- Advertisement -

Má ekki þóknast freku körlunum

Kannski er ekkert að því að bæta höfnina á Akranesi. En að gera það til þóknast frekjudollunum í HB Granda er ómögulegt með öllu. Grandafólkið og hótun SFS um að fyrirtæki fari með fiskverkunina úr landi er fínasta innlegg í áframhaldandi umræðu um kvótakerfið, eignarhaldið og hvernig þjóðin vill að farið sé með auðlindina.
Þau sem mest og harðast berjast fyrir breytingum hafa í annan tíma ekki fengið eins góð vopn í sinni baráttu en þetta tvennt; hótun Granda gagnvart Skagamönnum og hótun samtakanna um að fara með fiskvinnsluna úr landi. Með hótununum hefur umræðan verið sett í annað og skýrara samhengi en áður.
Eigendur auðlindarinnar mega ekki og geta ekki látið hóta sér. Það er með öllu óþolandi. Faxaflóahafnir eru opinbert fyrirtæki og verður að færa betri rök fyrir milljarða framkvæmdum á Akranesi en þau að ætlunin sé að sleikja fíluna úr Vilhjálmi Vilhjálmssyni forstjóra og Kristjáni Loftssyni stjórnarformanni HB Granda.
Skagamenn hafa áður verið í fréttum vegna kvóta, það er þegar þeir færðu nær allar veiðiheimildir frá Sandgerði til Akraness, gegn vilyrðum um annað. Sjá fyrri skrif Miðjunnar um það mál.
Nú beinast spjótin að Akurnesingum. Þeir eiga ekki að berjast einir, ekki frekar en Flateyringar, Þingeyringar, Húsvíkingar, Breiðdælingar, Stöðfirðingar, Djúpavogsbúar, Þorlákshafnarbúar og allir hinir. Baráttan er okkar allra.
Björt Ólafsdóttir sagði, vegna United Silicon; nú er nóg komið. Það er líka komið nóg ferkjunum á Norðurgarði.

Sigurjón M. Egilsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: