- Advertisement -

Massíf og forhert tilraun til að smala verka- og láglaunafólki inní SALEK

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Verkafólk, með láglaunakonur í broddi fylkingar, opnuðu geymslu verkalýðshreyfingarinnar sem var hætt flestu öðru en að tala um sig sjálfa við sjálfa sig, og sóttu þangað vopnin sem „þjóðarsátt“ ríkti um að ekki mætti nota.

Lægst launuðu hóparnir hækkuðu mest í síðustu kjaralotu svokallaðri. Konur og aðflutt verkafólk. Þar sem að Eflingar-fólk var fjölmennt varð árangurinn raunverulegastur og þar sem að Eflingar-fólk, mest ómissandi kven-vinnuafl í umönnunarstörfum var eitt í kjarabaráttu, eins og í borginni, var árangurinn mestur. Þetta reiknaði kjaratölfræðinefnd út á nýliðnu ári. Orð urðu aðgerðir og aðgerðir skiluðu árangri. Það er nú sannað svo að enginn getur því neitað, útreiknað í opinbera exel-skjalinu: Fái verkakonur tækifæri geta þær hafist handa við að breyta sjúku arðránssamfélaginu sem hvílir á vinnu þeirra en vill þó ekkert af þeim vita. Vitneskja þessara kvenna um eigið stórkostlega mikilvægi í efnahagslegum raunveruleika samfélagsins er þegar allt kemur til alls máttugri en tilætlunarsemi, yfirgangur og kúgunartilburðir valdastéttarinnar.

Verkafólk, með láglaunakonur í broddi fylkingar, opnuðu geymslu verkalýðshreyfingarinnar sem var hætt flestu öðru en að tala um sig sjálfa við sjálfa sig, og sóttu þangað vopnin sem „þjóðarsátt“ ríkti um að ekki mætti nota. Þau sóttu vopnin og létu sér ekki nægja að hringla aðeins í rykföllnu og ryðguðu „skraninu“. Létu sér ekki nægja að lifa á frægð og afrekum þeirra sem á undan komu, létu sér ekki nægja að syngja Njallann einu sinni ári; opnuðu geymslurnar og drógu fram vopnin, settust við brýnið forna Samstöðu og létu svo til skarar skríða. Sögðu líkt og Angela Davis forðum daga: „Ég sætti mig ekki lengur við það sem ég get ekki breytt. Ég breyti því sem ég get ekki sætt mig við.“ Með nú útreiknuðum árangri opinberra reiknimeistara.

Og af þessum sökum er nú fátt valdastéttinni mikilvægara en að gera vopnin upptæk, troða þeim aftur inn í geymsluna og henda lyklinum. Mölva brýnið. Þess vegna vill valdastéttin „auka heimildir ríkissáttasemjara“. Þess vegna er henni svo hugleikið að „bæta vinnubrögð“ við kjarasamningagerð. Þess vegna á að stofna „standandi gerðardóm“ til að skerða verkfallsrétt ómissandi fólksins, þeirra sem endurskapa samfélagið á degi hverjum og knýja áfram hagvöxtinn með vinnu sinni. Þessa vegna á að gera allt til að innleiða SALEK; umönnunar-innviðir hins opinbera og kapítalískar maskínur atvinnurekenda þurfa sína risastóru hrúgu af láglaunafólki til að viðhalda óbreyttu arðráns-ástandi svo að hin auðugu megi halda áfram að auðgast; SALEK hefur verið endurskírt „bætt vinnubrögð“ vegna þess að ekkert þykja verri vinnubrögð í samtíma vorum en að verkafólki takist að bæta uppskeru sína umtalsvert með því að standa saman vopnuð hugrekki og staðfestu.

Úr baráttunni:

Verkafólk á höfuðborgarsvæðinu, með láglaunakonur í broddi fylkingar, horfðist í augu við sinn efnahagslega raunveruleika og ákvað að hefjast handa við að breyta honum. Þau sem útnefnt höfðu sjálf sig sem möguleikastjóra lífs okkar þurftu að játa sig sigruð.

Verkafólk á höfuðborgarsvæðinu, með láglaunakonur í broddi fylkingar, horfðist í augu við sinn efnahagslega raunveruleika og ákvað að hefjast handa við að breyta honum. Þau sem útnefnt höfðu sjálf sig sem möguleikastjóra lífs okkar þurftu að játa sig sigruð. Því skal gera vopnin upptæk, í þeirra stað komi gamla „góða“ vonleysið um að engu sé hægt að breyta. Þetta þarf að gerast hratt og örugglega; í stað samstöðu og baráttuvilja vinnuaflsins fáum við nefnd skipaða meðlimum hinnar menntuðu millistéttar með yfirumsjón frá stóru stjórum borgarastéttarinnar til að ákveða „svigrúmið“ á vinnumarkaði án þess að velta fyrir sér að nokkru leyti þörfum eða réttlætis-kröfum verka og láglaunafólks.

Fyrir okkur sem tilheyrum vinnuaflinu er best að vera ávallt raunsæ og jarðtengd. Ég hvet okkur til að fylgjast með orðræðu og aðgerðum valdastéttarinnar og valdamikilla afla innan hreyfingar vinnandi fólks á komandi mánuðum. Undirbúningur kjarasamninga fer að hefjast fyrir alvöru. Ef einhver heldur að ekki verði gerð massíf og forhert tilraun til að smala verka og láglaunafólki inní þá SALEK-rétt sem hálaunafólkið, þau sem njóta alls hins besta sem samtíminn hefur upp á að bjóða vegna endalausrar vinnu okkar, telur að við eigum heima í, allt í nafni vandaðra vinnubragða, viðræðuáætlana og stöðugleika þá býr sú manneskja í veröld fantasíunnar og ætti sem allra fyrst að flytja sig yfir í raunveruleikann. Baráttan snýst um ekkert annað en aðstæður inn í honum, og þau sem tala hæst og mest um vinnubrögð, viðræðuáætlanir og verkferla á vinnumarkaði eru þau sem þurfa aldrei að hugsa um hvað gerist síðustu 10 daga mánaðarins þegar allur peningur er búinn og lífið er ekkert nema biðin eftir næstu útborgun.

Úr sáttmála ríkisstjórnarinnar:Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: