- Advertisement -

Harður árekstur í þingflokki Vinstri grænna

„Ég treysti því að ráðherrann fylgi eftir vilja sínum og efli og auki hlut strandveiða til framtíðar því það er þjóðarvilji.“

Lilja Rafney Magnúsdóttir Vinstri grænum.

„Nú fer að lifna yfir víða í sjávarþorpunum, í höfnum sjávarþorpanna, þegar strandveiðarnar hefjast í næstu viku. Það var því mjög ánægjulegt að heyra þá niðurstöðu könnunar hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sem var gerð fyrir matvælaráðuneytið að viðhorf Íslendinga er mjög jákvætt gagnvart strandveiðum. Þar kom fram að yfir 72% þeirra sem tóku þátt í könnuninni vildu auka veiðiheimildir til strandveiða. Það er skýr afstaða til eflingar strandveiða og hæstvirtur ráðherra tók undir þennan vilja þjóðarinnar í ræðu sinni í síðastliðinni viku. Hún sagðist vilja efla strandveiðar og er það vel. Þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram þingmál um aukinn hlut strandveiða og að félagslegi hlutinn í fiskveiðistjórnarkerfinu verði aukinn úr 5,3% í 8–10% á einhverju árabili,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþingmaður VG, á Alþingi fyrr í dag.

Lilja Rafney hefur mikla þingreynslu og var formaður atvinnuveganefndar á síðasta kjörtímabili. Andstaðan hennar við fyrirætlun Svandísar Svavarsdóttur vegur þungt. Lilja Rafney sagði einnig:

„Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um strandveiðar sem er í engu samræmi við þennan vilja þjóðarinnar til að efla strandveiðar og því algerlega á skjön við þær rannsóknir og niðurstöður sem komu fram hjá Félagsvísindastofnun á dögunum. Frumvarpið sem nú liggur fyrir þinginu myndi breyta starfsumhverfi smábátasjómanna til hins verra og meirihluti strandveiðisjómanna er því mótfallinn og því eðlilegt að draga það til baka og taka mið af vilja þjóðarinnar og endurskoða þetta í þeim starfshópi sem er núna að vinna fyrir hæstvirtan matvælaráðherra. En nú blasir við að keyrt verður óbreytt fyrirkomulag á strandveiðum í sumar og hefði frekar verið ráð að skoða fækkun daga tímabundið í sumar fyrst nægar aflaheimildir væru ekki í boði miðað við hvernig þetta fór síðastliðið sumar og ekki var tekið úr almenna byggðakvótanum eins og hefði verið hægt að gera. Ég treysti því að ráðherrann fylgi eftir vilja sínum og efli og auki hlut strandveiða til framtíðar því það er þjóðarvilji.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: