Sanna Magdalena skrifaði:
Aðalfundur Sósíalistaflokksins er á morgun, laugardaginn 24. maí. Ég býð mig fram til áframhaldandi starfa fyrir flokkinn og sendi inn eftirfarandi kynningu á mér.
Kæru félagar, ég heiti Sanna Magdalena og er dóttir móður minnar Mörtu. Ég trúi því að sósíalisminn sé svarið gegn efnahagslegu óréttlæti og eyðileggingu þess auðvaldsskipulags sem við búum við. Lifuð reynsla mín af barnafátækt og afleiðingum þess er það sem knýr mig áfram alla daga í störfum fyrir hreyfinguna. Ekkert barn og engin manneskja á að lifa við húsnæðisóöryggi, skort og óvissu. Við getum lifað í samfélagi samkenndar, samúðar og samheldni. Til þess þarf sósíalisma. Á síðustu átta árum hef ég tekið þátt í hreyfingunni sem hefur náð ýmsum áfangasigrum en þó er langt í land til að skapa hér réttlátt samfélag. Við verðum að standa saman í þeirri vegferð sem er framundan og ná til fleiri, því enginn á að þurfa að ströggla einn. Því sterkari heild, því betri árangri náum við. Fjöldinn brýtur alla hlekki. Kæri félagi, áframhald baráttunnar verður að byggja á röddum og reynslu verkafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Baráttan fyrir réttlæti er nauðsynleg fyrir þau sem treysta á hreyfinguna til að ná fram raunverulegum breytingum til hins betra, fyrir okkur, samfélagið í heild og móður jörð. Ef þú deilir þessari sýn þá óska ég eftir stuðningi þínum til að leiða flokkinn pólitískt og til setu í kosningastjórn Sósíalistaflokks Íslands. Ég bið þig um að koma með í vegferðina fyrir efnahagslegu réttlæti og raunverulegu samfélagi.