- Advertisement -

Þróun sem leikur ungt fólk á Vesturlöndum sérstaklega grátt

Og það bendir heldur ekkert til þess að þessi þróun sé að breytast til batnaðar, því botnlaus seðlaprentun seðlabanka heimsins heldur áfram að hækka verðbréf og fasteignir — hluti sem ríkasta fólk heims braskar mest með.

Jóhannes Björn skrifaði:

Merkustu tíðindi 2019 eru kannski þau að 500 ríkustu einstaklingar heimsins bættu 25% við auð sinn á þessu eina ári eða 1,2 trilljónum dollara (evrópskar billjónir). Þessi fámenni hópur lumar nú á 5,9 trilljónum dollara … og þá eru ótaldar 20 – 30 trilljónir sem búið er að fela á aflandseyjum (og þessir ofurríku einstaklingar eiga væntanlega að hluta).

Þetta eru hrikalegar tölur og svipaðar og þjóðarframleiðsla þriðja stærsta hagkerfis heims, Japan. Og það bendir heldur ekkert til þess að þessi þróun sé að breytast til batnaðar, því botnlaus seðlaprentun seðlabanka heimsins heldur áfram að hækka verðbréf og fasteignir — hluti sem ríkasta fólk heims braskar mest með — á meðan 90% fólksins beinlínis lækkar í rauntekjum. Ríkasta 0,1% jarðarbúa á hlutfallslega meiri auð í dag heldur en 0,1% átti árið 1929, þegar misskiptingin setti allt peningakerfi heimsins á hliðina.

Þessi þróun hefur leikið ungt fólk á Vesturlöndum alveg sérstaklega grátt. Ný skýrsla seðlabanka Spánar gefur ágæta innsýn í hvað er að gerast um alla Suður-Evrópu og víðar.

Fyrirvinnur á Spáni, 35 ára og yngri, lækkuðu um 18% í tekjum á milli 2010 og 2017. Heildareignir þessa hóps umfram skuldir var 71.600 evrur árið 2010 en hrapaði niður í 5.300 evrur 2017!

Svokallað hark-hagkerfi (sem Uber vill innleiða á Íslandi … og það verður aðeins byrjunin), þar sem fólk vinnur sem “sjálfstæðir atvinnurekendur” (og losar þá sem græða mest á vinnu þess þannig við að borga launatengd gjöld, tryggingar o.s.frv.), er fátæktargildra sem ungt fólk á Spáni og annars staðar er hlutfallslega mest veitt í. Skammtímaráðningar eru hluti hark-hagkerfisins og 55% fólks undir 30 ára aldri á Spáni er ráðið með þessum skilmálum. Samkvæmt viðskiptablaðinu Forbes eru svimandi 57 milljónir starfa í Bandaríkjunum sem má flokka undir hark-störf (sum unnin sem aukastörf og einhverjir vinna fleiri en eitt, en hark-hagkerfið telur líklega vel yfir 20 milljón einstaklinga). Til þess eru vítin að varast þau.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: