- Advertisement -

LEIÐ EINS OG MJÓLKURKÚ

- AÐ FYRRITÆKIÐ ÆTLAÐI AÐ NÁ ÖLLU AF MÉR

Gunnar Smári skrifar: „Það var ekki góð tilfinning að greiða fyrirtækinu til baka meira en helminginn af útborguðum launum í húsaleigu. Mér leið eins og mjólkurkú á bás, að verið væri að mjólka mig, eins og fyrirtækið ætlaði að ná öllu af mér,“ segir Birgit Kositzke, sem nú leigir gám við hús vinkonu sinnar á Eyrarbakka. Hún er að rifja upp tímann þegar hún vann í siliconverksmiðjunni á Bakka við Húsavík og leigði hús hjá sama fyrirtæki. Þetta fyrirkomulag, að launafólk leigi húsnæði af fyrirtækinu sem það vinnur hjá, er að verða æ algengara, einkum úti á landi. „Mér fannst gaman að vinna með stórar vélar og kunni vel við samstarfsfólk mitt. Ég bara gat ekki rétt Bakka meira en helminginn af útborguðum launum. Það er eitthvað óeðlilegt við það, þetta á ekki að vera svona,“ segir Birgit.

Birgit er frá Þýskalandi, austurhlutanum, ólst upp í sveit austan við Berlín. „Ég er sveitastúlka í hjarta mínu,“ segir hún. Hún hefur búið á Íslandi frá því skömmu fyrir Hrun, kom hingað fyrst sem túristi í hestaferð, kynntist fólki og ákvað að setjast hér að. Fyrstu árin vann hún í sveit og síðar á sjúkrahúsi og í ýmsum störfum öðrum. Hana dreymdi um að verða bóndi og lét verða að því. Byrjaði kanínurækt við Hvammstanga og byggði þar upp lífrænt kanínubú. Það gekk svona og svona, Íslendingar eru ekki vanir að borða kanínur og voru seinir að taka við sér. Of seinir fyrir fjárhag Birgit. „Það er erfitt að vera bóndi, mikil vinna og lítill peningur,“ segir hún. „Þetta er gott líf og mikil rómantík, skemmtilegt hobbí. En sem atvinna er þetta að deyja út. Það lifir enginn af landbúnaði nema þau sem reka stór tæknivædd bú. En þessi lífsstíll smábóndans er líklega að deyja út, að reka lítið náttúrulegt bú og lifa sjálfstæðu lífi.“

Að vinna fyrir skuldum

Birgit var búin með sparnaðinn sinn 2016, varð að bregða búi og fara að vinna fyrir skuldum. Hún tók stórt skref, fór úr sveitinni yfir í stóriðju og réð sig á Bakka við Húsavík. „Sem var fínt,“ segir Birgit. „Ég kann vel við það að vinna við stórar vélar. Ég veit ekki af hverju, en mér finnst gaman að stýra einhverju kraftmiklu og stóru.“

Birgit nefnir líka almennt viðhorf fyrirtækisins til starfsmanna, að fyrirtæki hafi komið illa fram við fólkið, verið ósveigjanlegt í öllu og auðvitað borgað eins lág laun og það komst upp með. Þetta er ekki aðeins upplifun Birgit. Undanfarna daga hafa verið sagðar fréttir af mikilli óánægju starfsfólksins á Bakka og mikilli starfsmannaveltu. Fólki líkar illa og hættir við fyrsta tækifæri. Mynd: Efla

En þótt vinnan væri áhugaverð var margt annað erfitt. „Það er eitthvað að breytast á Íslandi,“ segir Birgit. „Ég varð ekki var við það fyrst þegar ég kom hingað, en þarna á Húsavík fannst mér eins og verið væri að pressa hverja krónu úr útlendingunum sem unnu á Bakka. Ég heyrði frá vinnufélögunum að þeir væru sumir að borga 120 þúsund krónur á mánuði fyrir eitt lítið herbergi. Það er fáránlega dýrt Húsavík, þar sem leigan ætti að vera miklu lægri en í Reykjavík.“

Birgit nefnir líka almennt viðhorf fyrirtækisins til starfsmanna, að fyrirtæki hafi komið illa fram við fólkið, verið ósveigjanlegt í öllu og auðvitað borgað eins lág laun og það komst upp með. Þetta er ekki aðeins upplifun Birgit. Undanfarna daga hafa verið sagðar fréttir af mikilli óánægju starfsfólksins á Bakka og mikilli starfsmannaveltu. Fólki líkar illa og hættir við fyrsta tækifæri.

Ég vann og vann

Þegar Birgit byrjaði á Bakka leigði hún fyrst á bóndabæ í Kelduhverfi og keyrði fimmtíu kílómetra í vinnuna. Og það var erfitt um miðjan vetur, oft snjóþungt. En hún fann ekkert húsnæði á Húsavík sem hún réð við. Um vorið gafst hún upp á akstrinum og leigði íbúð í hverfi húsa á Húsavík sem Bakki á og leigir starfsfólki sínu. Íbúðin var ný og ágæt. En nokkuð dýr, kostaði 162.500 krónur á mánuði. Við það bættist síðan rafmagn og hiti. Og þegar Birgit fékk útborgað fyrir mikla vinnu á þrískiptum vöktum fór meira en helmingurinn af launum hennar aftur til Bakka.
„Ég hafði ráðið mig á Bakka til að borga skuldir, en ég sá fljótt að það myndi ekki takast með þessu fyrirkomulagi,“ segir Birgit. „Ég vann og vann og Bakki borgaði mér en svo tók Bakki meira en helmingnum af laununum mínum til baka. Mér leið eins og mjólkurkú á bás, að verið væri að mjólka mig. Ég gat ekki látið bjóða mér þetta og sagði upp.“

„Allt getur gerst. Kannski kaupi ég húsbíl til að lenda ekki aftur í húsnæðisvandræðum. Kannski flyt ég aftur heim til Þýskalands.“

Kannski kaupi ég húsbíl

Nú leigir Birgit gám sem er við hús vinkonu sinnar. Hún réð sig til álvers Rio Tinto í Straumsvík, vinnur enn við stórar vélar. Og fyrir skömmu seldi hún loksins hús sem hún átti á Hvammstanga og er skyndilega laus við skuldirnar vegna kanínuræktarinnar. Sem er mikill léttir. „Nú byrja nýir spennandi tímar,“ segir Birgit. „Allt getur gerst. Kannski kaupi ég húsbíl til að lenda ekki aftur í húsnæðisvandræðum. Kannski flyt ég aftur heim til Þýskalands.“

Birgit talar góða íslensku og er auðsjáanlega hrifin af landinu. Hún segir að samfélagið sem hún kynntist fyrir Hrun hafi minnt sig á heimahagana. Birgit ólst upp í Austur-Þýskalandi þar sem fólk átti ekki mikið en bjó í samfélagi þar sem var mikil persónuleg tengsl og nánd. Eftir hrun kommúnismans og sameiningu Þýskalands urðu miklar samfélagsbreytingar í austurhlutanum, margt batnaði en breytingarnar höfðu líka neikvæða áhrif. Það komu meiri vörur og meiri peningur en tengsl milli fólks minnkuðu. „Mér finnst Ísland líka vera að breytast,“ segir Birgit. „Og ekki á góðan máta. Ég kann ekki við hvernig komið er fram við fólk. Það er eins og fyrirtækin séu að reyna að ná sem mestu út úr fólki og kunni sér engin mörk, beri ekki virðingu fyrir fólki.“

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: