- Advertisement -

Georg Bjarnfreðarson er ekki til í alvörunni

Ragnar Þór Ingólfsson.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur sent frá sér yfirlýsingu:

„Vegna athugasemda Samtaka Verslunar og Þjónustu (SVÞ) við nýjum auglýsingum VR vil ég benda á eftirfarandi.
Við gerð auglýsinga er þeirri tækni oft beitt, þegar koma þarf á framfæri þungum boðskap, að stilla honum upp í léttar umbúðir.

Dæmi um slíkt eru daglegar skopmyndir dagblaða þar sem dregin er upp skrípamynd af oft alvarlegum atburðum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og nú erum við hjá VR í þeirri sérstöku stöðu að þurfa að útskýra fyrir Samtökum Verslunar og þjónustu að Georg Bjarnfreðarson er ekki alvöru persóna heldur karakter sem skapaður er af Jóni Gnarr. Nokkuð sem við héldum að hvert mannsbarn á Íslandi þekkti til. Einnig er verslunin Georgskjör ekki til í raunveruleikanum né vörulína sem kennd er við Bjarnfreði sem sagt er að þar sé á boðstólum.

Tekið skal sérstaklega fram að framkoma Georgs Bjarnfreðarsonar í Næturvaktinni endurspeglar á engan hátt þann raunveruleika sem starfsfólk bensínstöðva býr við né skilning VR á aðbúnaði starfsfólks almennt, heldur ekki því viðhorfi að starfsmenn geti á einhverjum tímapunkti ráðið yfirmönnum sínum bana eins og raunin varð í Dagvaktinni sem ég aftur ítreka að er uppspuni og leikið sjónvarpsefni.

Í auglýsingum okkar um Georgskjör er dregin upp ýkt mynd af þeim málefnum sem brenna á okkar félagsmönnum og sem brýnt er að vinnuveitendur hafi í lagi. Auglýsingunum er einnig ætlað að vekja athygli á þeim réttindum sem náðst hafa fram vegna baráttu verkalýðshreyfingarinnar.

Við hjá VR höfum fjölda dæma um yfirgengilega og ólöglega framkomu vinnuveitenda gagnvart okkar félagsmönnum og því er undirtónn auglýsinganna ekki úr lausu lofti gripinn, en auðvitað er efninu pakkað inn sem skopi og vonum við sannarlega að meðal félagsmanna SVÞ leynist enginn Georg Bjarnfreðarson.

Einnig eru áhyggjur SVÞ í mótsögn við þeirra eigin áherslur sem er að lengja dagvinnutímabil verslunarfólks þannig að dagvinna gildi frá kl.6 til kl.19 og að dagvinna nái yfir á laugardaga.

Ragnar Þór Ingólfsson
Formaður VR.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: