- Advertisement -

Peningavald er sterkt, en almannavaldið er sterkara

Almenningur hefur gefið vald sitt eftir og fært það auðvaldinu.

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Peningum fylgir gríðarlegt vald en almannavaldið er öflugra. Þess vegna hefur það verið meginmarkmið auðvaldsins í gagnbyltingu sinni, sem kölluð er nýfrjálshyggja, að draga úr almannavaldi. Það er gert með því að binda hendur þeirra sem fara með almannavald á sama tíma og dregið hefur verið úr öllum hömlum á peningavaldinu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Verkefni hafa verið flutt frá hinu opinbera út á hinn svokallaða markað.

Meginstefna stjórnmála síðustu áratugina hefur verið andóf gegn ríkisvaldi og hinu opinbera en upphafning fyrirtækja- og fjármagnseigenda, sem hefur verið gefið frítt spil. Verkefni hafa verið flutt frá hinu opinbera út á hinn svokallaða markað og ákvarðanir um þróun samfélagsins frá hinum lýðræðislega vettvangi, þar sem hver maður hefur eitt atkvæði, yfir á hinn svokallaða markað, þar sem hver króna hefur eitt atkvæði og þar sem öll völd liggja hjá þröngum hópi eignafólks.

Með þessu valdaafsali almennings hefur vald auðvaldsins margfaldast, ekki bara vegna þess að það hefur auðgast gríðarlega á að öll grunnkerfi samfélagsins hafa verið sveigð að hagsmunum þess og peningavald þess því margfaldast heldur vegna þess að nú fer auðvaldið í raun með ríkisvaldið, almannavaldið, einnig. Almenningur hefur gefið vald sitt eftir og fært það auðvaldinu og þess stjórnmálafólks sem gengur erinda auðvaldsins (sem því miður er meginþorri stjórnmálastéttarinnar).

Við búum í dag við auðræði, samfélagskerfi sem er í reynd alræði auðvaldsins. Réttara nafngift er þjófræði (oligarchy), sem er nafngift á samfélagsgerð þar sem hópur þjófa hefur náð undir sig eignum, auðlindum og öllum stjórntækjum almennings. Þessi staða er ekki afleiðing þess að peningavaldið er sterkt heldur fyrst og fremst vegna þess að almannavaldið er veikt. Almenningur hefur afsalað sér völdum sínum í hendur auðvaldsins.


Almenningur hefur fellt þrjár ríkisstjórnir .

Það er kominn tími til að almenningur endurheimti völd sín og auki þau síðan frá því sem áður var til að fyrirbyggja að auðvaldið geti notað peningavöld sín til að ræna völdum á ný. Völd almennings eru mikil. Það hefur sést margoft frá Hruni. Almenningur hefur fellt þrjár ríkisstjórnir með mótmælum sínum; ríkisstjórn Geirs H. Haarde fyrir glæpi hennar gegn almannahag, ríkisstjórn Sigmundar Davíðs fyrir skattsvik ráðherra og ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar fyrir yfirhylmingu ráðherra Sjálfstæðisflokksins með vinum barnaníðinga. Almenningur þrýsti á forsetann til að vísa Icesave-samningunum í þjóðaratkvæðagreiðslu og hefur reglulega risið upp til varnar börnum sem Útlendingastofnun hefur brotið gegn. Peningavaldið er sterkt en þegar almenningur rís upp verður stjórnmálastéttin að hlýða.

Gallinn við þessi pólitísku afskipti almennings frá Hruni er að þetta eru uppþot, viðbrögð við allra verstu glæpum stjórnmálastéttarinnar, sem annars þjónar fyrst og síðast hagsmunum auðstéttarinnar. Almenningur hefur gripið til neitunarvalds í nokkrum af allra verstu tilfellunum en hefur ekki beitt því markvisst. Og innan þessa kerfis hefur almenningur engin áhrif á stefnu stjórnvalda, ekkert jákvætt vald.

Mikill meirihluti almennings vill nýja stjórnarskrá, er hlynnt uppbyggingu opinberrar heilbrigðisþjónustu, vill að bankarnir verði áfram í eigu ríkisins, vill afnema verðtryggingu og lækka vexti til að draga úr blóðtöku fjármálakerfisins af fjölskyldum og fyrirtækjum, vill að kvótinn sé í eigu almennings og af honum sé innheimt eðlilegt endurgjald, vill að hið opinbera byggi yfir fólk í húsnæðisvanda en ekki sé sigað á það okrurum og bröskurum sem vilja græða á neyð fólks, vill að allir landsmenn hafi tekjur sem duga fyrir framfærslu, vill að hin auðugu borgi hærri skatta en hin fátæku lægri skatta, vill að stjórnmálafólk axli ábyrgð og segi af sér þegar það er uppvíst af skömmum, vill auka skattrannsóknir til að koma í veg fyrir skattsvik auðvaldsins o.s.frv.

Almenningi er ætlað að stjórna uppbyggingu lýðræðislegs samfélags.

Almenningur á Íslandi sker sig að þessu leyti ekki frá almenningi í öðrum löndum. Kannanir um allan okkar heimshluta sýna að almenningur vill endurheimta völd hins lýðræðislega vettvangs og draga úr völdum auðvaldsins; aðlaga samfélagið að hagsmunum hinna mörgu en ekki aðeins að hagsmunum hinna fá og ríku.

Til að ná því að móta samfélagið að þörfum almennings dugar ekki að grípa til uppþota, þegar stjórnvöld, sem þjóna auðvaldinu fyrst og síðast, ganga of langt í einstökum málum. Það dugar ekki að senda bænabréf eða stunda mótmæli á torgum, eins og lýðurinn gerði á miðöldum. Almenningi er ekki ætlað að vera gagnrýnandi stjórnvalda, sem þjóna auðvaldinu. Almenningi er ætlað að stjórna uppbyggingu lýðræðislegs samfélags sem miðast fyrst og síðast að almannahag. Það markmið kallast sósíalismi. Sósíalismi stendur fyrir að almenningur taki þau völd sem hann hefur, en gefi þau ekki frá sér til auðvaldsins og þjóna þess.


Booking.com

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: