- Advertisement -

Þrátt fyrir þennan meirihlutavilja er hagkerfið í klessu

„Hérna viðurkenndi fjármálaráðherra áðan að þau ættu eftir að efna gefin loforð í almannatryggingum upp á tugi milljarða. Það er bara ágætt að muna það að fólk þarf að bíða aðeins lengur eftir réttlætinu.“

björn Leví Gunnarsson.

Björn Leví Gunnarsson á þingi í dag:

„Síðastliðinn þriðjudag mætti fjármála- og efnahagsráðherra hingað í ræðustól Alþingis og tjáði sig um lýðræði. Með leyfi forseta þá sagði ráðherra:

„Þegar þingið sýnir ekki getu til þess að leyfa meirihlutaviljanum að ná fram að ganga […] þá sé það slæmt fyrir orðspor Alþingis. Það sé vont fyrir stjórnmálin á Íslandi og það sé alls ekki til heilla fyrir þjóðina.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nú man ég ekki betur en svo að það hafi verið meirihlutinn sem tróð einmitt Landsréttarmálinu í gegnum þingið. Einnig tróð meiri hlutinn í gegn lagabreytingu fyrir fiskeldi sem er hægt að lesa um í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar og ég veit ekki betur en að það sé meirihlutinn sem ráði yfir heilbrigðiskerfinu með öllum sínum biðlistum, kvótakerfinu. Og svo er það auðvitað þjóðaratkvæðagreiðslan um nýja stjórnarskrá sem meiri hlutinn er búinn að stinga ofan í skúffu ásamt skýrslum um eignir Íslendinga í skattaskjólum og Lindarhvol.

Þrátt fyrir þennan meirihlutavilja er hagkerfið í klessu, verðbólgan í hæstu hæðum, stýrivextir hækka enn og aftur vegna þess að fjármálaráðherra skilur ekki eftir meira í ríkiskassanum að mati seðlabankastjóra. Og við skulum ekki einu sinni tala um húsnæðiskerfið. En fjármálaráðherra finnst þetta kannski bara vera áróður. Meiri hlutinn á sko að ráða. Þess vegna vil ég spyrja dómsmála- og heilbrigðisrústandi fjármálaráðherra 10% verðbólgu, skattaskjóla og fiskeldis: Ef meirihlutinn ákveður að ráða, til hvers að hafa minnihluta? Á minnihlutinn ekki bara fara heim til þess að hætta að spyrja óþægilegra spurninga og benda á öll mistökin sem meiri hlutinn gerir? Er það lýðræði hæstvirtur ráðherra?“

Hvað getur maður sagt?

Bjarni Benediktsson:

forseti Alþingis ætti að hafa meiri völd.

„Hvað getur maður sagt? Við búum í lýðræðisríki. Við göngum til kosninga með reglulegu millibili og þar er gert upp við þær aðgerðir sem menn hafa hrint í framkvæmd og aðgerðaleysi ríkisstjórna sömuleiðis. Þetta þing hér er vettvangur lýðræðislegrar umræðu þar sem, já, við leiðum til lykta með meirihlutavilja þingsins hvert málið á fætur öðru. Þegar ég bendi á að það sé mikilvægt að við getum gert einmitt það, að leyfa meirihluta þingviljans að koma fram reglulega þá er ég auðvitað ekki að segja að minni hlutinn hafi ekki hlutverki að gegna. Ég er bara að segja að þegar menn eru hér í ræðustól að flytja á annað hundrað ræður sem eru ekkert annað en endurtekning og tafaleikir til að reyna að þvinga fram einhverja niðurstöðu í máli, þá eru menn að misbeita valdi sínu. Og já, mér finnst að þingsköpin ættu að gera betur í að taka á því. Mér finnst t.d. persónulega að forseti Alþingis ætti að hafa meiri völd hér á þinginu til að skammta umræðutíma fyrir mál í samræmi við umfang þeirra. Mér finnst að Píratar hafi verið hér í grímulausu málþófi svo dögum skiptir. Ég benti bara á það og ég vona að það hafi ekki stungið illa. En nú er því lokið og á endanum munum við einmitt greiða atkvæði. Þá fá allir að segja sinn hug, líka þeir sem eru í minni hluta og hlutur þeirra er alveg jafn mikilvægur í umræðunni þegar við göngum næst til kosninga. Sagan sýnir að kjósendur gera einmitt það. Þeir vega og meta annars vegar hvernig menn hafa staðið sig og til hvers þeir horfa til lengri tíma að gera næst, og hafa bara staðið sig ágætlega í því að mínu mati að gera upp við fortíðina og leggja mat á hugmyndir til framtíðar. Það geta þeir gert með því að við notum með skynsamlegum hætti þennan ræðustól og þetta þing til þess að takast á. En að lokum verður að komast að niðurstöðu í málum.“

Heilbrigðiskerfið í rúst

Björn Leví aftur:

Lýðræðið er líka að hlusta á hverjum degi.

„Blessunarlega búum við við lýðræði á Íslandi, reyndar með pínu skekkt kosningakerfi sem er vilhallt stærri flokkunum sem fá aukaþingmenn, svona bara af því að það hentar þeim. Undanfarið erum við búin að vera með þetta æðislega kvótakerfi sem hyglir mjög fáum, ekki öllum, fjármagnar ekki eftirlit með auðlindinni. Við erum með heilbrigðiskerfið í rúst, eins og ég nefndi hérna áðan, en alltaf þegar minni hlutinn segir: Bíddu, væri ekki sniðugt að gera þetta öðruvísi? þá hlustar meirihlutinn ekki, enda er staðan eins og hún er. Lýðræðið skilar svo sem sínu í kosningum á fjögurra ára fresti en lýðræðið er meira en kosningar á fjögurra ára fresti. Lýðræðið er líka að hlusta á hverjum degi. Alltaf. Hérna viðurkenndi fjármálaráðherra áðan að þau ættu eftir að efna gefin loforð í almannatryggingum upp á tugi milljarða. Það er bara ágætt að muna það að fólk þarf að bíða aðeins lengur eftir réttlætinu.“

„Ég greiddi atkvæði gegn landsdómi“

Bjarni Benediktsson sagði svo:

Þannig veltur hvert málið á eftir öðru fram í tímans rás.

„Fyrst þetta síðasta. Ég var ekki að tala um að ríkisstjórnin ætti eftir að efna gefin loforð, ég sagði að háttvirtur þingmaður, sem bar fram spurningu hérna áðan, vildi efna eigin loforð. Það hefur ekkert með ríkisstjórnina að gera. Öll þessi mál sem háttvirtur þingmaður hefur talið hér upp að hann hafi verið ósammála, mörgum þeirra var ég líka ósammála. Já, ég greiddi atkvæði gegn landsdómi, svo dæmi sé tekið. En er það eitthvert innlegg inn í umræðu um það hvort meirihlutinn eigi að fá að ráða? Hann verður bara að fá ráða. Þannig framkvæmum við lýðræðið og svo göngum til kosninga. Eins og það mál er ágætisdæmi um þá varð bara meirihlutaviljinn að fái að koma fram. Og hvernig fór svo fyrir flestum þeim sem greiddu atkvæði með því máli fyrir rest? Ég held að þeir hafi ekki komist vel frá því og margir þeirra hafa í millitíðinni beðist afsökunar. Þannig veltur hvert málið á eftir öðru fram í tímans rás. Við þurfum að halda áfram að bæta lýðræði þar sem það er hægt og um það snerist mín umræða hér sem háttvirtur þingmaður hefur látið fara í taugarnar á sér. En nú eru þau hætt málþófinu þannig að við getum kannski farið að ræða eitthvað annað.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: