- Advertisement -

Ekki nánari skoðun á Braggamálinu

„Flokkur fólksins vill bóka við svar borgarinnar við fyrirspurn um skilamat vegna framkvæmda við Gröndalshús, Braggans, Hlemm, Mathallar og fleiri framúrtökuverkefni,“ bókaði Kolbrún Baldursdóttir í borgarráði.

„Fram kemur að ekki á að gera skilamöt vegna þeirra verkefna sem tilgreind eru í fyrirspurninni. Fulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju ekki? Hvað er verið að fela? Það nægir ekki að vísa einungis til úttekta innri endurskoðunar. Í þessum málum sem voru háalvarleg er mikilvægt að upplýsa um allt sem óskað er eftir að verði upplýst og þar með talið að gera skilamat. Sífellt er talað um að auka gegnsæi og skýrleika en þegar á reynir er því einmitt hafnað. Nú er liðinn talsverður tími síðan braggamálið kom upp og mikilvægt að leggja öll spil á borðið sem tengjast því vandræðamáli og hinum málunum einnig.“

„Ekki er áformað að gera skilamat vegna þeirra verkefna sem tilgreind eru í fyrirspurninni. Varðandi framkvæmdir við Hlemm, Sundhöllina og Nauthólsveg 100 er vísað til úttekta innri endurskoðunar. Þá samþykkti borgarráð á fundi sínum 4. apríl 2019 tillögu borgarstjóra um samræmda framsetningu á upplýsingum um fjárfestingar og framkvæmdir í öllum gögnum borgarinnar með það að markmiði að auka gagnsæi og skýrleika og að auðvelda samanburð og eftirlit. Unnið er að því að aðlaga gögn, vinnuferla og viðeigandi kerfi til að koma tillögunni til framkvæmda,“ sagði hins vegar í bókun meirihlutans.

Ár er liðið frá því að skýrsla innri endurskoðanda lá fyrir og með ólíkindum að ekki eigi að fara eftir henni

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu:

„Óskiljanlegt er ef Reykjavíkurborg ætlar ekki að fara eftir sínum eigin verklagsreglum, sérstaklega í ljósi skýrslu innri endurskoðanda frá mars 2019. Þar segir m.a. „Að lokinni nýframkvæmd og úttekt á henni skal fara fram skilamat þar sem fram kemur hvernig til hefur tekist miðað við áætlun ásamt samanburði við hliðstæð verkefni sé þess kostur. Skilamat skal liggja fyrir eigi síðar en 6 mánuðum frá því að mannvirkið er tekið í notkun. Ekki liggja enn fyrir skilamöt vegna þeirra verkframkvæmda sem hér eru til skoðunar þó að nú séu liðnir meira en 6 mánuðir frá verklokum þriggja þeirra. Innri endurskoðun skoðaði þrjú nýleg skilamöt vegna annarra nýframkvæmda. Skilamöt, skilagreinar voru ýmist unnin af umhverfis- og skipulagssviði, verkefnisstjóra eða eftirlitsaðila (verkfræðistofu) og hafa að geyma samantekt á mikilvægum upplýsingum um tilteknar verkframkvæmdir.“ Þá liggur fyrir í skýrslunni að umhverfis- og skipulagssvið myndi ráða sérfræðing til að annast umsjón með gerð skilamata en í skýrslunni segir „USK mun óska heimildar að ráðinn verði sérfræðingur í gerð og yfirferð kostnaðaráætlana og umsjón með gerð skilamata og skilagreina.“ Ár er liðið frá því að skýrsla innri endurskoðanda lá fyrir og með ólíkindum að ekki eigi að fara eftir henni.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: