- Advertisement -

Þegar staðreyndirnar henta ekki – Um flokka sem gera allt til að villa um fyrir þér

Hér er vegferð ákveðinna fulltrúa haldið áfram með borgarfulltrúann Vigdísi Hauksdóttur fremst í flokki og Sjálfstæðisflokkinn í taumi á eftir.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn, skrifar:

Í umfjöllun um ársreikning Reykjavíkur og dótturfélaga fyrir síðasta ár hafa fulltrúar minnihluta borgarstjórnar farið mikinn og reynt að ala á tortryggni í garð ársreiknings þrátt fyrir fleiri umsagnir frá fagaðilum og óháðum sérfræðingum sem staðfesta að rétt sé farið með upplýsingar. Í vikunni varð það svo til þess að borgarfulltrúi Miðflokksins kaus á móti ársreikningi og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins undirrituðu ársreikning með fyrirvara.

Forsagan er sú að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins ákvað að segja sig úr endurskoðunarnefnd sem hann útskýrir með því að hann hafi ekki verið sáttur við ákveðið atriði í ársreikningi. Það er merkilegt og áhugavert að verða vitni að því hve álit fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegur þungt í mati minnihlutans umfram öll önnur. Velja fulltrúar minnihlutans að leggja meiri áherslu á þá ákvörðun hans en álit fjölmargra fagaðila, mat óháðra sérfræðinga, fyrirliggjandi minnisblöð um álitaefnið, yfirferð og niðurstöðu alls eftirlitskerfis Reykjavíkurborgar og fyrri úrskurð viðeigandi ráðuneytis sem staðfestir að hér sé viðeigandi aðferð beitt. Þar segir í úrskurði atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins frá 2013 að Félagsbústöðum sé skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, IFRS, við gerð ársreiknings síns. Eins og kemur fram í gögnum er samkvæmt þessum staðli heimilt að færa fjárfestingaeignir á gangverði, en fulltrúar minnihlutans hafa haldið því fram að eignir Félagsbústaða eigi að færa á kostnaðarverði fremur en gangverði. Þrátt fyrir að sú aðferð sem notuð er gefi gleggri mynd af rekstri Félagsbústaða. Að gefa sem gleggsta mynd af rekstrinum er einmitt aðalmarkmið markvissra reikningsskilaaðferða. En þetta hentar minnihlutanum ekki því þau hræðast að reksturinn líti of vel út sem auðvitað er á skjöni við þeirra örvæntingarfulla áróður um að allt sé í molum í rekstri borgarinnar.

Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þróun lýðræðisins.

KPMG staðfestir að þessi aðferð sé heimil og segir meðal annars að það sé viðeigandi hjá Félagsbústöðum „að skilgreina leiguíbúðir í þeirra eigu sem fjárfestingareignir og fara eftir ákvæðum IAS 40 varðandi reikningshaldslega meðferð þeirra. Samkvæmt þeim er heimilt að færa fjárfestingareignir á gangverði.“

Þó Félagsbústaðir sé fyrirtæki sem rekið er á félagslegum grundvelli þá eru eignir Félagsbústaða íbúðir. Stundum eru íbúðir Félagsbústaða seldar og þá á markaðsvirði. Það er staðreynd. Tilefnið getur verið margvíslegt eins og að skipta út íbúðum fyrir aðrar sem nýtast betur. Þess vegna er eðlilegt að skrá þessar eignir á gangverði. Þessi skráningaraðferð eigna Félagsbústaða gefur því glögga mynd af stöðu rekstursins, sem er eins og áður hefur komið fram það sem reikningsskilaðferðir eiga að gera. Ef það væri ætlunin að fara til baka þurfa ástæðan og rökin fyrir þeirri breytingu að vera mjög góð og þau liggja ekki fyrir hér.

Áfram er haldið. Ekki skal una staðreyndunum sem henta ekki þessum fulltrúum minnihlutans í pólitískum leiðangri sínum. Staðreyndirnar henta þó borgarbúum því þær gera Félagsbústöðum kleift að kaupa fleiri íbúðir fyrir fólk sem vantar húsnæði og er það vel enda metnaðarfullur meirihluti við völd þegar kemur að því að koma skjóli yfir höfuð borgarbúa.

Hér er vegferð ákveðinna fulltrúa haldið áfram með borgarfulltrúann Vigdísi Hauksdóttur fremst í flokki og Sjálfstæðisflokkinn í taumi á eftir þar sem allt er gert til þess að grafa undan eftirlitsstofnunum samfélagsins, skapa ringulreið og ala á vantrausti og tortryggni í garð hins opinbera. Vandinn er að hasarfréttaupphrópanir borgarfulltrúans eiga oft greiðari leið í stöðufærslur á Facebook en staðreyndir. Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þróun lýðræðisins með slíka kjörna fulltrúa sem svífast einskis og bera svo takmarkaða virðingu fyrir kjósendum að þeir fóðra þá ítrekað með hreinum uppspuna.

Skrif Dóru birtust á Facebooksíðu hennar og eru fengin þaðan.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: