- Advertisement -

Skiptir miklu máli fyrir íslenskt auðvald að eiga sína fjölmiðla

…óheiðarleiki sumra ríður ekki við einteyming…

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifaði:

Ritstjóri Morgunblaðsins er agalega glaður með nýjan kjarasamning sem náðst hefur á milli eigenda álversins í Straumsvík og verkalýðsfélaga vinnuaflsins þar. Það er vegna þess að samningurinn er langur, gildir í meira en 5 ár. Ritstjórinn telur þetta skapa „stöðugleika“ og „öryggi“. Hann telur að nokkuð hafi vantað upp á að tekið sé tillit til stöðugleikans og að „samningaþref“ hafi valdið óvissu. Hann vill að allir kjarasamningar verði langir, það sé best og að því ættu svokallaðir aðilar vinnumarkaðarins að stefna. Ég biðst agalegs forláts en ég bara get ekki annað en rifjað upp þá nýliðnu tíma er forsvarsmenn eigenda atvinnutækjanna fóru um alla fjölmiðla æpandi að EKKERT ANNAÐ kæmi til greina en að svíkja gerða Lífskjarasamninga en gildistími þeirra er einmitt nokkuð langur, og enduðu svo margra mánaða löng vein sín á því að reyna að SEGJA UPP SAMNINGUM. Vitiði hver vildu ekki segja upp hinum löngu samningum? Vinnandi fólk. Og vitiði hvers vegna? Af því að það, vinnandi fólkið, vildi bara fá að hafa örlítinn stöðugleika í lífinu sínu. Og vegna þess að það vissi að ekkert yrði meira kreppu lengjandi og dýpkandi en það að segja upp gildandi kjarasamningum og hafa af fólki umsamdar launahækkanir.

Ein helsta klappstýra hins tryllingslega háværa minnihluta íslenskra samnings-uppsegjara síðasta árs var… bíðiði…. jú, enginn annar er ritstjóri Morgunblaðsins. Ha? segiði þið kannski núna, er hann núna að segja að best sé að hafa langa samninga en vildi sjálfur fyrir stuttu brjóta gerða samninga og fokka öllu upp? Og hvað ég get þá sagt annað en Já, kæra fólk, svona bara er þetta; óheiðarleiki sumra ríður ekki við einteyming og þess vegna skiptir svo miklu máli fyrir íslenskt auðvald að eiga sína fjölmiðla og sína ritstjóra; sameinuð í óheiðarleikanum svífast þau einskis og eru bókstaflega ávallt tilbúin til að RÖFLA það sjúka röfl sem þörf er á hverju sinni.

Annars óska ég vinnandi fólki í álverinu til hamingju með samningana og vona af öllu hjarta að auðvaldið hyggist standa við þá. Því að við sannarlega vitum aldrei hvað verður þegar það og þeirra málpípur eiga í hlut.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: