- Advertisement -

Spillingin á Ísland er ekki minni núna

Marinó G. Njálsson:

Margt hefur verið gert frá hruni, en eitt hefur vantað. Siðbót! Ef eitthvað er, þá hafa menn forherst. Þeir sem hafa vald misnota það of oft.

Úr myndinni The Big Short.

The Big Short var á RÚV í gærkvöld. Vona að sem flestir hafi tekið sér tíma til að horfa á hana. Ég horfi á hana að jafnaði einu sinni á ári.

Fyrir þá sem ekki vita, þá fjallar The Big Short um inngróna spillingu og græðgi í bandaríska fjármálakerfinu, sem að lokum leiddi til falls Bear Stern í mars 2008 og hratt af stað keðjuverkandi áhrifum um allan heim. Í Bandaríkjunum einum misstu um 8 milljónir atvinnuna og 6 milljónir misstu heimilið sitt.

Það hafði í för með sér að um 10.000 manns misstu vinnuna og líklegast að hátt í 15.000 fjölskyldur hafi misst heimilið sitt.

Þessi atburður varð til þess að skýjaborgir íslensku bankanna, Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands, hrundu. Það hafði í för með sér að um 10.000 manns misstu vinnuna og líklegast að hátt í 15.000 fjölskyldur hafi misst heimilið sitt. Séu þessar tölur uppreiknaðar eftir mannfjölda í Bandaríkjunum, þá værum við að tala um að yfir 10 milljón hefðu misst vinnuna og 15 milljónir heimilið sitt. Eins og í Bandaríkjunum, þá bar engin ábyrgð á tjóni heimilanna og þau urðu að bera það sjálf.

Vissulega hvarf erlend starfsemi bankanna íslensku eftir fall þeirra, en sú íslenska hélt áfram. Hagnaður af innlendri starfsemi bankanna hefur numið eitthvað nálægt 1.000 milljörðum frá stofnun nýrra banka á fyrstu dögum október 2008. Það gerir að jafnaði 2,8 milljónir á hvert mannsbarn á Íslandi í það heila á 14 árum, ef gert er ráð fyrir að íbúar landsins hafi að meðaltali verið 350.000 hvert þessara ára eða 200.000 kr. á ári. Margir töpuðu aleigunni, margir urðu gjaldþrota, hjónabönd sundruðust og fjölskyldur tvístruðust, margir töpuðu heilsunni og svo eru það þeir sem eru ekki meðal okkar lengur. Sjálfur endaði ég á því að fá mér starf í Danmörku til að afla þeirra tekna sem þurfti til að standa undir kröfum bankanna.

Margt hefur verið gert frá hruni, en eitt hefur vantað. Siðbót! Ef eitthvað er, þá hafa menn forherst. Þeir sem hafa vald misnota það of oft. Eigi þeir pening, þá virðast þeir sýkjast af græðgi. Auðugt fólk virðast aldrei fá nóg, þó það muni ALDREI geta notað allan auð sinn. Og ekki kemur til greina að rétt hlut þeir verst settu.

…þar til ég varð skotmark vissra fjölmiðla fyrir að berjast fyrir réttindum skuldugra heimila og sagði í kjölfarið af mér.

Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð í janúar 2009 og ég var þar í stjórn, þar til ég varð skotmark vissra fjölmiðla fyrir að berjast fyrir réttindum skuldugra heimila og sagði í kjölfarið af mér. Ég hafði gerst sekur um að standa á minni sannfæringu í staðinn fyrir að samþykkja án athugasemda meirihlutaálit nefndar Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi forsætisráðherra, um skuldastöðu heimilanna. Ég vildi nefnilega bæta þeim heimilum, sem þurftu, þann skaða sem hrunið og líka stjórnmálamenningin hafði valdið. Ég vildi að hagur þeirra verst settu væri bættur, að hugað yrði að stöðu þeirra heimila sem ættu ekki fyrir neysluútgjöldum, hvað þá skuldum, að skuldir heimilanna yrðu aðlagaðar að greiðslugetu þeirra í samræmi við ákvæði laga nr. 107/2009. Ég vildi réttlæti til handa þeim sem höllum fæti stóðu í þjóðfélaginu.

The Big Short afhjúpar spillingu í Bandaríkjunum, sem enn er til staðar, og látið ykkur ekki detta eitt augnablik í hug, að spillingin á Ísland sé eitthvað minni núna, en hún var á árunum fram að hruni eða í uppgjöri hrunsins. Hvers vegna haldið þið, að ríkisstjórn eftir ríkisstjórn neitar að verða við þeirri ósk að farið sé í rannsókn á eftirmálum hrunsins? Það sem kallað hefur verið Rannsóknaskýrsla heimilanna. Hvers vegna haldið þið, að skýrslan um Lindarhvol hafi ekki verið birt eða sú um fjárfestingarleið Seðlabankans? Hvernig stendur á því, að ekki er hægt að bæta kjör þeirra með lægstu tekjurnar, breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu eða breyta bráðabirgðastjórnarskrá íslenska lýðveldisins þannig að hún henti því samfélagi sem hún á að vera merkisberi fyrir?

Ísland er efni í gott samfélag, en það verður það ekki nema allir fái sanngjarnan hluta af þjóðarkökunni.

Nýjasta dæmið í þessum fáránlega farsa er að verkalýðsfélag megi ekki berjast fyrir réttindum sinna félagsmanna og ríkissáttasemjari eigi að hafa vitið fyrir fullorðnu fólki, að því að virðist, vegna þess að hann hefur ekki tíma til að standa í þessu stappi.

Leyfi fólki að koma með sínar hugmyndir, en spilling kemur strax upp í minn huga. Og alltaf sama bullið um að einkavæða hagnað, en ríkisvæða tapið.

Ísland er efni í gott samfélag, en það verður það ekki nema allir fái sanngjarnan hluta af þjóðarkökunni. Líka öryrkjar og aldraðir.

Greinina birti Marinó á Facebooksíðu sinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: