- Advertisement -

Skipun dagsins; misskipting og ósanngirni

Mennirnir á Markaðnum sem skrifa núna ljótu orðin sín í litla blaðið sitt um að flugfreyjur séu ekki í tengslum við raunveruleikann…

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Ég ákvað í gær að fylgjast með hinni svokölluðu orðræðu fjölmiðla vegna baráttu Flugfreyjufélagsins fyrir því að félagsfólk þurfi ekki að þola launalækkun. Ég ætla að gera það af því að ég styð auðvitað flugfreyjur eins og annað fólk á vinnumarkaði fyrir því að fá sanngjörn og eðlileg laun. Líka vegna þess að ef það verður keyrt í gegn að „aðkoma fjárfesta“ á tímum Covid sé háð því að vinnandi fólk í algjörlega ólýðræðislega reknum fyrirtækjum taki á sig launalækkanir erum við komin á hræðilegan stað. Við megum ekki og getum ekki samþykkt að ekkert sé sjálfsagðara, í raun náttúrulögmál, en að misskipting og ósanngirni sé skipun dagsins til að takast á við afleiðingar faraldursins. Í þeirri baráttu verðum við öll sannarlega að standa saman sem eitt.

Ég spáði því í gær að stóru blöðin myndu reyna að fara þá leið í að sverta baráttu FFÍ að útskýra (stundum kallað hrútskýra) fyrir þeim með einhverju random röfli af hverju þær ættu að hlýða stjórunum hjá Icelandair; þær væru mjög heppnar að búa á Íslandi af því að hér væri allt svo fallegt eða þær ættu að vera glaðar að vera hraustar eða hvað það nú er sem menn láta sér detta í hug þegar kemur að því að sannfæra konur um að þær hafi það bara víst mjög gott og eigi að vera til friðs.

Í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti, er í dag oggulítill áróðursmoli til að þeir sem lesi viti hver línan er í bili:
Yfirlýsingar frá flugfreyjum um að þær ætli ekki að taka á sig launalækkanir verkja furðu (auðvitað, við hljótum öll að verða furðu lostin yfir því að „launþegar“ skuli ekki vera til í að fokka sér hratt og örugglega). Konurnar eru bara í sjálfsblekkingu og ekki í tengslum við raunveruleikann! Sem er auðvitað mjög standard fyrir konur og eitt stærsta vandamál mannkynssögunnar. Mér finnst líklegt að framvarðarsveit flugfreyjufélagsins skiptist á að vera á túr svo það sé pottþétt alltaf ein svoleiðis þegar fundað er með Boga Nils og strákunum. Íslands ógæfu verður jú allt að vopni, sérstaklega konur.

Sum hér hafa kannski heyrt orðið „gaslýsing“. Markmið þeirra sem notast við gaslýsingu í mannlegum samskiptum er að láta fólki líða eins og það sé klikkað til að grafa undan því að fólkið trúi á eigin dómgreind og treysti á eigin sýn á veröldina. Mennirnir á Markaðnum sem skrifa núna ljótu orðin sín í litla blaðið sitt um að flugfreyjur séu ekki í tengslum við raunveruleikann af því að þær vilja ekki taka á sig launalækkun ástunda gaslýsingu. Eða hybrid af gaslýsingu og hrútskýringu, sem er vinsælt hybrid um þessar mundir um víða veröld. Enda konur í kvenna-vinnum um alla veröld og mikilvægt að hafa góða stjórn á þeim. Í raun aldrei verið mikilvægara en akkúrat núna í ljósi þeirrar miklu uppivöðslusemi sem tíðkast hjá kvenpersónum á þessum síðustu og verstu.
I’ll keep you posted, það verður spennandi að sjá hvað kemur næst. Efling er reyndar að fara í verkfallskosningu þannig að Eflingar-konurnar hjá sveitarfélögunum munu fljótlega komast fyrstar í röðina hjá strákunum sem vinna við að hella sér með reglulegu millibili yfir konur í konu vinnum. En kannski fáum við og flugfreyjurnar aðeins að skiptast á í því að taka við hroðanum. Menn geta jú verið herramenn ef þeim svo sýnist.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: