- Advertisement -

Miðflokkurinn á uppleið en Sjálfstæðisflokkur alls ekki

Sigurjón Magnús Egilsson skrifar:

Kannski er flokkurinn að uppskera aukið fylgi vegna áherslu sinnar í útlendingamálunum. Það sést í næstu könnunum.

Stjórnmál: Eftirtektarverðast í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup er flug Miðflokksins. Flokkurinn nartar í hæla Sjálfstæðisflokksins. Sem eru mikil tíðindi. Miðflokkurinn hélt flokksþing í síðasta mánuði þar sem Snorri Másson var kjörinn varaformaður. Hvort það eitt sé skýringin á auknu fylgi er óvitað, en þykir eðlileg skýring.

Í síðustu könnun Maskínu mældist Viðreisn ofar Sjálfstæðisflokki. Þannig er sýnilega sótt að Sjálfstæðisflokki úr mörgum áttum. Varnirnar virðast veikar. Jafnvel engar. Ný forysta flokksins finnur ekki fjölina sína. Það vantar neistann.

Sjá mátti í Kastljósi gærkvöldsins varaformanninn, Jens Garðar Helgason, sem nánast bugaðan mann. Hafi hann átt sér draum um að geta lyft flokknum úr svartnættinu veit hann nú, að það þarf eitthvað stærra og meira en nýjan formann og nýjan varaformann.

Við sem höfum fylgst með íslenskum stjórnmálum lengi áttum aldrei von á að Sjálfstæðisflokkurinn sykki svo djúpt. Og svo hratt. En svona er þetta.

Þá er það Miðflokkurinn. Hann er hástökkvari að þessu sinni. Tímabundið fylgi eða varanlegt? Kannski er flokkurinn að uppskera aukið fylgi vegna áherslu sinnar í útlendingamálunum. Það sést í næstu könnunum. Þetta getur annars verið rokufylgi og breytingar verði til fyrri stöðu.

Hitt er svo sem óumdeilt að Samfylkingin hefur tekið sér góða stöðu í íslenskum stjórnmálum. Síðan eru þrír flokkar sem takast á um annað sæti; Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Viðreisn.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: