- Advertisement -

Harður vetur í boði Sjálfstæðisflokksins

Staðreyndin er sú að forsendur lífskjarasamningsins eru fallnar á vanefndum ríkisstjórnarinnar.

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar:

Af orðum Bjarna má lesa að ríkisstjórnin telji enga þörf á að efna sinn hluta lífskjarasamningsins vegna þess að staðan sé svo gjörbreytt og forsendur allt aðrar en lagt var upp með í aðdraganda samningsins.

Bjarni spyr frekar hvernig við getum beitt opinberum fjármálum til þess að verja störf og hlúa að fjölskyldum og fyrirtækjum.

Staðreyndin er sú að forsendur lífskjarasamningsins eru fallnar á vanefndum ríkisstjórnarinnar. Aðrir þættir í endurskoðun munu að öllum líkindum halda.

Þau atriði sem fella samninginn eru atriði sem einmitt hlúa að fjölskyldum og fyrirtækjum. Og kosta skattgreiðendur að öllum líkindum ekki krónu en gætu sparað mikla fjármuni og komið í veg fyrir félagsleg og lýðheilsuleg áföll sem fyrirsjáanleg eru sem afleiðingar efnahagsáfalla.

Ef við tökum hlutdeildarlánin, þá tókst fjármálaráðherra að snúa þeirri vinnu á hvolf. Eyðileggja málið með tekjutengingum og vaxtaákvæði. Honum tókst líka að þynna það út þannig að það gagnist sem allra fæstum og nota svo vaxtabótakerfið til að fjármagna hlutdeildarlánin. Þannig að 3,6 milljarðar verða teknir af húsnæðisstuðningi til að lána fólki til húsnæðiskaupa. Lána!! Þannig að ríkisstuðningurinn breytist í lán (sem er vaxta og afborgunarlaust) en er verðtryggt með „húsnæðisvísitölu“ (markaðsverði).

Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað að meðaltali um 4,4% á ári umfram verðlag síðastliðin 25 ár.
Það er ekki til verðbréfasjóður eða lífeyrissjóður sem hefur náð viðlíka ávöxtun þannig að nánast engar líkur eru á því að ríkið tapi á hlutdeildarlánunum (sem er í rauninni óhagstæðasta lánaformið í úrræðinu) allar líkur eru hinsvegar á að ríkið komi út í bullandi plús eins og raunin varð í Skotlandi þar sem fyrirmyndin er tekin.

Er hægt að hugsa sér skítlegra eðli?

Þynnum út stuðning og græðum á neyð!!

Fjármálaráðherra er svo einbeittur í að þynna út úrræðið og eyðileggja þessa þörfu og góðu vinnu, sem hefði komið fjölskyldum og byggingafyrirtækjum svo vel, að hlutdeildarlánin eiga að bera vexti ef fólk hækkar í launum.

Hlutdeildarlánin munu þannig skipa sér sess með óhagstæðustu lánaformum Íslandssögunnar, fjármögnuð með niðurskurði á raunverulegum húsnæðisstuðningi.

Láglaunafólkið sem stendur nægilega illa til að komast inn í úrræðið verður svo refsað grimmilega með vaxtaákvæði sem útilokar þennan viðkvæma hóp frá lífsnauðsynlegum kjarabótum með þessum jaðarskatti.

Er hægt að hugsa sér skítlegra eðli?

Lífskjarasamningurinn féll hinsvegar síðustu áramót þar sem bann á 40 ára verðtryggðum jafngreiðslulánum átti að hafa tekið gildi.

Þetta var fyrir kórónuveiruáhrifin!

Mál sem kostar ríkið ekki krónu en mun „hlúa að fjölskyldum“ um ókomna tíð með því að banna þetta viðbjóðslega lánaform. Málið hefur legið í gíslingu í fjármálaráðuneytinu frá því að samningar voru undirritaðir, útþynnt og gagnslaust með endalausum undanþágum sem gera öllum kleift að taka lánin áfram.

Hvernig getum við treyst fólki sem ekki er orð að marka?

Bjarni segir að forsendur ríkisins sem voru fyrir gerð lífskjarasamningsins, fyrir Covid áhrifin, séu allt aðrar. Það er rétt hjá Bjarna en það er líka staðan hjá fólkinu. Félagsmönnum okkar, skattgreiðendum sem munu fá reikninginn fyrir milljarða hundruðum sem fjármálaráðherra er að skrifa út í áhættusömum aðgerðum til fyrirtækja á meðan aðgerðir er snúa að heimilum, örugg hlutdeildarlán, eru fjármagnaðar með niðurskurði á öðrum mikilvægum stuðningi eða með því að halda lífskjarasamningsfrumvörpum í gíslingu í fjármálaráðuneytinu.

Það hlýtur að vera sjálfstæðismönnum áhyggjuefni hvernig þeir ætla að sannfæra kjósendur um næsta loforðapakka þegar þeir geta ekki einu sinni staðið við hluti sem kosta ekki neitt né ættu að trufla þá við auðvaldsdekrið.

Hvernig getum við treyst fólki sem ekki er orð að marka? Fólki sem finnst ekkert mál að svíkja hluti sem skrifað var undir og lofað var í orði og á borði?

Ég veit ekki með ykkur kæru vinir en ég var alinn upp við að standa við það sem ég segi. Í það minnsta leggja mig allan fram við að efna þau loforð sem ég gef og standa við þær skuldbindingar sem ég skrifa undir en ekki að vinna gegn þeim.

En hvað sem því líður þá skal ríkisstjórnin búa sig undir harðan verkalýðsvetur. Vetur þar sem verkalýðshreyfingin mun uppfæra kröfugerðina í samræmi við allt aðrar forsendur en voru fyrir gerð lífskjarasamningsins.

Harðan vetur í boði Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnar hans.

Og ef að samstarfsflokkarnir halda í eina mínútu að þau komist í gegnum næstu kosningar með auglýsingaherferðum sem yfirgnæfa svikin, eins og venjulega, þá er það gríðarlegt vanmat á þeim breytingum sem orðið hafa innan raða verkalýðshreyfingarinnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: