- Advertisement -

RÍKISSTJÓRNINNI TÓKST AÐ VERJA NÝFRJÁLSHYGGJUNA

Frá sjónarhóli ríkisstjórnarinnar voru kjarasamningarnir varnarsigur. En hvað var hún að verja?

Gunnar Smári skrfiar:

Gunnar Smári.

Mér finnst samningur verkalýðshreyfingarinnar við samtök fyrirtækjaeigenda sleppa ágætlega. Krafan var 425 þús. kr. en niðurstaðan varð 390 þús. kr. Þegar krafan var sett fram þótti hún svo djörf að ýmsir erindrekar hinna ríku misstu vitið og hafa ekki fundið það enn. Síðastliðið sumar virtist sem krafan væri að formast um 400 þús. kr. Svo 390 þús. kr. er í versta falli ásættanleg lending. Það sem dregur þessa samninga niður er framlag ríkisstjórnarinnar. Hún stóð frammi fyrir tækifæri; einskonar Breiðholtssamningum, stóru framlagi til að vega upp óþolandi óréttlæti samfélagsins. En ríkisstjórnin kaus að gera eins lítið og mögulegt var.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Eitthvað í skattamálum en of lítið. Kaupmáttaraukning lægstu launa koma að 4/5 frá fyrirtækjum vegna launahækkana en aðeins að 1/5 í gegnum skattaleiðréttingu, þrátt fyrir svívirðilegar skattahækkanir á lægstu laun og meðallaun á nýfrjálshyggjuárunum. Nýfrjálshyggjuliðið í ríkisstjórninni hlýtur að hafa skotið tappa úr kampavíni í gær; þeim tókst að verja skattahækkanir á almenning á liðnum árum og stórkostlegar skattalækkanir til hinna ríku.

Eitthvað í húsnæðismálum en of lítið, aðallega aðgerðir til að örva markaðinn, þann sama og hefur leitt heimskustu húsnæðisstefnu síðustu alda; að byggja þúsund blokkaríbúðir fyrir stórefnað fólk en ekki eina íbúð fyrir fólk í húsnæðisvanda. Og hvar eru aðgerðirnar til að rétta hlut leigjenda, fólksins sem hefur lifað meiri efnahagslegar hörmungar undir markaðsvæddu helvíti leigumarkaðarins en millistéttin gegn í gegnum í hruninu?

Eitthvað í vaxtamálum en of lítið. Það var þrengt að verðtryggingu en hún ekki afnumin. Til að þessi aðgerð leiði til vaxtalækkunar er hætt við að ungt og tekjulágt fólk þurfi að þjást á leigumarkaði áfram, að það leiði til minnkandi eftirspurnar eftir íbúðarhúsnæði, það til verðlækkunar og það síðan til vaxtalækkunar. Af hverju var vaxtaákvörðunarvaldið ekki einfaldlega tekið af Seðlabankanum. Hann er fyrir löngu búinn að sanna að honum er ekki treystandi fyrir því.

Og svo framvegis. Frá sjónarhóli ríkisstjórnarinnar voru kjarasamningarnir varnarsigur. En hvað var hún að verja? Skattkerfi nýfrjálshyggjunnar sem færði hinum ríku um 150 milljarða á ári? Markaðsvæðingu húsnæðiskerfisins og ofurvaxtastefnuna?

Fólk sem fagnar ríkisstjórninni á þessum tímamótum er í raun að fagna framlengingu tímabils nýfrjálshyggjunnar um nokkur ár. Verkefni næstu ára hlýtur að verða að fella það skrímsl og hrekja talsmenn þess út úr stjórnarráðinu. Með varðliða nýfrjálshyggjunnar í ríkisstjórn verður ekki hægt að byggja hér upp samfélag sem mótað er af hagsmunum og væntingum almennings.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: