- Advertisement -

„Láglaunafólk á að halda kjafti og róa“

SA vill nota heimsfaraldurinn til að grafa undan þeim árangri sem náðst hefur.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Ætli fólk geri sér grein fyrir því að á það ófriðarbál sem Samtök atvinnulífsins ætla sér nú að kynda á ekki aðeins að kasta hagsmunum lægst launaðasta fólksins á almenna vinnumarkaðnum heldur á líka að hafa umsamdar hækkanir af fólkinu á opinbera vinnumarkaðnum. Til dæmis því fólki sem um þessar mundir er nefnt ómissandi starfsfólk. Til dæmis öllum konunum sem börðust fyrir því að vera metnar að verðleikum síðasta vetur, konunum sem fóru í sex vikna verkfall hér í borginni, og konunum sem fóru tvisvar í verkfall við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Láglaunakonunum sem gæta barnanna okkar, vinna sem skólaliðar, og annast og aðstoða gamalt fólk í þeirra daglega lífi. Konunum sem taka á sig endalausa ábyrgð og auka-vinnu á hverjum degi, og aldrei meira en nú þegar heimsfaraldurinn gengur yfir. Konunum sem ættu að fá ekkert nema þakklæti og endalausa umbun fyrir sitt stórkostlega mikilvægi í samfélagi okkar.

Samtök atvinnulífsins vilja nota heimsfaraldurinn til að grafa undan þeim árangri sem náðst hefur í baráttunni fyrir efnahagslegu réttlæti á þessu landi og nota tækifærið til að ala á ójöfnuði og óréttlæti. „Við erum öll í sama bátnum“ þýðir að verka og láglaunafólk á að halda kjafti og róa. Ekki síst konurnar sem halda hér öllu gangandi með sínum endalausu áratogum. Svona er sannleikurinn. Hann er sagna bestur í þessu fráleita máli.

Þú gætir haft áhuga á þessumTengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: