- Advertisement -

Ég var föst í gildru – fegin að vera laus

Sólveig Anna skrifar:

Ég hugsa að ég hefði getað framkvæmt fyrirvaralausa uppsögn á þeim manni sem hótaði því að koma heim til mín og gera mér mein þegar ég fékk um hótunina vitneskju 13. október síðastliðinn.

Í ályktun trúnaðarmanna starfsfólks skrifstofu Eflingar frá því í sumar var því haldið fram að ég hefði stöðugt í hyggju eða væri búin að framkvæma fyrirvaralausar uppsagnir. Fyrirvaralaus uppsögn er talið mjög alvarlegt brot á launamanni hafi atvinnurekandi ekki fyrir henni mjög góðar ástæður svo sem að launamaður hafi sýnt stórkostlegt gáleysi, hafi rækt störf sín með verulega ófullnægjandi hætti eða gerst alvarlega brotlegur í starfi.

Ég hugsa að ég hefði getað framkvæmt fyrirvaralausa uppsögn á þeim manni sem hótaði því að koma heim til mín og gera mér mein þegar ég fékk um hótunina vitneskju 13. október síðastliðinn. Það gerði ég þó ekki. Hann var ekki einu sinni áminntur. Hvers vegna ákvað ég að gera ekkert? Vegna þess að mér var tilkynnt að manneskjan sem hann upplýsti um langanir sínar til að fara heim til mín og gera mér illt (sem hann myndi komast upp með vegna þess að hann væri með hreina sakaskrá og yrði því ekki dæmdur til fangelsisvistar) vildi ekki, þrátt fyrir að vera svo brugðið við orð þess sem hótaði að hún leitaði með áhyggjur sínar til annars trúnaðarmanns starfsfólks skrifstofunnar og allavega eins annars starfsmanns, standa með mér vegna þess að hún vildi „vernda vinnusamband sitt samstarfsfélaga sinn til margra ára“. Vildi frekar standa með gerandanum, manninum sem var löngu hættur að tala um mig með nafni, en kallaði mig alltaf „konuna“ þegar hann var að úthúða mér sem fífli sem ekkert kynni við samstarfsfólk okkar, en að liðsinna mér.

Þegar ég heyrði þetta vissi ég að ef ég krefðist þess að eitthvað yrði gert (til að t.d. láta mig ekki þurfa að vera í þeirri stöðu að borða í sama matsal og hann því að ekki gat ég borðað inni hjá mér þar sem það var illa séð í starfsmannahópnum) myndi bókstaflega allt verða vitlaust. Ég yrði ásökuð um lygar. Um að vera búin að setja aumingja manninn á aftökulistann. Ég vissi að hann myndi sækja sér aðstoð hjá fyrrum stjórum hreyfingar vinnandi fólks, þeirra sem hafa til dæmis skemmt sér við það á síðustu árum að senda í aðdraganda þinga ASÍ og SGS erindi á fjölmenna hópa þing-gesta um hversu viðbjóðsleg glæpa-kona ég er. Ég vissi að ástandið á skrifstofunni yrði óbærilegt fyrir mig ef ég krefðist þess að eitthvað yrði gert. Og ég gat ekki hugsað mér meira óbærilegt ástand. Það var á endanum hin einfalda og sára niðurstaða sem ég komst að eftir að hafa hugsað um málið í næstum heila viku.

Í ályktun trúnaðarmanna starfsfólks skrifstofu Eflingar frá því í sumar var því haldið fram að ég hefði stöðugt í hyggju eða væri búin að framkvæma fyrirvaralausar uppsagnir. Þrátt fyrir að það væri ósatt.

Er hægt að hugsa sér alvarlegri aðför að mannorði formanns stéttarfélags en að ásaka hana um þetta?

Þessi einbeitta og grimmilega aðför að mannorði mínu setti mig í þá stöðu að geta ekkert gert til að bregðast við vitneskju um að maður gæti hugsað sér að fara heim til „konunnar“ til að fremja glæp. Ég var föst í gildru.

Ég er þrátt fyrir allt fegin að vera laus úr henni.

Sólveig Anna skrifaði greinina á eigin Facebooksíðu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: