- Advertisement -

Yfirsnobbelítan reynir að hræða alþýðuna 

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Jæja núna þegar einungis 66 virkir vinnudagar eru þar til kjarasamningar verkafólks renna út eru allir lobbíistar sérhagsmunaelítunnar ræstir út til að dreifa eins miklum hræðsluáróðri um að allt fari fjandans til í íslensku efnahagslífi, ef verkafólk vogar sér að fara fram á launahækkanir sem gera það að verkum að laun þeirra dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út.

Það er með svo miklum ólíkindum að ekki heyrist hósta né stuna frá lobbíistum elítunnar þegar efrilög samfélagsins tóku sér launahækkanir sem nema eins og fram hefur komið fjölmiðlum mörg hundruð þúsunda á mánuði. Hvar man ekki t.d. þegar laun bankastjóra Landsbankans voru hækkuð um 1 milljón á mánuði og bankaráð Landsbankans sagði að um „hóflega“ launahækkun væri um að ræða.

Núna koma lukkuritarar sérhagsmunahópanna og tala um að verkalýðshreyfingin verði að tala „varlega“ og verði að fara fram með afar hóflegar kröfur í komandi kjarasamningum því annars getur það valdið óstöðugleika. Núna á meira segja að reyna að kenna verkafólki um að nokkur fjármálafyrirtæki eru byrjuð að hækka óverðtryggðavexti sína. Ruglið sem er í gangi, ríður ekki við einteyming.

Það er svo sorglegt hvernig yfirsnobbelítan reynir að stjórna umræðunni og hræða alþýðuna til hlýðni. Tuggan um samspil óðaverðbólgu og launahækkana er orðið svo þreytt að það nær ekki nokkru tali. Að snobbelítan ætli sér enn og aftur að reyna að kenna verkafólki um verðbólguna er óþolandi, hvað var það sem keyrði verðbólguna áfram hér á árum áður?, jú það var þegar útgerðin kallaði á gengisfellingar slag í slag til að rétta hlut útgerðarinnar. Ætla lobbíistar sérhagsmunaelítunnar kannski að kenna alþýðunni um að hér varð efnahagshrun fyrir 10 árum?

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nei ég ætla ekki að spara neinar yfirlýsingar þótt Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands segi að verkalýðshreyfingin eigi að gera það.

Ég ætla alls ekki að spara yfirlýsingar að ég vil sjá að lágmarkslaun dugi fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar.

Ég ætla alls ekki að spara yfirlýsingar um að ég vil sjá að hagsmunir alþýðunnar verði teknir fram yfir hagsmuni fjármálakerfisins.

Ég ætla alls ekki að spara yfirlýsingar um að ég vil að tekið sé á okurvöxtum, verðtryggingu og húsnæðisliðurinn verði tekin úr lögum um vexti og verðtryggingu.

Ég ætla alls ekki að spara yfirlýsingar um að taka þurfi á þeirri taumlausri græðgisvæðingu sem nú ríkir á leigumarkaði.

Ég ætla alls ekki að spara yfirlýsingar um að létta verði á skattbyrði þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Við lobbísta sérhagsmunahópana vil ég segja, við munum og ætlum að krefjast þess að allir geti lifað af sínum launum og haldið mannlegri reisn, ekki bara sumir!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: