- Advertisement -

Samtakasundrun

Auðvitað vona allir að takist að bjarga félaginu, en þessi meðöl geta ekki – og mega aldrei – verða þau sem til björgunar gætu orðið.

Halldór Árni Sveinsson skrifar:

Hinir fordæmalausu faraldurstímar og nýr veruleiki tengdur þeim virðist draga fram það subbulegasta og óheiðarlegasta í fari atvinnurekenda – því miður. Reynt er að sölsa til sín sem mest af ókeypis peningum frá ríkinu, sem áttu reyndar að verja störfin í landinu, ekki vera bónus til fyrirtækja sem sitja á gildum sjóðum. Svo gildum sums staðar að þau hygðust bæta aðstoðinni inn í feitar arðgreiðslur, eftir ábendingar og álit lögfræðinga samtaka atvinnulífsins. Hvers konar kúgun og óttastjórn er beitt gegn launþegum, og ekkert farið leynt með fyrirlitningu á lægra launasettum.

Forvitnilegt er að fylgjast með forstjóra Icelandair sem hótar annan hvern dag að stofna ný stéttarfélög til að ná sínu fram í þröngri stöðu félagsins, en kemur svo í fréttir næsta dag, heiðbjartur í framan með þúsund watta geislabaug á höfði og Bjarnfreðarsonar eftiráskýringar á hraðbergi. Þessa framkomu – ef framkomu skyldi kalla – hefur hinn skeleggi forseti ASÍ kallað „Union Busting“, en hraksmán þessi er þekkt lúabragð erlendis, og er ætlað að vanvirða stéttarfélög og grafa undan trúverðugleika þeirra, og svo auðvitað að eyðileggja samstöðu hópa sem eiga í launadeilum við atvinnurekendur.

Mál er að linni.

Auðvitað vona allir að takist að bjarga félaginu, en þessi meðöl geta ekki – og mega aldrei – verða þau sem til björgunar gætu orðið.

Því er vonandi að fulltrúar lífeyrissjóðanna sem mestra hagsmuna eiga að gæta, standi í lappirnar og hafni allri hlutafjáraukningu á meðan þessi subbuskapur gengur yfir. Best væri að þessi hrokagikkur sem stýrir sögulegu lágflugi þessa fyrrum óskabarns þjóðarinnar ranki við sér og sjái sóma sinn í því að semja um sanngjarnar kröfur freyja og þjóna háloftanna. Mál er að linni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: