- Advertisement -

Viljum við allt þetta ferðafólk?

Viðhorf Ferðafólki, sem sækir okkur heim, hefur fjölgað um sem næst tuttugu prósent á ári. Sem segir okkur að til að taka á móti öllu þessu fólki þarf að fjölga gistimöguleikum að sama skapi, gestum fjölgar hér og þar, líka á viðkvæmustu stöðum, þeim fjölgar sem þessu nemur, og svo koll af kolli. Skoðum bara hótelin, þar sem mörgum þykir nóg um allar hótelbyggingarnar, en það þarf að byggja eða bæta við sem nemur öllum núverandi hótelum á Íslandi á næstu þremur til fjórum árum. Bara til að taka við þeim fjölda gesta sem mun sækja okkur heim. Og þegar við höfum innan fjögurra ára byggt svo mikið af hótelum að þau verða tvöfalt fleiri en nú er, verður ekkert sest niður og slappað af. Nei, aldeilis ekki. Á næstu fjórum þar á eftir þarf að tvöfalda þær hótelbyggingar sem þá verða til og svo koll af kolli og koll af kolli.

Þá á eftir að telja upp alla veitingastaðina, allar bílaleigurnar, allar rúturnar, alla vegina sem þarf að gera og laga, alla fararstjóranna sem þarf að mennta, allan matinn sem fólkið þarf að borða, öll fötin sem þarf að framleiða og selja og bara allt og allskonar.

Rökstuddur grunur er um að fólk í ferðaþjónustu komi sér undan skattgreiðslum. Það er miður. Hagstofan segir samt, að á síðustu tólf mánuðum var virðisaukaskattskyld velta, bara á hótelum og veitingastöðum, eitt hundrað milljarðar króna, það er á tólf mánuðum. Eitt hundrað milljarðar króna. Og hafði aukist um fjórtán milljarða á einu ár.  Annað er eftir þessu.

Að hugsa sér, á fyrstu sex mánuðum þessa árs, keyptu erlendir gestir vöru og þjónustu fyrir 47,5 milljarða króna, bara með greiðslukortum. Það er  27 prósent meira en á fyrstu sex mánuðum ársins í fyrra, sem þó var met, og bíðið við, það er 60 prósent meira en á sama tímabili árið 2012.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sjávarútvegurinn hefur aldeilis stuðning í samfélaginu. Hafrannsóknastofnun, Fiskistofa, Matís og eflaust fleiri opinber apparöt vinna við hlið atvinnugreinarinnar. Og árangurinn? Hreint frábær. Þannig er hægt að gera til að ná sem mestum og bestum árangri. Hafið í kringum Ísland er viðkvæm auðlind og því best að vita sem mest um hvernig er best að umgangast hana.

Orkan er okkur mikils virði. Við höfum til að mynda Orkustofnun til að standa að rannsóknum sem varða þá merku og viðkvæmu auðlind sem orkan er. Feilspor eru svo dýr. Að þau má helst ekki taka.

Náttúran okkar er öll takmörkuð auðlind, fólk kemur hingað til að skoða náttúruna, þá viðkvæmu auðlind. Og það sem meira er, hafi ég tekið rétt eftir öflum við meiri tekna í erlendum gjaldeyri með ferðaþjónustu en nokkurri annarri atvinnugrein. Að engar aðrar atvinnugreinar, einar og sér, séu þýðingarmeiri hvað varðar viðskipti okkar við aðrar þjóðir, svo þau geti gengið sinn gang.

Og hvað gerum við? Við erum jú með rannsóknamiðstöð ferðamála, þar sem vinna fáir starfsmenn og fari ég með rétt mál hrannast upp verkefni þar sem erfitt er að vinna úr, það vantar margt, peninga, aðstöðu og eflaust fleira.

Og hvað viljum við? Fleira ferðafólk, fleiri hótel, fleiri rútur, fleiri bílaleigubíla sem er sama og meiri umferð um okkar gölluðu vegi, fleiri veitingastaði, meiri átroðning á ferðastaði, meiri vá á viðkvæmustu stöðum, meiri peninga, meiri gjaldeyri, meiri hagvöxt, meiri framleiðslu, minni skuldir, meiri atvinnu og meira allt og ekkert? Já, hvað viljum við?

Allt þetta er á borði dagsins og við erum enn að vandræðast með náttúrupassa eða ekki náttúrupassa. Verkefnin eru svo mörg. Það þarf að ákveða svo margt, svo margt. Þegar rýnt er í tölur er ekki annað að sjá en tekjur samfélagsins séu ævintýralega miklar af ferðaþjónustunni. Þær má auka og þarf að auka, því allt þetta fólk sem sækir okkur heim kallar á miklar framkvæmdir, tökum bara sem dæmi þær samgöngubætur sem þarf að gera.

Sigurjón Magnús Egilsson.

e.s. sagt í þættinum Sprengisandur fyrr í dag.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: