- Advertisement -

Umboðsmaður fór út fyrir efnið

Umræða „Að þessu sinni lutu spurningarnar meðal annars að því hvenær fundir ráðherrans og lögreglustjórans, sem þó snerust ekki um rannsóknina, hefðu átt sér stað og hvað hefði verið rætt á þessum fundum, fyrst rannsóknin var ekki eitt af umræðuefnunum. Þetta var einkennileg fyrirspurn og í engum takti við upphaflegan tilgang fyrirspurnar umboðsmanns, sem var að ganga úr skugga um hvort ráðherra hefði með einhverjum hætti reynt að hafa afskipti af rannsókn málsins. Það er engu líkara en að umboðsmaður hafi ekki tekið svör ráðherra trúanleg og því haldið áfram að þráspyrja ráðherrann,“ þannig skrifar hæstaréttarlögmaðurinn Haukur Örn Birgisson í Viðskiptablað Morgunblaðsins í dag.

Þar skrifar hann um afskipti umboðsmanns Alþingis að Lekamálinu og segir meðal annars: „…hvort hún hefði boðað lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu á fund til sín til þess að ræða lögreglurannsókn í svokölluðu Lekamáli, sem eins og flestir vita beindist að ráðuneyti hennar. Þá spurði umboðsmaður jafnframt hvort ráðherra hefði átt símtöl við lögreglustjórann um sama efni. Tilefni spurninga umboðsmanns var að kanna hvort ráðherra hefði reynt að hafa áhrif á afdrif rannsóknarinnar en lögbundið hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þar sem upp var komin fjölmiðlaumræða sem gaf til kynna afskipti ráðherra af rannsókn málsins var fyrirspurn umboðsmanns sjálfsögð og eðlileg.“

Hanna Birna Kristjánsdóttir svaraði því til að hún hefði átt fjóra fundi með lögreglustjóranum en enginn þeirra hefði verið boðaður til að ræða lögreglurannsóknina sérstaklega. Þar af voru tveir fundirnir haldnir eftir að rannsókn lögreglu lauk. Þá hafi ráðherrann og lögreglustjórinn rætt nokkrum sinnum saman í síma á því tímabili sem rannsóknin stóð yfir, en aldrei í þeim tilgangi að ræða rannsóknina.

Þetta var einkennileg fyrirspurn

Þú gætir haft áhuga á þessum

Haukur Örn heldur áfram: „Þrátt fyrir að hér lægi fyrir staðfesting lögreglustjóra á því að ráðherra hefði ekki reynt að hlutast til um rannsókn málsins eða hafa áhrif á þá sem henni stýrðu, taldi umboðsmaður Alþingis engu að síður ástæðu til að leggja fyrir ráðherra frekari spurningar um málið. Að þessu sinni lutu spurningarnar meðal annars að því hvenær fundir ráðherrans og lögreglustjórans, sem þó snerust ekki um rannsóknina, hefðu átt sér stað og hvað hefði verið rætt á þessum fundum, fyrst rannsóknin var ekki eitt af umræðuefnunum. Þetta var einkennileg fyrirspurn og í engum takti við upphaflegan tilgang fyrirspurnar umboðsmanns, sem var að ganga úr skugga um hvort ráðherra hefði með einhverjum hætti reynt að hafa afskipti af rannsókn málsins. Það er engu líkara en að umboðsmaður hafi ekki tekið svör ráðherra trúanleg og því haldið áfram að þráspyrja ráðherrann.“

„Af hverju er umboðsmaður Alþingis að spyrja ráðherra um efni funda eða annarra samtala, sem ekkert höfðu með meint afskipti ráðherra af lögreglurannsókn að gera, þ.e. tilefni upphaflegrar fyrirspurnar umboðsmannsins? Verður ekki annað séð en að umboðsmaður Alþingis hafi þarna verið kominn út fyrir efnið og má í raun finna að því að innanríkisráðherra hafi svarað seinna bréfi umboðsmanns með þeim hætti sem hún gerði þann 6. ágúst sl., þar sem ráðherra upplýsti umboðsmanninn um efni fundanna, sem vissulega höfðu ekkert með tilefni upphaflegrar fyrirspurnar umboðsmanns að gera.“

Ber að rannsaka leka

Haukur Örn segir að ekki verði gert lítið úr alvarleika þess þegar upplýsingum um einkamálefni borgara, sem leynt eiga að fara samkvæmt lögum, er lekið úr ráðuneytum til fjölmiðla. „Það sama gildir um leka á öllum upplýsingum sem leynt eiga að fara, hvort sem þær upplýsingar liggja hjá opinberum aðilum eða einkaðilum. Liggi fyrir rökstuddur grunur um slík brot ber að sjálfsögðu að rannsaka þau og ákæra fyrir, ef rannsókn málsins gefur tilefni til þess. Þá ber á sama tíma að ganga úr skugga um að rannsókn slíkra mála geti gengið eðlilega fyrir sig hjá lögreglu. Upphafleg fyrirspurn umboðsmanns Alþingis til innanríkisráðherra var því góðra gjalda verð og engin ástæða til að draga tilgang umboðsmanns í efa. Síðari spurningar hans gefa hins vegar tilefni til að efast um raunverulegt tilefni athugunar hans.

Hvað innanríkisráðherra varðar þá liggur fyrir að þegar rannsókn lögreglu lauk í Lekamálinu þá var málið sent til ríkissaksóknara til ákvörðunar um framhald málsins. Sú ákvörðun ríkissaksóknara hefði getað verið þrenns konar. Í fyrsta lagi að fela lögreglu að rannsaka málið betur, ef saksóknari teldi meinbugi á rannsókninni (t.d. vegna þrýstings ráðherra), í öðru lagi að fella málið niður eða í þriðja lagi að gefa út ákæru í málinu og senda það til dómstóla. Nú liggur fyrir að ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur aðstoðarmanni ráðherra. Í því felst staðfesting þess að ríkissaksóknari taldi enga þörf á frekari rannsókn málsins og telur ríkissaksóknari augljóslega enga þörf á því að bíða eftir niðurstöðum umboðsmanns Alþingis um meint afskipti ráðherra af rannsókninni.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: