- Advertisement -

Launin í báðum störfum voru „eftirminnileg“

Nú virðist útspilið vera að etja saman háskólamenntuðum og ómenntuðum.

Álfhildur Leifsdóttir, sem á sæti í sveitastjórn Skagafjarðar, skrifaði:

Það er kunnugleg umræða farin í gang í þjóðfélaginu einu sinni enn. Láglaunastéttir kvenna eru þjóðfélaginu hættulegar, þær gætu velt öllu um koll með kröfu sinni um að lifandi sé af lágmarkslaunum. Valda höfrungahlaupi. Bera mikla ábyrgð með óraunhæfum kröfum sínum. Ég hef tilheyrt þessum hópi. Unnið sem leiðbeinandi á leikskóla og við aðhlynningu aldraðra. Aðhlynningin var erfiðasta starf sem ég hef sinnt á mínum starfsferli, ekki vegna skjólstæðinganna heldur aðbúnaðar. Launin í báðum störfum voru „eftirminnileg“.

Ég tilheyri líka stétt háskólamenntaðra, stórum hópi sem hefur það reglulega á samviskunni að ætla að setja þjóðfélagið á hliðina með kröfum sínum. Kennarar. Allir sammála um mikilvægi kennara. Allir meðvitaðir um kennaraskortinn sem fram undan er. En það má ekki ræða laun eða aðbúnað í aðgerðaráætlunum um kennaraskortinn, bleiki fíllinn fær bara að vera þarna óáreittur. Það vill til að kennarar eru að stærstum hluta konur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

…treysti síður þeim sem aldrei hafa þurft að sinna láglaunastörfum…

Nú virðist útspilið vera að etja saman háskólamenntuðum og ómenntuðum. Að í skjóli menntunar megi halda niðri þeim sem eru ómenntaðir og geta ekki lifað af sínum launum í samfélagi OKKAR. Láglaunakonur. Burðarstoðir þjóðfélagsins en þeim skal samt haldið niðri.

Í tæp 2 ár hef ég svo sinnt verkefnum sem tengjast sveitarstjórnarmálum. Fæ þar greitt fyrir fundasetu auk mánaðarlegra launa. Ekki háar upphæðir í stóra samhenginu en ef tíma er deilt með krónum þá er samhengið talsvert annað en launaseðlar mínir sem kennara, hvað þá sem leiðbeinanda á leikskóla eða í aðhlynningu aldraðra. Eiginlega hjákátlegur samanburður.
Og hverjir eru það sem ákvarða stóru hlutina í okkar samfélagi? Það eru þeir sem fá hjákátlegu launaseðlana. Margar krónur fyrir hverja mínútu. Ég því miður treysti síður þeim sem aldrei hafa þurft að sinna láglaunastörfum, aldrei hafa þurft að telja krónurnar til næstu mánaðamóta, til að taka stóru ákvarðanirnar sem varða okkur öll. Því hvernig er hægt að sjá samhengið rétt þarna „að ofan“.

Ég stend með láglaunafólki.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: