- Advertisement -

Ellert B. Schram – minningagrein

Ertu þú okkar maður í Ólafsvík,“ spurði Ellert. Ég svaraði játandi og hann bað mig að koma inn á skrifstofu til sín þegar ég væri búinn.

-sme

Ellert var hetjan. Fyrirliði KR. Hærra komust menn ekki í huga okkar strákanna sem lékum endalausan fótbolta á Framnesvegsvellinum. Hann var flottur á vellinum. Hann var helsta hetjan okkar.

Svo liðu nokkuð mörg ár. Ég bjó í Ólafsvík. Af sérstökum ástæðum varð ég ritstjóri og útgefandi staðarblaðsins, Ólsarans. Ég hafði ekki verið það lengi þegar ég afréð að hringja í DV. Mér var svarað og ég bað um yfirmann á ritstjórn. Elías heitinn Snæland svaraði. Ég sagði að ég væri ritstjóri Ólsarans og í Ólafsvík væri enginn fréttaritari fyrir DV. Elías sagði það ekki rétt. Víst, sagði ég og spurði hver það væri. „Þú,“ sagði Elías Snæland.

Þannig byrjaði ég að starfa hjá DV. Ég var lánsamur. DV birti allt sem ég sendi þeim. Svo kom að ég var í Reykjavík og tók þar viðtal við bæjarstjórann Kristján Pálsson. Mér fannst kjörið að fara á ritstjórn DV og fá að skrifa viðtalið þar.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Fyrsti Evrópuleikur KR og fyrsti Evrópukeikur Liverpool. Ellert var fyrirliði.

Þar hitti ég í fyrsta sinn Jóhönnu Sigþórsdóttur sem tengill okkar fréttaritaranna. Málið var auðleyst. Ég settist niður og byrjaði að skrifa. Var nýbyrjaður þegar Ellert B. Schram kom til mín og spurði hvað ég væri að gera. Mér fannst hann þekkja mig. „Ég er að skrifa frétt,“ stamaði ég. „Ertu þú okkar maður í Ólafsvík,“ spurði Ellert. Ég svaraði játandi og hann bað mig að koma inn á skrifstofu til sín þegar ég væri búinn.

Ég gekk hikandi að skrifstofunni. Dyrnar voru hálfopnar. Ellert sá mig koma og bauð mér sæti. Það sem hann sagði kom mér sannarlega á óvart. Hann bauð mér fast starf á ritstjórn sem blaðamaður. Ég þáði það með þökkum. Fór vestur, íbúðin sett á sölu og við fluttum.

Líf mitt gjörbreyttist. Það gerði félagi minn Ellert. Ég var svo sem mjög sáttur við að vera sjómaður, var meira að segja í að læra skipstjórn. Öllum þeim dyrum var skellt samstundis í lás.

Tvær goðsagnir ritstýrðu DV. Ellert og Jónas Kristjánsson. Ólíkir menn en báðir voru þeir fyrirmyndir. Ég á margar minningar um samskipti okkar Ellerts. Sumarið sem ég byrjaði kom Ellert að borðinu mínu og segir að það væri leikur á KR-vellinum um kvöldið. Ég sagðist vita það. Hann spurði hvort ég ætlaði ekki á völlinn. Sagðist ekki komast. Mikið að gera. Hálftíma fyrir leik kom gamli fyrirliðinn og sagði að við værum að fara saman á völlinn. Ég hlýddi. Það voru orð að sönnu hjá honum. Við vorum saman á vellinum. Töluðum um leikinn og um DV. Við unnum. Það er KR vann. Hann skutlaði mér aftur upp í Þverholt og ég hélt áfram að vinnu. Ég var kátur með þetta vinabragð Ellerts.

Við mættum báðir í fótbolta á gervigrasinu í Laugardal. Hann bestur og ég verstur. Það breytti engu. Ég að lokum látinn standa í örðu markinu. Gunnar Bender í hinu. Hann var markmaður DV í mörg ár. Ég var hafður til vara.

Íslandsmeitarar 1968. Ellert var fyrirliði. KR varð ekki aftur Íslandsmeistarar fyrr en árið 1999.

Svo kom að því að Ellert kemur til mín og segir að DV spili við einhverja mótherja eftir tvo daga. Gunnar Bender verði fjarverandi og ég verði að vera í markinu. Ég. Mörk að fullri stærð á Tunguárbökkum í Mosó. Ég sagðist ekki treysta mér. Við gerum þetta saman, sagði Ellert ákveðinn. Nú, verðum við með sitthvorn hanskann? Nei. Ellert sagðist verða haffsent og bauðst til að stýra mér í markinu. Ég gaf eftir.

Þetta var eitt ævintýri fyrir mig. Spila í marki í liði þar sem Ellert B. Schram var fyrirliði. Hátindur. Við vorum samferða að Tunguárbökkum á Volvobíl Ellerts. Leikurinn hófst og lengst af var núll núll. Hjá okkur gekk allt eins og í sögu. Svo kom að því að DV fékk horn. Ellert fór fram. Viti menn. Goðsögnin og fyrirliðinn stökk manna hæst og skallaði óverjandi í mark. Við unnum eitt núll. Ég hélt hreinu. Ellert hrósaði mér fyrir frammistöðuna.

Við settumst inn í Volvoinn. Ellert gerði ekkert meðan hinir óku allir á brott. Ég spurði hvort hann ætlaði ekki að leggja af stað. Bíddu aðeins sagði hann. Honum var það illt í bakinu að hann gat ekki komið fótunum strax á petalana. Varð að jafna sig. Hann var elsti maðurinn í leiknum, skoraði sigurmarkið og stýrði mér og vörninni. Samt svo slæmur í baki að hann gat ekki keyrt fyrr en eftir nokkrar mínútur.

Hér lét ég staðar numið. Ég á fleiri minningabrot um goðsögnina og fyrirliðann Ellert B. Schram.

Sendi Ágústu og öllum börnum Ellerts og öðrum ættingjum og vinum samúðarkveðjur.

Sigurjón Magnús Egilsson – sme.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: