum verði gert varanlegt og síðan sagt:

„Endurskoðun fjárhæðar þeirra ber þá að miða við sömu forsendur og fjárlög um almenna þróun launa á fjárlaga árinu, en verður þó bundin við vísitölu neysluverðs þannig að breytingar á þessum fjárhæðum geta aldrei farið niður fyrir það mark sem hún segir til um.“

En í athugasemd með frumvarpinu um einstakar greinar þess er gengið lengra og þar segir:

„Í stað núgildandi bráðabirgðaákvæðis um hækkun bóta almannatrygginga er í 9. gr. lagt til að þær verði framvegis endurskoðaðar árlega og breytt í samræmi við þróun launa, en hækki þó aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þannig er við það miðað að verðlagsmiðun ráði, ef verðlag hækkar meira en laun.“

Þá verður að bíða næstu fjárlaga…

Sem sagt, það er enginn vafi á um, að launaþróun er hið almenna viðmið, en verðlagsþróun á eingöngu við, þegar verðlag hækkar meira en laun.

Framkvæmd þessa ákvæðis hefur verið þannig, að við fjárlagagerð er skálduð upp einhver líkleg tala um launaþróun á árinu og oftar en ekki er henni bara sleppt, eins og afsökun ráðuneytisins var í ár. Þar sem ekki væru komnir á kjarasamningar, þá væri ekkert viðmið til að notast við. Ok, en hvað gerist eftir að kjarasamningar komast á? Þá verður að bíða næstu fjárlaga og líklega kemur þá sama afsökunin. Það leiðir til þess, að þeir sem þiggja greiðslur úr almannatryggingum dragast aftur úr hvert einasta ár, þegar launaþróun gæfi betri útkomu en verðlagsþróun.

Ég reiknaði þetta út fyrir nokkrum árum og komst að því að örorkulífeyrisþegar hefðu dregist aftur úr launaþróun sem nam um 35% á tímabilinu frá 2007 til 2020. Síðan hafa þeir dregist enn frekar aftur úr sem nemur 8.3%. Árið 2007 var upphæð örorkulífeyris kr. 24.831 og tekjutryggingar kr. 79.164. Eftir hækkunina 1. júlí, þá eru þessar fjárhæðir kr. 59.678 og kr. 191.105, en ættu að vera kr. 75.493 og kr. 242.234 sé miðað við að þær hafi fylgt breytingu á launavísitölu. Mismunurinn er um 67.000 kr. á mánuði (eða 803.342 kr. á ári) og 83.000 kr. (eða 993.130 kr.) fyrir þá sem fá fulla örorkuuppbót. Þar sem launavísitalan mælir öll laun og lægstu laun hafa almennt hækkað meira en þau hærri, þá hefði þetta samt þýtt að örorkulífeyrisþegar hefðu dregist aftur úr lægstu launum.

En þar sem ráðherrum óteljandi ríkisstjórna…

Tölur fyrir ellilífeyri er ekki hægt að reikna nema frá árinu 2017, því þá var kerfinu mikið breytt hjá þeim. Hefði ellilífeyrir breyst í samræmi við launavísitölu, ætti hann að vera kr. 344.663 í staðinn fyrir kr. 315.525. Ef gert er ráð fyrir að sama sekkja sé í fjárhæðinni árið 2017 og er hjá öryrkjum, þá má hækka kr. 344.663 um ca. 17% og hún væri þá 403.256 kr. Mismunur upp á um 88.000 kr. á mánuði eða rúmlega 1 m.kr. á ári. Þó skal tekið fram, að þetta væri breyting á grunnlífeyri án skerðinga.

Ríkið afsakar sig vafalaust með því, að ekki sé hægt að sjá fyrir launahækkanir fram í tímann, en þá er hið minnsta sem hægt er að gera, að leiðrétta fjárhæðir miðað við launaþróun árið á undan, eins og ég geri í raun í mínum útreikningum. Það er ekki endalaust hægt að láta fólkið með lægstu tekjurnar dragast ár eftir ár aftur úr tekjuþróun í samfélaginu. Höfum í huga, að eftir að einstaklingur verður óvinnufær vegna örorku, þá fær hann engar starfsaldurshækkanir eða stöðuhækkanir. Hann verður fram til 67 ára aldurs á því sem ríkið skammtar úr hnefa og eftir það tekur við önnur álíka ömurleg skömmtun (nema fólk eigi þess meiri réttindi í lífeyrissjóði).

En þar sem ráðherrum óteljandi ríkisstjórna hefur verið ómögulegt að sjá fyrir launaþróun og verðlagsbreytingar, þá legg ég til, að lögunum verði breytt þannig, að miðað verði við hvort heldur sem hærra er, launaþróun eða verðlagsbreytingar ársins sem er að líða þegar fjárlög eru samþykkt. Þá þurfa menn ekkert að búa til tölur eða fá Skrepp seyðkarl eða Siggu Kling til að kasta kindabeinum eða horfa í kúluna sína, heldur eru einfaldlega notaðar þær tölur sem Hagstofa safnar og birtir einu sinni í mánuði. Meira að segja væri hægt að breyta greiðslum almannatrygginga í hverjum mánuði í staðinn fyrir að bíða næsta fjárlagaárs. Fyrst að bankarnir geta reiknað út verðbætur mánaðarlega, þá ætti fjármálaráðuneytið að geta látið greiðslur lífeyris fylgja launaþróun eða verðlagsbreytingum.

Greinina birti Marinó á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: