- Advertisement -

Stefnum í neyð í heilbrigðismálum

Í þessu samhengi er áhyggjuefni að í þessari fjármálaáætlun er gert ráð fyrir fjármögnun umtalsvert færri hjúkrunarrýma en heilbrigðisráðuneytið sjálft áætlar að þörf verði fyrir á næstu árum.

JPJ.

Jóhann Páll Jóhannsson Samfylkingu sagði meðal annars þetta um nýsamþykkta fjármálaáætlun ríkisstjórnarflokkanna:

„Framlög til fjárfestinga á Landspítalanum sjálfum, og þá erum við auðvitað ekki að horfa til þess gríðarstóra uppbyggingarverkefnis sem er í gangi á spítalareitnum, hafa lækkað um 472 milljónir að raunvirði frá árinu 2018 vegna aðhaldskrafna ríkisstjórnarinnar, þetta bendir spítalann á, og framlag til fjárfestingar í húsnæði dregist saman um 190 milljónir af sömu ástæðu. Nýting legurýma er langt umfram það sem gengur og gerist á spítölum sem við berum okkur alla jafna saman við, um og yfir 100% þegar almenna viðmiðið er að 85% sé kannski æskilegt nýtingarhlutfall.

Við þekkjum kannski ágætlega, það hefur komið skýrt fram í opinberri umræðu og í fjölmiðlum og umsögnum ár eftir ár á Alþingi, að ein helsta ástæðan fyrir þessum legurýmisskorti og þessari miklu nýtingu á þeim legurýmum sem fyrir eru er auðvitað sú að á hverjum tíma dvelja einhverjir tugir sjúklinga sem hafa lokið meðferð á spítalanum en bíða eftir hjúkrunarrými eða öðru þjónustuúrræði. Í þessu samhengi er áhyggjuefni að í þessari fjármálaáætlun er gert ráð fyrir fjármögnun umtalsvert færri hjúkrunarrýma en heilbrigðisráðuneytið sjálft áætlar að þörf verði fyrir á næstu árum. Það kemur fram í greinargerð um málefnasvið 25 að almenn hjúkrunarrými í landinu voru alls 2.790 í lok ársins 2022.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„…að þarf að fullfjármagna þetta og setja markið hærra en hefur verið gert.“

Ef gert er ráð fyrir sambærilegri nýtingu hjúkrunarrýma og nú er þarf að fjölga hjúkrunarrýmum um 602 fram til ársins 2028. En þrátt fyrir þetta er aðeins gert ráð fyrir fjármögnun 394 nýrra rýma á landinu öllu á tímabilinu 2024–2028. Þá þarf auðvitað að grípa til sterkari heimaþjónustu o.fl. samhliða fjölgun hjúkrunarrýma sem er bara það hagkvæma og eðlilega í stöðunni. Heilbrigðisráðuneytið bendir á að verkefnið Gott að eldast og þau áform sem þar eru boðuð um samþættingu á þjónustu, samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu, taki á þessu til lengri tíma. Þá dugar ekki að ráðast í einhvers konar tilraunaverkefni, þróunarverkefni, bara á einhverjum tilteknum svæðum. Það þarf að gera þetta á landinu öllu og það þarf að fullfjármagna þetta og setja markið hærra en hefur verið gert.“

Samkvæmt þessu stefnir sífellt til hins verra. Vond er staðan nú og hún verður sífellt verri. Hægt og bítandi verður hér neyð eftir fá ár.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: