- Advertisement -

Er alþingi ábyrgðarlaust af eigin ákvörðunum?

Skoðun Umræðan um fjárlög og framúrkeyrslu einstakra stofnanna fer hátt og stór orð hafa fallið. Ábyrgð forstöðumanna stofnanna er mikil. Og vonandi eru allir sammála um að þeim beri að virða lög, fara að lögum og engar refjar með það.

Alþingi setur lög, alþingi setur stofnunum lög. Alþingi hefur fjárveitingavaldið og það ákveður hversu mikið fer til ákveðinna verka, til hverrar stofnunar og svo framvegis. Að sama skapi ákvarðar alþingi hvaða verk eða verkefni hver stofnun sinnir. Stundum eru lög frá alþingi afdráttarlaus. Sumar stofnanir hafa lögbundin hlutverk, þær eiga að gera eitt og annað, það er einfaldlega bundið í lög, lög sem Alþingi setur.

Svo þegar það gerist, aftur og aftur, að samræmi er ekki þarna á milli. Það er að fjárveitingin sem alþingi ákvarðar dugar hvergi til að stofnun sé tækt að sinna þeim lögbundnum verkum, sem þetta sama alþingi, ákvað að viðkomandi stofnun eigi að sinna, þá er spurt, hvað á að gera? Hvor lögin á forstöðumaður viðkomandi stofnunar að brjóta, fjárlögin eða lögin sem ætla honum að sinna lögbundnum verkum? Þarna hlýtur að vera úr vöndu að ráða.

Ekki síst þar sem ákvarðanir alþingis gengu ekki upp. Það er ekki samræmi þarna á milli. Því er frekar ódýrt að þeir þingmenn, sem kannski ráða mestu um þá stöðu sem kemur upp aftur og aftur, skuli hrópa á forstöðumennina, fólk sem hafði úr tveimur vondum kostum að ráða, en telur sjálft sig ábyrgðarlaust. Það er hreint út sagt galið ef alþingi telur sig óábyrgt af eigin ákvörðunum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og þegar þessi staða kemur upp er eðlilegt að spyrja, hver á að víkja? Sá sem setti lög og svo önnur lög sem saman ganga ekki upp, eða sá sem er ætlað framfylgja lögunum en er það með öllu ótækt? Ég spyr.

Svo er annað mál og minna. Þeir forstöðumenn ríkisstofnana sem virða ekki fjárlög án þess að færa fyrir því gild rök um að annars hefðu önnur lög verið brotin, verða að taka pokann sinn. Eflaust eru þeir nokkrir.

En þeir einstaklingar duga hvergi til að þingmenn tali einsog þeir gera, einkum þegar einskis samræmis gætir í þeirra ákvörðunum. Alþingi er valdastofnun og öll verðum við að vera sammála um ábyrgð alþingis.

Sigurjón Magnús Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: