- Advertisement -

Fátækt fólk og fokdýr þjónusta sérgreinalækna

„Á meðan hæstvirtur heilbrigðisráðherra bíður og vonar það allra besta þá er heilbrigðisþjónusta háð efnahag í íslensku samfélagi og það á aldrei að líðast í velferðarsamfélögum.“

Oddný Harðardóttir.

„Ég átti orðastað við hæstvirtan heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma í gær um það ófremdarástand sem hefur skapast vegna þess að samningar ríkisins við sérgreinalækna hafa verið lausir í fjögur ár og sjúklingar eru rukkaðir beint fyrir þann kostnað sem sérgreinalæknar telja að samningsleysi kosti þá. Hæstvirtur heilbrigðisráðherra sagði að málið væri í algerum forgangi hjá honum og að hann byndi enn vonir við að þess væri ekki langt að bíða að Sjúkratryggingar og sérgreinalæknar næðu samningum,“ sagði Oddný Harðardóttir á þingi fyrr í dag.

„Ég minni á að samningar við sérgreinalækna runnu út í lok árs 2018 og nú er 7. febrúar 2023. Upphæðirnar sem fólk er rukkað um eru umtalsverðar, rúmlega 50.000 kr. sums staðar fyrir algengar speglanir, svo dæmi sé tekið. Mér er hugsað til fólksins í Eflingu sem er á lægstu laununum. Hefur það efni á að verða veikt eða fara í fyrirbyggjandi skoðanir á einkareknum læknastofum? Hvað með öryrkja sem þurfa að treysta á greiðslur frá Tryggingastofnun? Hvað með fólkið á leigumarkaði sem ver meira en 70% ráðstöfunartekna sinna í húsnæðiskostnað? Hefur það efni á að leita sér nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu?

Nú fjölgar tilvikum þar sem fólk frestar því að fara til læknis og það mun valda auknum kostnaði hjá fólkinu sjálfu og heilbrigðiskerfinu þegar fram í sækir því að vandinn hverfur ekki. Hann frestast og eykst. Mikil eftirspurn er eftir þjónustu sérgreinalækna og biðlistar sums staðar langir. Það að fólk með lágar tekjur hafi ekki efni á að fara til læknis býr til meira pláss fyrir hina sem hafa nóg og ójöfnuður eykst. Á meðan hæstvirtur heilbrigðisráðherra bíður og vonar það allra besta þá er heilbrigðisþjónusta háð efnahag í íslensku samfélagi og það á aldrei að líðast í velferðarsamfélögum.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: