- Advertisement -

Refsilausar lygar

Benedikt Sigurðarson.

„Það virðast ekki liggja neinar refsingar við því að ljúga upp allskonar vitleysu eins og þessi „meintu spekingar“ sem Egill Helgason dró upp í Silfrinu þenna sunnudaginn. Kristinn Hrafnsson kallar það sérstakt kjördæmapot að beita sér á Alþingi fyrir því að afar brýn samgöngubót verði að fullu greidd með veggjöldum sem að langmestu leyti greiðast af heimamönnum. Síst mun ég þurfa að koma til varna fyrir Steingrím J. eða Kristján Möller – enda ekki margir sem hafa gagnrýnt þeirra pólitík harkalegar en undirritaður – en það er ekki hægt að kalla fabúleringar Kristins Hrafnssonar neitt annað en suddalegan róg og dylgjur í samhengi við þátt KLM og SJS í Vaðlaheiðargöngum. Já; það var beitt afvegaleiðingu og útúrsnúningum vegna þess að fjöldi manna – óttaðist þá hugmyndafræði að veggjöldum væri ætlað að greiða samgöngumannvirki að fullu. Gamla vælið útaf Reykjanesbrautinni tók sig upp og FÍB var misnotað til að bergmála upplognar og falskar fabúleringar frá Pálma Kristinssyni – sem gaf sér þá forsendu að varanlegt hrun yrði í umferð frá Akureyri og í gegn um Þingeyjarsýslu og til Austurlands – og slíkt hrun mundi standa fram yfir 2027.

Já; Vaðlaheiðargöng fóru í undirbúning að frumkvæði og á kostnað heimaaðila. Fnjóskadalsmenn lögðu til 10 milljónir, KEA lagði fram hlutafé og lán samtals nærri 60 milljónir og svo komu sveitarfélögin og allmörg fyrirtæki á svæðinu inn í verkefnið. Heimamenn lögðu upp allan undirbúning og stofnuðu um það félag.
Upphafleg hugmynd gekk út á að ca 30 % yrðu kostuð af ríkisframlagi og 70% yrðu kostuð af veggjöldum (til að greiða niður lán vegna framkvæmdarinnar). Svo kom Hrun; í framhaldinu gerbreyttust forsendur á lánamörkuðum og þá komu stjórnmálamenn til samstarfs – jafnvel þeir sem alls ekki höfðu tekið neinn jákvæðan þátt í undirbúningi (þar með taldir KLM og SJS).
Umferðarsprengin og margföldun á fjölda ferðamanna hefur styrkt tekjugrunn Vaðlaheiðarganga frá því að áætlanir voru unnar 2010. Þjónustumunstur Norð-Austurlands hafa einnig gerbreyst síðustu örfá árin – og nú sækja Þingeyingar og Austfirðingar meiri og meiri af opinberri þjónustu sinni til Akureyrar – ekki síst heilbrigisþjónustu. Það má rifja upp að það var fyrst á árinu 1995 sem reynt var að reka heilsársveg/vetrarsamgöngur milli Mývatnssveitar og Egilsstaða –  og þá voru ekki einu sinni reknar reglulegar vetrarsamgöngur yfir Fljótsheiði og Mývatnsheiði.
Það kann að vera að fyrirtækið Vaðlaheiðargöng verði sett í þrot – en með því framkallast engin bein tapshætta hjá ríkissjóði. Ríkið mun þá taka alla framkvæmdina yfir og nýta sér ótímabundinn rétt til að innheimta veggjöld. Meint áhætt ríkissjóðs snýr því ekki um að ríkið fái ekki allt til baka – heldur eingöngu um það hversu langur endurgreiðslutíminn verður. Ríkisábyrgðarsjóður reiknar nú í maí 2017 að það gæti tekið allt að 37 ár að greiða lánin upp – miðað við neikvæða þróun.
Líklegra er að það muni taka styttri tíma en 30 ár.
Sannanlega er það ekki áhyggjuefni að vegfarendur greiði gjald fyrir samgönguöryggið – og þurfi ekki að reikna með því að allt að 30 daga á vetrinum séu leiðir um Víkurskarð lokaðir meirihluta sólarhringsins og heilir mánuðir þar sem vegurinn er ófær frá kl 20 og til kl 9 og 10 að morgni.
Við skulum einmitt velta því fyrir okkur hvort ekki ætti að rukka sérstaklega í Landeyjahöfn og í Héðinsfjarðargöng – nú og þá hina væntanlegu Sundabraut og flýta fjármögnun verkefna með lántökum sem greiðast niður með notendagjöldum.
Það er auðvitað ekki boðlegt að safnað sé saman heilum panel sem ýmist veit ekkert um hvað málið snýst – nú eða þá þeir sem ættu að vita eða geta vitað – ljúga einhverri svívirðingu um fjarstatt fólk. Vaðlaheiðagöng fóru af stað vegna þess að greiningar leiddu i ljós að þörf var fyrir þessa samgönguleið og það voru yfirgnæfandi líkur á að framkvæmdina mætti greiða upp að fullu á minna en 30 árum – með veggjöldum.
Það er hins vegar ákveðið rannsóknarefni – af hverju í ósköpunum Vegagerð Ríkisins hafði ekki sett eina einustu vinnustund eða peninga í að greina kosti og mikilvægi jarðganga i gegn um Vaðlaheiði.

Benedikt Sigurðarson.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: