- Advertisement -

Brynjar og berar konur

Þeir eru þá ekki margir alvöru bæirnir á Íslandi sé viðmið Brynjar Níelssonar, þingmanns Sjáflstæðisflokksins og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, notuð sem viðmið. „Í öllum betri bæjum eru nektarklúbbar, Björt. Þýðir ekkert að reyna að gera Reykjavík að ráðstefnuborg ef engir eru nektarklúbbar og spilavíti,“ segir hann þegar hann skrifast á við umhverfisráðherra ríkisstjórnarinnar, Björt Ólafsdóttur.

Margir karlar hafa farið á nektarklúbba. Ég er einn þeirra. Það var í Luxemborg. Við vorum nokkrir við drykkju á hótelbar og þegar honum var lokað um nóttina vildum við drekka lengur. Hringdum á leigubíl og báðum um að vera fluttir á bar sem enn væri opinn. Bílstjórinn varð við óskum okkar og ók okkur í miðbæinn. Við gengum inn á barinn, sem þá reyndist vera nektarklúbbur, súlustaður.

Þá hófst ein af vandræðalegustu stundum míns lífs. Þvílík niðurlæging fyrir konurnar, fyrir okkur karlana, fyrir mig. Þetta var hreint ömurlegt. Eftir að hafa berað sig á gólfinu settust konurnar hjá körlum, hér og þar í salnum, og buðu meira. Buðust til að fara með þeim, gegn greiðslu.

Staða „dansranna“ var ömurleg og sama var um  karlana. Hver fær sig til að horfa á nakta konu undir þessum kringumstæðum? Hvað fæst með því? Nei, herra alþingismaður, það þarf ekki svona niðurlægingu til að teljast betri kaupstaður. Meira virði er að vera laus við þannig afbrigðiheit.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: