- Advertisement -

Eigum bara fyrir húsaleigu og mat

- því var öðru vísi varið í Póllandi.

Gunnar Smári Egilsson.

Gunnar Smári skrifar: Þegar mamma kom hingað 1995 vann hún láglaunastörf og gat borgað húsaleigu og keypt mat út mánuðinn en samt sent mér, afa og ömmu peninga út til Póllands. Í dag vinnum við bæði fulla vinnu, ég og maðurinn minn, en þegar við höfum borgað húsaleigu og mat eigum við ekkert eftir, getum ekki veitt dóttur okkar neitt,“ segir Magdalena Kwiatkowska sem leigir litla tveggja herbergja íbúða á Skúlagötunni. Hún borgar 190 þúsund krónur á mánuði fyrir íbúðina. Þau sofa öll í sama herberginu, hjónin og Lilla, fimm ára dóttir þeirra. „Lilla fer í skóla næsta haust. Þá verðum við að vera búin að finna nýja íbúð. Lilla verður að fá sérherbergi,“ segir Magdalena.

Lauk háskólaprófi

Magdalena var sjö ára þegar mamma hennar, Lucyna Dybka, fór til Íslands að vinna í fiski. Magda var eftir hjá afa sínum og ömmu í smábæ í suðausturhluta Póllands, Przeworsk. Í fyrstu ætlaði Lucyna að vera ár eða svo, en hún ílengdist, vann fyrst í Stykkishólmi í fiski en flutti svo í bæinn og vann á Droplaugarstöðum og síðar á Landakoti. Hún fór til Póllands í fríum og sendi peninga heim. Eftir stúdentspróf í Przeworsk en fór Magda í enskunám við Háskóla Íslands, kláraði BA. Tók sér síðan árshlé frá námi, en fór svo í þýðingafræði við HÍ og lauk MA-prófi, fyrst útlendinga.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Eftir stúdentspróf í Przeworsk en fór Magda í enskunám við Háskóla Íslands, kláraði BA.

Íslendingar á hærri launum

Magda lýsir Íslandi á þessum tíma sem öðru landi. „Það var auðvelt að vera útlendingur og Pólverji. Þegar ég réð mig í vinnu voru launin mín hækkuð vegna þess að ég var með háskólapróf. Í dag er hámenntað fólk að vinna á börum og veitingahúsum og er á lægsta taxta. Íslendingarnir eru stundum á hærri launum, en eiginlega aldrei útlendingarnir,“ segir Magda. Hún segist hafa búið á stútendagörðunum meðan hún var í námi en leigt íbúð árið sem hún tók sér frí frá námi. Hún fann strax íbúð, sambærilega og hún leigir í dag. Þá kostaði hún undir 90 þúsund krónum.

Hefur breyst

Eftir námið flutti Magda til Varsjá, stofnaði þar fyrirtæki, kynntist manninum sínum, Piotr, og eignaðist dóttur. Piotr vann á útvarps- og sjónvarpsstöðvum og er með háskólamenntun eins og Magda. Þegar Lilla var tveggja ára ákváð fjölskyldan að flytja til Vancouver í Kanada. Þar bjuggu þau í ár, höfðu ekki vegabréfsáritun til að vera lengur. Magda taldi þá skynsamlegast að fara til Íslands. En hún áttaði sig fljótt á að þar hafði eitthvað breyst.

„Við fengum að gista hjá móðursystur minni sem bjó þá í Njarðvík, reiknuðum með að vera þar í viku eða svo, þar til við fengum íbúð,“ segir Magda. „En við vorum meira en tvo mánuði í Njarðvík. Við keyrðum til Reykjavíkur á hverjum degi að leita og skoða íbúðir. Fyrst vildi ég finna íbúð í 101 eða 105, en áttaði mig fljótt á að ég væri heppinn ef ég fengi yfirleitt nokkra íbúð einhvers staðar á höfuðborgarsvæðinu.“

Við pössuðum illa inn í væntingar húseigenda.

Og svo vorum við pólsk

Magda segir að þetta hafi verið undarleg staða. Þau hafi komið til að skoða íbúð, en þá hafi þar verið fimmtán, tuttugu manns í sömu erindagjörðum. „Húseigandinn yfirheyrði okkur; hvar vinnurðu, hvaðan ertu, hvað geturðu borgað mikið fyrir fram og svo framvegis. Við pössuðum illa inn í væntingar húseigenda. Við áttum peninga fyrir fyrirframgreiðslu en vorum nýkomin til landsins og ekki búin að finna vinnu, við gátum ekki byrjað að vinna án þess að búa einhvers staðar. Og svo vorum við pólsk.“

Skoðuðu hundrað íbúðir

Þau voru búin að skoða um hundrað íbúðir og voru við það að gefast upp og flytja aftur til Varsjá þegar kom að íbúðinni á Skúlagötunni. Húseigandinn sagði að þau gætu fengið íbúðina daginn eftir ef þau borguðu strax fyrirframgreiðsluna. Og þau slógu til. Leigan var 190 þúsund krónur á mánuði. Þau höfðu leigt sambærilega íbúð í Varsjá á um 45 þúsund. Og miklu stærri íbúð í Vancouver á rúmar 75 þúsund.

Dýrt að lifa á Íslandi

Magda vinnur á Café Paris og Piotr málar hús og er auk þess dj á kvöldin. Þótt þau séu bæði með háskólapróf vinna þau láglaunastörf. Og af lágum launum þurfa þau að borga svimandi leigu. Þegar þau eru búin að borga húsaleigu og mat eiga þau ekkert eftir. „Þótt launin í Póllandi séu lægri þá er húsaleigan miklu lægri og maturinn miklu ódýrari. Út í Póllandi dugðu launin fyrir meiru en leigu og mat, við gátum veitt okkur og Lillu meira en við getum í dag. Í Kanada var leigan og maturinn líka ódýrari. Það er fáránlega dýrt að lifa á Íslandi. Og eiginlega ekki hægt þegar þú ert á lágum launum.“

Út í Póllandi dugðu launin fyrir meiru en leigu og mat, við gátum veitt okkur og Lillu meira en við getum í dag. Ljósm. Alexandru Tugui

Lilla vill ekki fara

En af hverju fara þau þá ekki aftur úr til Póllands? „Lilla vill ekki fara. Nú talar hún íslensku og vill vera hér,“ segir Magda. „Og það er gott að vera með börn á Íslandi. Það er allt gott við Ísland. Landið er fallegt, hér er gott fólk og samfélagið er öruggt. En launin eru bara svo lág, maturinn dýr og húsaleigan allt of há. Við viljum búa á Íslandi. Við þurfum bara að breyta Íslandi svo það sé hægt.“

Borgað undir taxta

Og Magda situr ekki við orðin tóm. Hún var kosin í stjórn Eflingar síðastliðinn vetur og vinnur að því að auka tengsl félagsins við pólska samfélagið. Og það er ekki vanþörf á. Margir innflytjendur eru hlunnfarnir í vinnu og búa við ömurlegar aðstæður. „Um daginn heyðum við af sex körlum sem bjuggu saman í íbúð og hver þeirra borgaði 100 þúsund krónur fyrir herbergi,“ segir Magda. Og hún segir þetta ekkert einsdæmi, bæði sé innflytjendum oft borgað undir taxta, greitt dagvinnukaup þótt unnið sé á kvöldin og um helgar og látnir leigja rándýrt herbergi, jafnvel bara rúm, af fyrirtækjunum sem þeir vinna hjá.

Eitthvað hefur brostið

„Ég skil ekki hvað gerðist, þetta var ekki svona,“ segir Magda og rifjar upp tímann þegar hún bjó hér upp úr aldamótum. „Það er eins og eitthvað hafi brostið, allt í einu þykir mörgum það bara í lagi að svindla á útlendingum. Þessu verðum við að breyta. Þetta á ekki að vera svona. Þetta má ekki vera svona.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: