- Advertisement -

Veiðigjöld, tækniþróun og heilsa!

Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM, skrifar; Á undanförnum árum hefur verið aukin krafa í útgerð um aukna hagræðingu og hagnað, hefur það komið fram í fækkun skipa eða með því að fækka í áhöfnum skipa.

Um helgina kom svo enn ein tilkynningin sem var frá Útgerðarfélagi Reykjavíkur um uppsagnir og sölu á frystiskipinu Guðmundi í nesi. Fram kom í tilkynningunni að sjómönnum hjá útgerðinni hafi fækkað um 136 á árinu, vissulega hafa einhverjir fylgt skipinu eða verið ráðnir í nýjar stöður innan fyrirtækisins.

Með væntanlegu veiðigjaldafrumvarpi er verið að leggja hærri gjöld á frystiskipin sem gerir það að verkum að vinnsla færist frá þeim og í land. Í umsögn VM um veiðigjaldafrumvarpið kemur fram að VM vari við því að frumvarpið fari óbreytt í gegn. Þar sem það verður akkur fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi sem hafa útgerð og vinnslu á sömu hendi að selja hráefni til vinnslu á eins lágu verði og hægt er. Tel ég að þetta sé að koma í ljós nú þegar með uppsögnum og sölu frystiskipa. Eitt af stóru vandamálunum sem ekki hefur tekist að klára er að aðskilja veiðar og vinnslu, þegar allt þrennt er á sömu hendi, veiðar, vinnsla og sala afurða þá er verðmyndun hráefnis ekki nægilega gegnsæ og traust ekki nægilegt á milli aðila. Þessu þarf að breyta.

Sú tækniþróun sem hefur verið um borð í nýjustu ísfisktogurunum hefur margfaldað álag á vélstjóra skipanna. Störfin eru að verða yfirgripsmeiri með nýjum og flóknum búnaði á millidekki og í lestum skipanna. Það er mikil pressa og ábyrgð á okkar mönnum að halda öllum búnaði gangandi. Álag hefur því aukist gríðarlegt um borð í þessum skipum fyrir okkar félagsmenn. Útgerðarfyrirtæki hafa ekki komið til móts við þetta álag með fjölgun vélstjóra á þessum skipum þrátt fyrir varnarorð félagsins og félagsmanna VM. Sjáum við merki um aukningu á veikindum eins og kulnun í starfi vegna þessa álags.

Þegar stóru uppsjávarskipin komu þá börðust útgerðarmenn fyrir fækkun vélstjóra þar sem ekki væri einungis hægt að miða við stærð aðalvélar heldur þyrfti að miða við umfang starfsins. þegar að umfangið er mikið en reglugerð um stærð aðalvélar krefst einungis tveggja vélstjóra þá þarf að horfa í hina áttina og taka tillit til álags. Í raun þarf að þarfagreina öll störf um borð í fiskiskipum, ljóst er að stór galli er í kjarasamningum sjómanna við útgerðarmenn, þar sem útgerðin hagnast um hálfan hlut vegna fækkunar hvers og eins. Það er því augljóst að útgerðin reynir að fækka mönnum um borð og hleður vinnu á þá sem fyrir eru.

Ég vil benda útgerðarmönnum á að það er lítið mál að spara í excel. Ljóst er að ekki má gefa afslátt af heilsu manna. Með fækkun mannskaps og auknu álagi þá gefast menn upp á þessum störfum og dýrmæt reynsla og þekking tapast. Skammtímagróði er engum til góðs þegar uppi er staðið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: