- Advertisement -

Stjórnin á bláþræði, sósíalistar og Flokkur fólksins báðir inni

Gunnar Smári skrifar:

Ný könnun MMR sýnir sveiflu milli flokka. Framsókn og Viðreisn tapa fylgi frá síðustu könnun fyrir tveimur vikum og Flokkur fólksins vinnur á. Þetta er breytingin sem nær út fyrir vikmörk. Innan þeirra má sjá að Sjálfstæðisflokkur braggast en breytingar á fylgi annarra flokka er innan marka.Ef niðurstöður MMR nú yrði úrslit kosninga yrði þingheimur svona (innan sviga er breyting frá núverandi þingmannafjölda, eftir flokkaflakk):

Ríkisstjórnin:
Sjálfstæðisflokkurinn: 18 þingmenn (+2)
VG: 8 þingmenn (–1)
Framsókn: 6 þingmenn (–2)


Ríkisstjórnin alls: 32 þingmenn (–1)

Stjórnarandstaða I (hin svokallaða frjálslynda miðja):

Píratar: 8 þingmenn (+1)
Samfylkingin: 7 þingmenn (-1)
Viðreisn: 5 þingmenn (+1)


Stjórnarandstaða I: 20 þingmaður (+1)

Stjórnarandstaða II (nýtt hægri)


Miðflokkurinn: 5 þingmenn (–4)
Flokkur fólksins: 3 þingmenn (+1)


Stjórnarandstaða II: 8 þingmenn (–3)

Stjórnarandstaða III, utan þings:
Sósíalistaflokkurinn: 3 þingmenn (+3)

Ríkisstjórnin heldur velli með minnstum mun, sem fáir munu vilja treysta á. Á liðnu kjörtímabili flúðu tveir þingmenn VG og síðast þegar VG var í stjórn flúðu fimm. Nú mætir VG með Katrínu og Svandísi og fjóra nýliða sem oddvita. Þingflokkur VG verður sem nýr eftir kosningar. Svo fáir munu treysta á ríkisstjórn með eins manns meirihluta með slíkt VG innanborðs.

Fréttirnar af stjórnarandstöðunni eru þær helstar að hin svokallaða frjálslynda miðja er ekki að gera gott mót. Píratar bæta við frá kosningum, en kosningabarátta síðustu tveggja kosninga hefur höggið mjög niður fylgi flokksins. Samfylkingin er enn undir kjörfylgi og Viðreisn nú aðeins rétt yfir sínu, frá kosningum þegar flokkurinn rétt lifði af.Miðflokkurinn er langt undir sínu kjörfylgi og Flokkur fólksins líka, þótt hann stökkvi nú upp eftir afleita mælingu síðast. Flokkur fólksins mælist nú inn á þingi, í fyrsta skipti síðan stuttu fyrir áramót.Sósíalistar eru inni á þingi eins og í mörgum undanförnum könnunum MMR.Ef við tökum breytingarnar á kjörtímabilinu öllu þá er hún þessi samkvæmt þessari könnun:

Sósíalistaflokkurinn: +5,3 prósentustig
Píratar: +3,9 prósentustig
Sjálfstæðisflokkurinn: +1,8 prósentustig
Viðreisn: +1,1 prósentustigSamfylkingin: –0,9 prósentustig
Flokkur fólksins: –1,4 prósentustig
Framsókn: –1,9 prósentustig
Miðflokkurinn: –3,6 prósentustig
VG: –4,5 prósentustig

Af því fylgi sem hreyfist taka sósíalistar til sín nær því helminginn. Flokkar sem eru að tapa eru fyrst og fremst Miðflokkur Sigmundar Davíðs og VG Katrínar Jakobsdóttur.Ríkisstjórnin er ekki á vetur setjandi samkvæmt þessari könnun. Með því að taka Viðreisn inn í stjórnina yrði til 37 þingmanna meirihluti, jafn stór ef Miðflokkurinn yrði tekinn með.

Reykjavíkurmódelið (PSVC) er með 28 þingmenn, næði 34 með Framsókn. Últra hægri stjórn Bjarna Benediktssonar með Sjálfstæðisflokki, Framsókn, Miðflokki og Viðreisn væri með líka með 34 þingmenn.

MMR virðust ætla að gera kannanir á um tveggja vikna fresti til kosninga. Það verður fróðlegt að sjá hvort niðursveifla Framsóknar og Viðreisnar haldið í næstu könnun og uppsveifla Flokks fólksins. Einnig hvort hún sjáist í könnun Maskínu, sem reikna má með fljótlega, og Gallup, sem birtir júníkönnun sína um mánaðamótin.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: