- Advertisement -

Væntanlega heitir þetta á fagmáli „siðferðisleg sniðganga“

Hrafn Magnússon skrifar:

Allar líkur eru á því að ef Norski olíusjóðurinn hefði fjárfest í Högum væri fyrirtækið komið á svartan lista.

Norski olíusjóðurinn er hluti af almannatryggingakerfi Norðmanna. Sjóðurinn sem á ensku heitir „The Government Pension Fund“ varðveitir hagnað af sölu olíu sem finnst í landgrunni Noregs. Því er hér um ríkiseign að ræða en ekki einkaframvæmd. Sjóðurinn fjárfestir eingöngu erlendis, mest í hlutabréfum, skuldabréfum og í fasteignum. Um sjóðinn gildir þjóðarsátt líkt og ætti að vera um íslenska lífeyriiskerfið.

Eitt af verkefnum Norska olíusjóðsins er að skoða hvort þau fyrirtæki sem sjóðurinn fjárfesti í fylgi almennum siðferðisreglum og lögum. Sjóðurinn tilkynnir árlega um þau fyrirtæki sem brjóta þessar reglur. Sjóðurinn hefur m.a. sett á svartan lista eða „Black list“ fyrirtæki á borð við Rio Tinto sem m.a. rekur álverið í Straumsvík vegna brota á umhverfismálum, svo og Walmart sem er stórfyrirtæki á smásölumarkaði vegna mannréttindabrota gagnvart starfsfólki sínu.

Mörg önnur fyrirtæki hafa komist á þennan svarta lista Norska olíusjóðsins. Hér á Íslandi er enginn svartur listi til yfir íslensk fyrirtæki sem hafa farið á svig við lögin eða hafa notfært sėr athæfi sem gætu varðað við lög væru þau nægjanlega skýr. Eitt af þessum fyrirtækjum er Hagar sem reka Bónus og Hagkaup en lífeyrissjóðirnir eiga að mestu leyti.

Yfirmenn Hagkaupa stæra sig af því að selja áfengi, sem viðskiptavinur getur fengið afgreitt við afgreiðslukassann. Þetta er gert þrátt fyrir að allar heilbrigðisstéttir hafi ítrekað mótmælt auknu aðgengi að áfengi, svo ekki sé talað um mótmæli Umboðsmanns barna.

Fræg eru ummæli fyrrverandi landlæknis sem sagði „Í guðanna bænum gerið það ekki“. Allar líkur eru á því að ef Norski olíusjóðurinn hefði fjárfest í Högum væri fyrirtækið komið á svartan lista.

Það er sannleikskorn í þeirri gagnrýni sem heyrst hefur að fulltrúar lífeyrissjóðanna í stjórnum fyrirtækja séu passívir og taki ekki oft afstöðu til mála sem hafa áhrif á siðferðisleg orðspor sjóðanna. Væntanlega heitir þetta á fagmáli „siðferðisleg sniðganga.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: