- Advertisement -

Viljum ekki svona ógeðslegt þjóðfélag

Þýði ekki að treysta á stjórnmálaelítuna – hún vinnur fyrir ríka fólkið.

Katrín Baldursdóttir skrifar:

MEÐ TAUPOKA ÚT Í BÚÐ TIL AÐ SETJA Í ALLAR PLASTVÖRUR STÓRFYRIRTÆKJANNA

Það er einfalt að sjá hvaða verkefni eru fram undan. Frelsi manns og náttúru undan græðgi, spillingu og ofurvaldi auðmanna. Sjálfstæðisbarátta almennings gegn yfirráðum fjármagnsins og stjórnmálaelítunnar. Barátta fyrir að fá sanngjarnan arð af auðlindum þjóðarinnar og fyrir að fá í hendur aukið lýðræðislegt vald til að hafa áhrif á aðstæður í lífi og starfi. Þetta er svo einfalt. Sjálfsagt öllu réttsýnu fólki. Og nákvæmlega ekkert mál að koma þessu á. Það er nóg til hér af öllu. Þetta er bara spurning um forgangsmál. Auðmenn vilja ekki að almenningur fái réttlátan skerf. Þeir sitja á völdum og peningum eins og ormar á gulli. Það þýðir ekkert að semja við þá. Almenningur þarf að berjast fyrir þessu. Það þýðir ekki að treysta á stjórnmálaelítuna því hún vinnur fyrir ríka fólkið. Þetta eru staðreyndir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og eyðilagt líf einstaklinga og fjölskyldna eins og þeim sýnist.

Og milljarðarmæringarnir sem eiga stórfyrirtækin vilja varpa ábyrgðinni á verndun náttúrunnar á einstaklinginn. Coca Cola, Pepsi, Nestle og önnur stórfyrirtæki, sem bera stærstu ábyrgð á hamfarahlýnuninni í heiminum, geta frjáls og óháð framleitt eins mikið af vörum úr plasti og öðrum mengandi efnum eins og þeim lystir. Þessi fyrirtæki stjórna heiminum í krafti peninga. Stjórna stjórnmálamönnum líka. Það er engin sem getur bannað þeim að traðka, skemma og menga umhverfið svo rosalega að nú stefnir í algjört óefni. Stórfyrirtækin geta gert það sem þeim sýnist. Og grætt eins mikið og þeim sýnist. Borgað eins lág laun eins og þeim sýnist. Fært fyrirtæki milli landa eins og þeim sýnist. Hirt auðæfi annar þjóða eins og þeim sýnist. Skemmt heilu byggðarlögin ef þeim sýnist. Og eyðilagt líf einstaklinga og fjölskyldna eins og þeim sýnist. Þessi fyrirtæki eru með færustu ráðgjafa í almannatengslum og tekst að koma því inn í hausinn á einstaklingnum að ef hann fer ekki með taupoka út í búð til að setja í allar plastvörur stórfyrirtækjanna þá geti hann ekki farið með góða samvisku út úr búðinni.

Svona er þetta. En svona getur þetta ekki gengið lengur. Það kemur fram í hverri könnuninni á fætur annarri að fólk vill þjóðfélag samvinnu, samkenndar, mannhelgi, raunverulegs frelsis og jöfnuðar. Samt er það ekki svo. Og þess vegna þarf að breyta því. Með samvinnu fólks sem tekur höndum saman og segir nei takk. Við viljum ekki svona ógeðslegt þjóðfélag.

Gleðilegt ár!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: