- Advertisement -

Hversu lengi getur Birgir þingforseti setið á fyrri Lindarhvolsskýrslunni?

Frá árinu 2018 og allar götur síðan hefur hvílt leynd yfir þessari greinargerð.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

„Frá árinu 2018 hefur legið fyrir greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol. Frá árinu 2018 og allar götur síðan hefur hvílt leynd yfir þessari greinargerð. Nú berast mér þær fregnir að enn og aftur hafi forseti ákveðið að fresta því að aflétta leynd af þessari greinargerð um eina viku í viðbót,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir á þingi í dag.

„Við vitum svo sem ekki hversu margar vikur í viðbót það verða miðað við það sem á undan er gengið. Í síðustu viku bárust okkur fréttir af því að settur ríkisendurskoðandi, Sigurður Þórðarson, sé mjög ósáttur við að Alþingi skuli ekki enn hafa afgreitt greinargerð hans og dragist það enn frekar telji hann rétt að skoða hvernig hann geti brugðist við ávirðingum í sinn garð. Þetta bréf sendi settur ríkisendurskoðandi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í nóvember sl. og er nú farið að dragast allverulega að bregðast við því bréfi,“ sagði hún og að lokum þetta.

Ég vil spyrja: Hvað veldur þessum endalausu töfum hæstvirts forseta? Er ekki kominn tími til að þessi greinargerð fái að líta dagsins ljós?“

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Mér þykir sérkennilegt að lesa um það í fjölmiðlum að það sé eitthvað annað sem birtist í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar en það sem kom síðan fram í endanlegri skýrslu. Við erum einnig farin að lesa það í fjölmiðlum að farið sé að vitna í þessa tilteknu skýrslu í dómsölum og því er m.a. haldið fram að ríkið hafi orðið af jafnvel hundruðum milljóna vegna sölu út úr Lindarhvoli, að því er virðist til aðila sem tengdust og sátu beggja vegna borðs. Það er auðvitað rannsóknarefni að slíkt skuli eiga sér stað, að stjórnarmenn í Lindarhvoli hafi síðan setið í fyrirtækjum sem var verið að selja og hafi þar af leiðandi getað komið upplýsingum á framfæri. Ég held því að það sé nauðsynlegt að þetta komi fram en einnig að hugsanlega þurfi rannsóknarnefnd til að skoða þetta,“ sagði Guðbrandur Einarsson.

„Forseti vill geta þess, eins og áður hefur verið getið, að spurningin um afhendingu greinargerðar setts ríkisendurskoðanda frá 2018 hefur verið til umfjöllunar í forsætisnefnd og er þar enn. Þar takast á, eins og fram hefur komið, tvenns konar sjónarmið, annaðhvort að við eigi almenn ákvæði upplýsingalaga eða hins vegar sérreglur í lögum um Ríkisendurskoðun, sem fela það í sér að Ríkisendurskoðun getur ákvarðað að gögn sem unnin eru meðan á meðferð máls hjá Ríkisendurskoðun stendur verði ekki gerð opinber,“ sagði þingforsetinn Birgir Ármannsson.

„Það hefur verið afstaða ríkisendurskoðanda, bæði þess sem nú situr og þess sem á undan honum sat.

Þess ber líka að geta, eins og hv. þingmenn vita, að skýrsla Ríkisendurskoðunar sem lögum samkvæmt var skilað til Alþingis vorið 2020 var tekin fyrir í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lögum samkvæmt á síðasta kjörtímabili. Þeirri athugun var ekki lokið en stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd getur tekið málið upp aftur, kjósi hún að gera það, og þar með farið yfir þau álitamál sem uppi kunna að vera um þessa tilteknu starfsemi.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: