- Advertisement -

Þjóðlegur fróðleikur / Fyrsti vélstjórinn

Frásagnir – þjóðlegur fróðleikur / „Svo sem kunnugt er, hefur sjómennska verið stunduð hér síðan land byggðist. Ýmsar greinar sjómannastéttarinnar eru aftur á móti ungar og þar á meðal er vélstjórastéttin,“ þannig hefst merk grein um fyrstu vélstjórana á Íslandi. Greinin er fengin úr blaði sem hét Sjómannadagsblaðið og er frá árinu 1939.

Þar er talað um breytingar á bátavélum árið þar á undan. „Síðan um aldamót hafa mjög breyst lifnaðarhættir og atvinnuskilyrði þjóðarinnar. Vélarnar hafa hér, eins og annars staðar rutt sér til rúms og gerbreytt starfsaðferðum. Orkuver og iðnaðarfyrirtæki hafa risið upp og er er nú varla svo bátur eða skip, að ekki sé knúið áfram með vélum,

Eigi mun það með vissu vitað, hver hafi verið hinn fyrsti starfandi vélstjóri, hérlendra manna; þó mun mega telja með þeim fyrstu eða fyrstan Guðmund heitinn Viborg, fæddan 3. júní 1866 að Svansvík í Reykjafirði vestra. Hann vann á vélaverkstæði í Álftafirði við Ísafjarðardjúp á árunum 1890 til 1894. Þá varð hann yfirvélstjóri á „Solid“ frá Ísafirði og „Ásgeir litla“, eign Ásgeirs Ásgeirssonar kaupmanns á Ísafirði, og enn síðar á gufubátnum „Hvítá“  frá Hvítárvöllum í Borgarfirði, eign baróns, er átti Hvítárvellina um eitt skeið. Mun Guðmundur hafa starfað annað veifið sem vélstjóri fram að árinu 1910, að hann hætti því starfi og stundaði gullsmíði í Reykjavík eftir það.

Næstir Guðmundi Viborg voru starfandi vélstjórar þeir Guðbjartur Guðbjartsson, sem byrjaði 1895, nú starfandi sem 1. vélstjóri á varðskipum ríkisins; Ólafur Jónsson 1897, nú bóndi á Keldum í Mosfellssveit, Pétur heitinn Guðmundsson árið 7898 og Sigurjón Kristjánsson árið 1903, nú starfandi hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Fyrsti vélstjórinn, Guðmundur Viborg, var Vestfirðingur. Hann varð vélstjóri á „Solid“ frá Ísafirði.

Allir þessir menn fengu sína fyrstu þekkingu í meðferð og hirðingu véla á hvalveiðistöðvum, og Norðmenn starfræktu á Vestfjörðum (Önundarfirði, Dýrafirði og víðar). Á þessu stöðvum voru mjög góð verkstæði, sem Norðmenn áttu, einkum þó í Önundarfirði, og störfuðu þar aðeins úrvals smiðir frá Noregi og Svíþjóð.

Þótt hér hafi ekki verið um bóklegt nám að ræða hjá þessum brautryðjendum stéttar vorrar, má óhætt fullyrða, að á þessum verkstæðum lærðu þeir margt handtakið, bæði í smíði og vélgæslu, sem síðar varð kom þeim að góðu haldi við lífsstarf þeirra.

Þegar farið var að kaupa gufuskip til landsins, var fyrst leitað til þessara manna og fluttust þeir allir smám saman til Reykjavíkur og tókust á hendur vélgæslu á þessum skipum og urðu allir mætir vélstjórar.

Í upphafi áttu þessir vélgæslumenn oft erfiða aðstöðu með að fá gert við það sem bilaði í vélum skipanna. Hér var engin höfn og því oft miklum erfiðleikum bundið að komast á milli skips og lands í vondum veðrum. Í Reykjavík var aðeins eitt verkstæði. Það var svo ófullkomið, að það var mjög takmarkað sem hægt var að fá unnið þar. Þeir urðu því að bjarga sér eins og best gekk og treysta á mátt sinn og megin. Þá kom sér vel að hin verklega þekking, sem þeir höfðu höfðu fengið á verkstæðum hvalveiðistöðvanna, og er það út af fyrir sig vísbending um það, hversu mikils virði það er, að afla sér góðrar verklegrar kunnáttu í smíði, áður en þeir verða vélstjórar á eigin ábyrgð.

Um þessar mundur var ekki litið stórum augum á vélgæslustarfið, enda var það alveg nýtt hér á landi og mjög takmarkaður skilningur á nytsemi þess. Álitu margir að alir gætu tekið það að sér, án nokkurs undirbúnings, en reynsla þessara manna, sem lögðu stund á vélgæslu, gerði þeim ljóst, að ef hér ætti að rísa upp ný vélstjórastétt, yrði grundvöllurinn að vera góður, og að hversu góð sem hin verklega þekking er, er bóklega námið engu að síður nauðsynlegt hverju vélstjóraefni.

Á milli þessara vélgæslumanna var mjög góð samvinna og ræddu þeir saman í hvert skipti sem þeir komu af sjónum um starfið og framtíð þess og átti það sinn þátt í því, hversu fljótt þeir fóru að ræða um það sín á milli að námskröfur vélgæslumanna yrðu skipulagðar og þær ákveðnar með landslögum.

Það voru miklir erfiðleikar á því, að fá forráðamenn þjóðarinnar til þess að skilja það, að nauðsynlegt væri að skipuleggja þetta starf, og fólkið gat ekki skilið, að vélgæsla væri svo mikið atriði fyrir framtíð þjóðarinnar, að eyða þyrfti miklum tíma í að tala um það, svo rígbundin var þjóðin við seglin og árarnar. En þessir menn létu það ekkert á sig fá, heldur þjöppuðu þeir sér fastara saman og ákváðu að mynda með sér félag til að ræða mál sín enn betur og sameina alla þá krafta, sem völ var á. Þar var því 20. febrúar 1909, að átta menn, sem stunduðu vélgæslu í Reykjavík, stofnuðu félag, sem þeir nefndu Vélstjórafélagið Eimur. Skömmu siðar var þessu nafni breytt og félagið nefnt Vélstjórafélag Íslands.

Strax eftir stofnun félagsins fóru þessir brautryðjendur að vinna að áhugamálum sínum með miklum dugnaði, enda var það svo, að ekki leið á löngu að þeir fengu marga góða, og merka menn til fylgis við sig, t.d. Svein Björnsson lögfræðing (síðar fyrsta forseta Íslands) og Th. Jensen 1. vélstjóra á  póstskipinu „Laura“, sem hingað sigldi í mörg ár. Jensen lét sér mjög annt um að leiðbeina vélgæslumönnum í starfi þeirra og var ávallt boðinn og búinn til að veita þeim alla þá aðstoð, sem hann mátti í té láta, enda naut hann svo mikilla vinsælda hjá vélgæslumönnum, að þeir gerðu hann að heiðursfélaga í félagi sínu.

Eftir sleitulausa baráttu í tvö ár frá stofnun félagsins, var réttindamálið komið það langt, að samið var uppkast að lögum um vélgæslu á íslenskum skipum og það lagt fyrir Alþingi, sem þá kom saman, og varð það að lögum á því þingi. Þann 11. júlí 1911 hlutu lög þessi staðfestingu konungs. Var þar með af löggjafarvaldinu viðurkenndur sérréttur til handa þeim Íslendingum sem lagt höfðu og leggja mundu eftirleiðis stund á vélfræðinám og vélgæslu.

Þann 1. október 1911 byrjaði fyrsta kennsla í vélfræði hér á landi í deild við Stýrimannaskólann, og fékk húspláss uppi á hanabjálkalofti í því húsi.

Vélstjóraskólinn tók þó til starfa nokkru áður eða 1. október 1915 og fékk húspláss í Iðnskólahúsinu og starfaði þar í tveimur deildum. Skólastjóri var M. E. Jessen.

Til kennslunnar var ráðinn danskur maður, M. E. Jessen.

Brátt kom það i ljós, að þessi kennsla var ekki nægileg fyrir vélstjóraefni. Fór því Vélstjórafélagið að beita sér fyrir því, að fullkomnari kennsla fengist í vélfræði og naut félagið mikils og góðs stuðnings vélfræðikennarans. M. E. Jessen.

Með stofnun Eimskipafélags Íslands var hafinn undirbúningur undir fullkomnari lög um vélgæslu og stofnun Vélstjóraskólans. Árið 1915 voru lög um þetta efni lögð fyrir Alþingi og voru samþykkt á því þingi og hlutu staðfestingar konungs 3. nóvember 1915. Vélstjóraskólinn tók þó til starfa nokkru áður eða 1. október 1915 og fékk húspláss í Iðnskólahúsinu og starfaði þar í tveimur deildum. Skólastjóri var M. E. Jessen.

Þessi lög stóðu síðan lítið breytt í rúm tuttugu ár að lög um atvinnu við siglingar á íslenskum skipum gengu í gildi. Samhliða þessum lögum var ný reglugerð samin fyrir Vélskólann í Reykjavík, en svo er skólinn nefndur í hinum nýjum lögum, og allar kröfur um nám vélstjóraefna mikið auknar.

Vegna hinna hröðu breytinga á sviði mótorskipa og hinnar miklu aukningar á vélakerfi gufuskipanna var haustið 1935 stofnuð deild í rafmagnsfræði við Vélstjóraskólann, til að afla vélstjóraefnum þekkingu í þeim fræðum. Lög frá 1936 gerðu þessa kennslu að skyldunámi fyrir vélstjóra á mótorskipum og stærri gufuskipum.

Kröfur þær sem voru gerðar voru þessar:

Fjögur ár í smiðju, tvo ár í vélskóla, eitt ár í rafmagnsdeild, eitt ár sem kyndari, eða átta ár. Að námi loknu þarf vélstjórinn að sigla minnst í þrjú ár sem undirvélstjóri. Hefur það þá tekið hann ellefu ár að fá full vélstjóraréttindi.

Ég hef hér rakið í stórum dráttum þróun vélstjórastéttarinnar. Þeir örðugleikar, sem íslenska vélstjórastéttin hefur átt við að að stríða, hafa þó ekki verið nefndir en þeir hafa verið margir, eins og gefur að skilja, vegna hinnar öru þróunar atvinnulífsins, einmitt á fyrstu uppvaxtarárum stéttarinnar.

Mynd af starfsmönnum vélsmiðju J.H. Jessen.

Eins og marka má af þessu stutta yfirliti, hefur vélstjórastéttin aldrei vikið frá höfuðmarkmiði stofnendanna; að greiða ungum vélstjóraefnum veg að sérmenntun í teknískum fræðum, og aldrei sleppt því marki, ap vélgæslulöggjöfin væri hinn eiginlegi hyrningarsteinn vélstjórastéttarinnar.

Enda er það svo, að í öll þau 29 ár, sem stéttin hefur starfað, hefur hún orðið að standa í harðri baráttu um það, að kröfurnar til vélstjóraefna væru ekki minnkaðar, því henni er það sjálfri ljósast, hve umfangsmikið og ábyrgðarmikið vélstjórastarfið er, og þegar tillit er tekið til hins vaxandi vinnuhraða, samfara hinni miklu á vélakerfi skipanna á öllum sviðum, krefst þetta starf mikils bóklegs og verklegs náms. Það er þetta sem vélstjórastéttin sér og því sættir hún sig ekki við neina linkind í þessum málum og er reiðubúin til að vinna að því að lærdómur og önnur þekking stéttarinnar vaxi með auknum viðfangsefnum.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: