- Advertisement -

Lífskjör / Önnur lögmál gilda um elítuna

Stjórn VR styður í einu og öllu kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga og allra stétta og gerir ekki kröfu um að aðrir fái það sama eða minna en við fengum.

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar:

Í ljósi yfirlýsinga stjórnvalda vegna kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga um að öll vinna sé samkvæmt því leiðarljósi sem var markað með Lífskjarasamningnum á sínum tíma vil ég koma eftirfarandi á framfæri.

Stjórnvöld hafa séð til þess að ákveðin elíta innan stjórnkerfisins, þar með talið þau sjálf, lúta allt öðrum lögmálum þegar kemur að markmiðum lífskjarasamningsins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það hljóta allir, sem minnsta vit hafa á kjarasamningagerð…

Lífskjarasamningurinn var ekki samningur sem átti að ganga yfir aðrar starfsstéttir sem ekki voru hluti af honum. Það hljóta allir, sem minnsta vit hafa á kjarasamningagerð, að gera sér grein fyrir því að við sem komum að þessum samningum höfðum ekkert og höfum ekkert umboð til að semja fyrir þær starfsstéttir sem ekki voru hluti af Lífskjarasamningnum.

Stjórn VR styður í einu og öllu kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga og allra stétta og gerir ekki kröfu um að aðrir fái það sama eða minna en við fengum heldur fögnum við því ef aðrir ná betri árangri sem við getum svo haft að leiðarljósi í næstu samningum.

Betri árangur annara mun ekki hafa nokkur áhrif á endurskoðun okkar í haust.

Það er til háborinnar skammar að hér séu opinberar og samfélagslega mikilvægar stéttir án kjarasamninga árum saman á meðan efsta lag stjórnkerfisins hefur skammtað sér krónutöluhækkanir sem jafngilda lágmarkslaunum, jafnvel margföldum, fyrir 100% vinnuframlag.

Því skal svo haldið til haga að það eina sem raunverulega ógnar lífskjarasamningnum eru stjórnvöld sjálf. Það stendur ekki steinn yfir steini þegar kemur að efndum loforða og hefur mest allur tími og vinna verkalýðshreyfingarinnar farið í það að endursemja og krefja sömu stjórnvöld um sömu hluti og samið var um og skrifað var undir.

Þessi staða er ekki hjúkrunarfræðingum að kenna.

Má þar nefna verðtryggingarmálið og húsnæðismálin sem fjármálaráðuneytið hefur haldið í gíslingu mánuðum saman og útþynnt í nánast ekki neitt.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig stjórnvöldum mun ganga að fara með verkalýðshreyfinguna í fanginu inn í kosningaárið því eitt er víst að eins og staðan er í dag eru forsendur lífskjarasamningsins brostnar. Og fátt sem getur komið í veg fyrir að samningum verði sagt upp í haust.

Þessi staða er ekki hjúkrunarfræðingum að kenna. Þessi staða er í boði stjórnvalda. Stjórnvalda sem ekki eru orðanna virði og lítið sem ekkert að marka loforð þeirra, öðrum sem nú eru í samningaviðræðum til varnaðar.

Ég vil þó taka fram að ég hef átt mjög góð samskipti við félags og barnamálaráðherra ásamt húsnæðis og mannvirkjastofnun í þeirri frábæru vinnu sem unnin hefur verið með tillögum í húsnæðismálum og endalausri viðleitni í að miðla málum gagnvart forsætis og fjármálaráðherrum.

Við skulum setja okkur í stellingar fyrir komandi vetur. Ef hann verður harður verður það í boði stjórnvalda og við skulum ekki leyfa þeim að komast upp með að klína þeirri ábyrgð á aðra.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: