- Advertisement -

Hagræða skoðunum eftir hagsmunum

Þar eru alvöru andlegir loftfimleikar á ferð.

Ragnar Önundarson skrifar:

Árið er 2020. Forsvarsmenn ferðaþjónustunnar, sem er orðin stærsta atvinnugrein landsins og sú sem aflar mests gjaldeyris „furða sig á aðgerðaleysi stjórnvalda“ og saka þau um „doða“ og að „það heyrist hvorki hósti né stuna“ segir Styrmir Þór Bragason. Minna verður á að það er grundvallaratriði markaðsbúskapar að framtaksfólk hættir sínu eigin fé í von um hagnað. Sé lagt upp með lítið eigið fé m.v. umsvif magnast áhættan. Til að þola sveiflur og óvænt áföll er annars staðar haft „borð fyrir báru“.

Hrönn Greipsdóttir er á svipuðum slóðum: „Mörg fyrirtæki séu í þröngri lausafjárstöðu og aðgangur að fjármagni geti skilið milli feigs og ófeigs í ár. Með færri fyrirframgreiðslum vegna faraldursins verði erfiðara að fleyta sér gegnum lágönnina.“ Er það virkilega svo að fyrirtækin í þessari nýju undirstöðugrein séu rekin á fyrirframgreiðslum og kannski fengnum gjaldfresti birgja, sem venjulega er fylgifiskur slíks ? Er það virkilega svo að þeir sem standa í ferðaþjónustu í hagnaðarskyni eigi von á að sameiginlegur sjóður allra annarra hlaupi undir bagga þegar á móti blæs ?

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég dáist samt að einu, hæfileika þessa fólks til að hagræða skoðunum sínum eftir hagsmunum sínum. Þar eru alvöru andlegir loftfimleikar á ferð.

Forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag:

VIÐSKIPTI. Af bókanir og samdráttur vegna kórónaveirunnar vofa yfir ferðaþjónustunni sem var í þröngri stöðu fyrir. Greinin hefur orðið fyrir þungum höggum og stjórnendur furða sig á aðgerðaleysi stjórnvalda. „Það hefur verið doði hjá stjórnvöldum gagnvart ferðaþjónustu þrátt fyrir að hún sé langstærsta atvinnugrein landsins, skapi langmest af gjaldeyristekjum þjóðarinnar og veiti gríðarlegum fjölda fólks vinnu. Ferðaþjónustan er samfélagslega mikilvæg atvinnugrein en það heyrist hvorki hósti né stuna frá stjórnvöldum þegar kreppir að,“ segir Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adventures. Styrmir bendir á að nýtingarhlutfall fastafjármuna, einn helsti rekstrarmælikvarðinn í ferðaþjónustu, sé ekki nema um 25 prósent hjá mörgum fyrirtækjum. „Það er alveg ljóst að ef flugfélag væri að keyra á 25 prósenta nýtingarhlutfalli væri það ekki lengi í rekstri.“

„Ástandið minnir óneitanlega á hvernig þetta var eftir hryðjuverkaárásirnar kenndar við 11. september þegar við stóðum frammi fyrir algjörri óvissu,“ segir Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar. Mörg fyrirtæki séu í þröngri lausafjárstöðu og aðgangur að fjármagni geti skilið milli feigs og ófeigs í ár. Með færri fyrirframgreiðslum vegna faraldursins verði erfiðara að fleyta sér gegnum lágönnina.

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, bendir á að stjórnvöld hefðu getað gripið til mótvægisaðgerða eftir gjaldþrot WOW, eins og að setja aukið fjármagn í markaðsstarf, lækka opinberar álögur eða veita afslætti af lendingargjöldum hjá Isavia til að hvetja til aukins flugframboðs. „Ef viðbrögðin hefðu verið þau að setja strax meiri pening í markaðsstarf og búa til hvata fyrir flugfélög til að koma til landsins hefðum við örugglega ekki séð jafn mikinn samdrátt,“ segir Björn.

Ingibjörg Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hótel Sögu, segir að síðasta sumar hafi verið rólegt í ferðaþjónustunni sem megi „alls ekki við slöku sumri í ár“.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: