- Advertisement -

SA efnir til ófriðar og stéttastríðs

Og þá er að bretta upp ermar og byrja baráttuna upp á nýtt.

Katrín Baldursdóttir skrifar:

Samtök atvinnulífsins með Halldór Benjamín framkvæmdastjóra í broddi fylkingar er nú að efna til ófriðar og stéttastríðs á vinnumarkaði með því að segja upp lífskjarasamningum. Verkalýðshreyfingin er ekki að segja upp lífskjarasamningnum. Hún vill ekkert stríð og engan ófrið á vinnumarkaði. Hún vill standa við gerða samninga. Hún vill ekki svíkja neitt. Hins vegar er það svo að þegar atvinnurekendur ætla að brjóta gerða samninga, þá verður verkalýðshreyfingin að  sjálfsögðu að standa í lappirnar. Og mun gera það af festu og áræðni. Það er heldur ekki boðlegt að launafólk á lægstu töxtunum taki á sig byrðarnar af núverandi ástandi í samfélaginu. En það eru bara lægstu taxtarnir sem eiga að hækka. Þó mjög hóflega. Verkalýðshreyfingin ætlar ekki að stýra sínu fólk beint í hungur og enn meiri fátækt. Það er gömul saga og ný að atvinnurekendum er alveg sama um þá sem eiga vart til hnífs og skeiðar, jafnvel þó þeir vinni myrkranna á milli. Milljónamæringarnir vilja halda öllu sínu og vilja alltaf meira og meira.

Og þá er að bretta upp ermar og byrja baráttuna upp á nýtt. Úr því að Halldór Benjamín vill brjóta samninga í umboði atvinnurekenda, þá er að sjálfsögðu upplagt að ráðast í endurbætur og taka upp mörg mikilvæg mál sem verkalýðshreyfingin fórnaði til að ná sáttum á vinnumarkaði með lífskjarasamningnum. Sólveig Anna nefnir hér ýmis mál sem verða tekin upp á borð í væntanlegum samningum. Þar á meðal lífeyrissjóðakerfið, skattkerfið, skattaskjól, eignastöðu hinna ríku og eignaleysi hinna fátæku:

„Við erum jafn­framt meira en til­búin í við­ræður um eðli líf­eyr­is­sjóða­kerf­is­ins og aðkomu atvinnu­rek­anda að því, við­ræður um það sem senni­lega væri rétt­ast að kalla „lýð­ræð­i­svæð­ingu líf­eyr­is­sjóða­kerf­is­ins“. Þar munum við setja allan fók­us­inn á hags­muni lág­launa­fólks­ins sem sann­ar­lega eru tap­arar þessa kerf­is. Við erum líka til­búin og vel und­ir­búin í intensívar umræður um skatt­kerfið og hvernig við viljum að það sé notað mark­visst til að end­ur­út­hluta þeim gæðum sem hér verða til með vinnu okk­ar. Við munum einnig setja mik­inn fókus á skatta­skjól og þann þjófnað sem fjár­magns­eig­endur kom­ast upp með þegar þeir senda millj­arða á millj­arða ofan í felur til að kom­ast hjá því að taka eðli­legan þátt í rekstri þjóð­fé­lags­ins. Við erum líka til­búin til að ræða eigna­stöðu hinna auð­ugu og eigna­leysi lág­launa­fólks­ins sem hefur verið gert ómögu­legt að eign­ast eigið hús­næði svo það geti orðið fórn­ar­lömb arð­ráns­ins hins seinna; eftir að þau hafa fengið sín litlu laun útborguð þurfa þau að greiða því sem næst allar sínar ráð­stöf­un­ar­tekjur á gróða­væddum hús­næð­is­mark­að­i. „

„Við erum til­búin í við­ræður sem snú­ast um vinnu­staða­eft­ir­lit og það sem við finnum þegar við heim­sækjum vinnu­staði. Við erum til­búin í við­ræður um stytt­ingu vinnu­vik­unn­ar. Við erum til­búin í við­ræður um launa­mun á vinnu­stöðum og hvað við teljum eðli­legt og ásætt­an­legt í þeim efn­um.“

Og verkalýðshreyfingin er tilbúin til að ræða um aukið lýðræði á vinnustöðum ásamt fjölmörgu öðru.

Atvinnurekendur hafa nefnilega ekki staðið við sinn hlut. Þeir hafa efnt til átaka. Ófriðar og stéttastríðs.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: