- Advertisement -

Vikuskammtur af rannsóknarblaðamennsku

En ég vippaði mér uppúr tilbúinn að skrifa ítarlega grein um sölu ríkissjóðs á 20% af Flugleiðum.

Rakst á þennan fína gamla Vikuskammt eftir Flosa Ólafsson í Þjóðviljanum. Sumt á hreint ótrúlega vel við í dag:

Það er einsog loft sé lævi blandið á íslandi þessa dagana. Menn fara þungbúnir framúr á morgnana og ennþá brúnaþyngri í rúmin á kvöldin. Konur ná ekki sambandi við maka sína eftir venjulegum leiðum, heldur verða að vekja á sér athygli með hurðaskellum og óblíðu viðmóti. Ef samband næst ekki með þessum hætti, þá er beitt fyrir sig síðasta en bitrasta vopninu, gráti og gnístran tanna.

Og hvað er það svo sem veldur þessu einkennilega andrúmslofti í landinu. Hvers vegna er eins og hér búi nú hnípin þjóð í vanda?

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ekki þarf lengi að leita svars. Sala ríkissjóðs á hlutabréfunum í Flugleiðum liggur bókstaflega einsog mara á þjóðinni.

Íslendingar geta ekki um annað hugsað þessa dagana en þetta ægilega stórmál.

Allir, hvort sem þeir geta valdið vettlingi eða ekki, litlir og stórir, leikir og lærðir, konur og karlar, fróðir og fávísir, hafa sitt að segja um þetta mál málanna, já eiginlega allir  nema ég, sem er einsog kúkur á priki, af því að stórfínansar hafa alla tíð verið fyrir mér einsog lokuð bók. Og samt get ég sagt einsog Birkir:

– Ég er ekkert að leyna því að ég er ríkur maður.

Það gerist stundum á sumrin í veðurblíðunni að maður einsog slitnar úr tengslum við samtíðina. Stjómmál, þjóðmál og jafnvel stórmál, sem varða heill og hamingju íslensku þjóðarinnar, verða manni fjarlæg og maður getur illa fest hugann við stefnur og strauma í íslensku menningar- og þjóðlífi.

En það er nú sama, ég læt það ekki vitnast að ég hafi ekki vit á verðbréfasölu Ríkissjóðs, boði Birkis og kaupum Flugleiða, því auðvitað verð ég að skrifa um þetta mál einsog allir aðrir og það af viti og þekkingu.

Ég skal viðurkenna það – en vona að það fari ekki lengra – að ég hef eiginlega ekki hugmynd um hvað málið snýst og á dálítið erfitt um vik, þar sem verið er að rífa Hressingarskálann, en á þeim stað hef ég í hartnær fjóra áratugi innbyrt ótrúlega mikinn fróðleik um menn og málefni líðandi stundar, svo ég verð að leita á önnur mið.

Ég læt ekki deigan síga. Ég skrifa um þetta mál af innblæstri, því einsog allir vita er það nú einu sinni ekki aðalatriði að vita hvað maður er að skrifa um, þegar maður skrifar, heldur hitt að taka þátt í gáfulegum umræðum.

Sem rannsóknárblaðamaður hef ég stundum brugðið á það ráð þegar ég er að koma af fjöllum með merar mínar, að fara í sund í einhverjum af sundstöðum borgarinnar þar sem hægt er að gleðja bæði augað og eyrað í senn og afla skjótfengins fróðleiks í leiðinni.

Með þetta í huga fór ég í laugina í gær og vissi raunar af fenginni reynslu að ég mundi hitta þar fyrir bæði fróða menn og vitra. Og ekki stóð á því.

Þegar ég nálgaðist heita pottinn stóð þar á barminum tryllingslegur rakari, sem ég er búinn að þekkja síðan ég var krakki og var greinilega í miðri ræðu. Þessi rakari hefur alla tíð tekið heill lands og þjóðar mjög nærri sér og má ekki „vamm annarra vita“, einsog stundum er sagt.

–   Þetta er fáheyrt níðingsverk, glæpur, hneyksli, trúnaðarbrot, eiðrof, öskraði rakarinn og náði varla andanum.

– Hér ber vel í veiði, hugsaði ég, því augljóst var að hann var að tala um verðbréfasölu Ríkissjóðs og kaup Flugleiða:

– Það er einsog sumum mönnum leyfist allt, öskraði hann, þegar ég fór framhjá honum til að komast ofaní heitapottinn og þarmeð fékk ég það endanlega staðfest að hann væri að tala um mannleg mistök en ekki Öskjugos eða elda í Lakagígum.

Ofaní heitapottinum var saumakona sem ég kannast við f rá því í gamla daga. Ég tók hana tali með svofelldum orðum:

– Rakarinn er sveimér á háa séinu.

–  Já, svaraði hún. Hann er búinn að vera svona frá því að sambýliskonan hans fór frá honum, bara gekk útaf heimilinu, þegar hann hætti að drekka.

– Og hvað er það þá sem leggst svona þungt á hann núna?, spurði ég.

– Albert, svaraði saumakonan.

Nú kom rakarinn ofaní heitapottinn með miklum fyrirgangi. Þegar hann var allur kominn í kaf nema hausinn, sagði ég, svona einsog til að koma af stað samræðum:

– Sleipur í hraðskák Albert. Gvendur jaki á ekki séns í hann.

Náttúruhamfarirerþað kallað, þegar flóðgáttir himins opnast, fellibyljir skilja eftir sig auðn, eða fjöll rifna og spúa eldi og eimyrju úr iðrum jarðar. Ég hélt snöggvast að rakarinn mundi leysast upp í frumeindir sínar þarna í heitapottinum. Fyrst nötraði hann og tók andköf, síðan hóf hann þrumandi eldmessu af meira offorsi en ég hafði áður gert mér grein fyrir að væri í mannlegu valdi. Ræðustúfurinn var um Albert, verðbréfasölu, Böggvisstaðaættina, knattspyrnu, hundahald, Birki, Millu, mígleka ríkisstjórn, Mafíuna, stjórn Flugleiða, varahluti í flugvélar, glæp og refsingu, fargjaldastríð, hinn sáralitla mun á 63 miljónum og 66 miljónum, vexti af eftirstöðvum, Sigurð Helgason bæði eldri og yngri, majorítet og mínorítet, skussa í flugrekstri, 400 miljón króna ríkisábyrgð og djöfulinn og andskotann í helvíti.

Þegar svo fyrir slysni munnurinn fór niðurfyrir vatnsyfirborðið í heitapottinum, svelgdist rakaranum á og honum varð orðfall.

Þá sagði saumakonan:

– Þegar læknirarnir eru að skjóta leisergeisla í augað á manni verða þeir að passa sig á því að geislinn bókstaflega fari ekki í gegnum höfuðið og inní heiladingulinn. Því  heiladingullinn er nú einu sinni viðkvæmt líffæri.

En ég vippaði mér uppúr tilbúinn að skrifa ítarlega grein um sölu ríkissjóðs á 20% af Flugleiðum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: