- Advertisement -

Skattsvikarar sleppa við fangelsi

„Það rýrir fælingarmátt refsingarinnar svo um munar að „vinna“ af sér hundraða milljóna skattabrot með samfélagsþjónustu.“

Bjarkey Ólsen Gunnarsdóttir.

Bjarkey Ólsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG og formaður fjárlaganefndar, skrifaði forvitnilega grein í Fréttablaðið í dag. Þar er merkilega frétt að finna:

„Í mínum huga er ljóst að endurskoða þarf skattaumhverfi hér á landi í mjög stóru samhengi, allt frá skattaundanskotum, lagagloppum eða fullnustu refsinga en úttekt Ríkisendurskoðunar leiðir í ljós að afplánun refsinga er ítrekað tekin út með vararefsingum svo sem samfélagsþjónustu. Það rýrir fælingarmátt refsingarinnar svo um munar að „vinna“ af sér hundraða milljóna skattabrot með samfélagsþjónustu, ég hef því lagt fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra þar sem ég óska frekari útlistana á þessu fyrirkomulagi.“

Greinina byrjar Bjarkey svona: „Nú fyrir skemmstu kom fram stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um innheimtu dómsekta. Skýrslan sýnir svart á hvítu að innheimta sekta, meðal annars vegna skattalagabrota á Íslandi er langt frá því að standast væntingar og er hlutfall innheimtra dómssekta mun lægra hér á landi en tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Þetta er engin nýlunda en stofnunin hefur bent á þetta frá árinu 2009.“

Skattsvik:

„71% rekstraraðila skilar engum tekjuskatti, um 55% rekstraraðila greiða engin laun og um 42% greiða hvorki tekjuskatt né tryggingargjald.“

Bjarkey Ólsen Gunnarsdóttir.

Frá 2009 og ekkert verið gert. Ja, hérna.

„Þetta ber að líta alvarlegum augum,“ skrifar Bjarkey formaður fjárlaganefndar.

„Skattar eru undirstaða allra útgjalda hins opinbera, án þeirra getum við ekki viðhaldið þeim innviðum sem við svo mjög treystum á í daglegu lífi. Innheimta dómssekta er mikilvægur liður í öflugu skattkerfi en sömuleiðis þurfum við að huga að því að skattkerfið í heild sinni sé þannig úr garði gert að það standi undir hlutverki sínu sem tekjuöflunartæki ríkissjóðs. Þar er víða pottur brotinn og lagði ég m.a. fram frumvarp fyrr í vetur sem ætlað er að stemma stigu við ákveðnum annmörkum á reiknuðu endurgjaldi, en þar beini ég sjónum mínum sérstaklega að einstaklingum sem hafa umsjón og umsýslu með fjárfestingum í eigin félögum, félögum sem talist geta óvirk í skattalegu tilliti, að því leyti að þau greiða hvorki tekjuskatt né tryggingargjald en það er mikilvægt að öll starfsemi standi skil af sköttum og skyldum. Þetta er jafnframt liður í umræðunni um ofnotkun á einkahlutafélögum, en um 18.000 slík félög eru skráð í skattagrunnskrá á sama tíma og rannsóknir sýna að 71% rekstraraðila skilar engum tekjuskatti, um 55% rekstraraðila greiða engin laun og um 42% greiða hvorki tekjuskatt né tryggingargjald.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: